Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings

Auk annarrar sérfræðiaðstoðar er Grunnskólinn í Hveragerði í miklu samstarfi við Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings um slíka þjónustu.

Markmið hennar eru m.a. að:

  • Styrkja og styðja faglega við starf skólanna þannig að innan þeirra sé hægt að leysa flest þau verkefni sem upp koma með öflugri ráðgjöf og fræðslu til kennara og starfsfólks.
  • Styðja við og efla samvinnu leik- grunn- og framhaldsskóla í Árnesþingi og stuðla að samvinnu skóla og fagfólks á svæðinu.
  • Styrkja nemendur, foreldra og starfsfólk skólanna. Stuðla að bættri líðan nemenda og efla þá í námi og starfi með hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar.
  • Stuðla að framþróun í skólastarfi og kynna nýjungar með tilliti til sérstöðu hvers skóla.

Nemendur með greiningar hafa allir verið greindir af sérfræðingum Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar eða Barna – og unglingageðdeild Landspítalans.

Innan Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings starfa m.a. kennsluráðgjafar, talmeinafræðingar, sálfræðingar og sérfræðingar sem sinna félagslegri aðstoð en markmið slíkrar aðstoðar er að koma einstaklingum og fjölskyldum til aðstoðar í tímabundnum erfiðleikum. Aðstoðin er fólgin í félagslegri ráðgjöf og tiltækum félagslegum úrræðum.

Kennsluráðgjafar veita ráðgjöf til skólastjóra, kennara og annars starfsfólks, bæði um inntak og skipulag í þeim tilgangi að efla skóla stöðugt í starfi. Verkefni kennsluráðgjafa felast meðal annars í því að stuðla að samstarfi leik- og grunnskóla á svæðinu og samstarfi einstakra hópa í skólunum t.d. kennara sömu námsgreina. Þeir hafa frumkvæði að verkefnum sem stuðla að sameiginlegum markmiðum skólanna og skólaþjónustu. Þá veita þeir stuðning við skimanir á deildum og í bekkjum eða skimar líðan, náms- og þroskastöðu, námsframvindu, félagsfærni og hegðun. Þeir veita ráðgjöf og handleiðslu um verklag við snemmtæka íhlutun, þ.e. að bregðast fljótt við námslegum, félagslegum og sálrænum vanda hjá börnum og stuðla að kennslu og stuðningi við hæfi í samvinnu við sálfræðing.

Talmeinafræðingar annast greiningar, þjálfun og ráðgjöf vegna barna og unglinga með skertan málþroska, framburðar- og talerfiðleika. Þeir leiðbeina foreldrum og annast fræðslu og eftirfylgd mála. Talmeinafræðingar vinna samkvæmt samkomulagi milli Velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn með hin ýmsu málþroskafrávik.

Sálfræðingar veita ráðgjöf til starfsfólks skólans vegna erfiðleika einstakra nemenda. Sérstök áhersla er á að auka þekkingu og færni starfsfólks til að leysa vanda nemenda. Forráðamenn fá jafnframt hagnýta fræðslu og almennar leiðbeiningar um uppeldi.

Verkefni sálfræðinga snúast m.a. um athuganir á einstaklingum. Einstaklingsathuganir hefjast yfirleitt á því, að heimili og skóli sameinast um, að senda Skóla- og velferðarþjónustunni tilvísun. Þar kemur fram ástæða þess að leitað er eftir sálfræðiþjónustu. Fyrsta skrefið í vinnuferli sálfræðings er að gera athugun á vanda barnsins, sem getur tengst námi, hegðun, félagslegum samskiptum eða líðan. Slík athugun getur falið í sér viðtöl við nemandann, foreldra og kennara, ásamt fyrirlögn ýmissa verkefna sem ætlað er að skýra stöðu nemandans. Í sumum tilvikum gerir sálfræðingurinn athuganir á barninu í leik og starfi á skólatíma. Sálfræðingar hafa réttindi til að leggja fyrir ýmiss konar próf og kannanir.

Sálfræðingar eru í samstarfi við aðrar stofnanir sem þjónusta börn og þeir sitja í teymum vegna einstakra nemenda.

Þeir foreldrar, nemendur eða kennarar sem óska eftir viðtali við skólasálfræðing setji sig í samband við aðstoðar­skólastjóra. Óskir um greiningar fara fyrir nemendaverndarráð skólans.