Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings

Grunnskólinn í Hveragerði er í samstarfi við Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Markmið hennar eru m.a. að:

  • Styrkja og styðja faglega við starf skólanna þannig að innan þeirra sé hægt að leysa flest þau verkefni sem upp koma með öflugri ráðgjöf og fræðslu til kennara og starfsfólks.
  • Styðja við og efla samvinnu leik- grunn- og framhaldsskóla í Árnesþingi og stuðla að samvinnu skóla og fagfólks á svæðinu.
  • Styrkja nemendur, foreldra og starfsfólk skólanna. Stuðla að bættri líðan nemenda og efla þá í námi og starfi með hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar.
  • Stuðla að framþróun í skólastarfi og kynna nýjungar með tilliti til sérstöðu hvers skóla.

Innan Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings starfa m.a. kennsluráðgjafar, talmeinafræðingar og sálfræðingar en verkefni sálfræðinga snúast m.a. um athuganir á einstaklingum. Einstaklingsathuganir hefjast yfirleitt á því, að heimili og skóli sameinast um, að senda Skóla- og velferðarþjónustunni tilvísun. Þar kemur fram ástæða þess að leitað er eftir sálfræðiþjónustu. Fyrsta skrefið í vinnuferli sálfræðings er að gera athugun á vanda barnsins, sem getur tengst námi, hegðun, félagslegum samskiptum eða líðan. Slík athugun getur falið í sér viðtöl við nemandann, foreldra og kennara, ásamt fyrirlögn ýmissa verkefna sem ætlað er að skýra stöðu nemandans. Í sumum tilvikum gerir sálfræðingurinn athuganir á barninu í leik og starfi á skólatíma. Sálfræðingar hafa réttindi til að leggja fyrir ýmiss konar próf og kannanir.