Aðkoma og umferðaröryggi

AÐKOMA

Umferðaröryggi grunnskólabarna er afskaplega mikilvægt!

Mikilvægt er að gera það sem mögulegt er til að draga úr umferð við skólann. Foreldrar eru því hvattir til að stilla umferð bifreiða um skólasvæðið í hóf og hvetja börnin til að ganga eða hjóla í skólann eftir öruggum leiðum. Nemendur eru jafnframt hvattir til að vera með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.

Foreldrar sem aka börnum sínum í skólann eru vinsamlega beðnir um að nota svokölluð sleppistæði, en þau gera kleift að hleypa börnum úr bílnum á öruggu svæði. Mikilvægt er að nota sleppistæðin, þegar börnum er ekið í skóla, en ekki síst að nota þau rétt. Miðað er við innakstur á ákveðnum stað og útakstur á ákveðnum stað, en þannig næst rétt flæði umferðar og öryggis er gætt. Með öryggi grunnskólabarna að leiðarljósi eru foreldrar vinsamlega beðnir að nota sleppistæði (í réttri akstursstefnu) meðfram skólalóð í Fljótsmörk. Eins er hægt að aka inn Skólamörk frá Breiðumörkinni og stöðva við aðalinngang íþróttahúss.

Foreldrar nemenda sem keyra börnin sín í skólann eru beðnir að nota ALLS EKKI planið við Garðshorn (á horni Skólamerkur/Reykjamerkur) sem sleppistæði.

Þá er snjallgangbraut við Breiðumörk hjá Skyrgerðinni og eykur hún öryggi gangandi vegfarenda til mikilla muna. Uppsetning gangbrautarinnar er afrakstur vinnu umferðar­öryggishóps sem starfandi var í Grunnskólanum í Hveragerði en hópurinn óskaði eindregið eftir aðgerðum sem bæta myndu öryggi barna við grunnskólann og á gönguleiðum nálægt skólanum. Þessi staðsetning var valin þar sem börn fara þarna yfir Breiðumörk á leið í skólann og einnig á leið sinni í Bungubrekku þar sem frístund og félagsmiðstöð er til húsa.

UMFERÐARÖRYGGISREGLUR SKÓLANS

NOTKUN FARARTÆKJA Á HJÓLUM (REIÐHJÓL, RAFMAGNSHLAUPAHJÓL, VESPUR O.S.FRV.) ER BÖNNUÐ Á SKÓLALÓÐ Á SKÓLATÍMA!

Tekið skal fram að bannið á einnig við um akstur að og frá Laugaskarði.

Reiðhjól og hlaupahjól skal geyma í tilheyrandi hjólagrindum við skólann en leggja skal vespum í vespustæði norðanmegin við skóla. Nemendur mega ekki skilja hjól eftir við anddyri skólans né koma með þau inn í skólabygginguna.

Farartækin eru á ábyrgð nemenda og aðstandenda þeirra.

Gönguferðir 

Nemendur noti endurskinsvesti eftir þörfum. 

Ávallt skal ganga eftir gangbrautum og fylgja almennum umferðarreglum. Þetta á einnig við þegar nemendur fara í/úr sundtíma. 

Stuðningsfulltrúar fylgi nemendum í 1. og 2. bekk í frístundaheimilið Brekkubæ. 

Vettvangsferð - Rútuferðir

Nemendur noti ávallt öryggisbelti og sitji kyrrir í sætum sínum meðan rútan er á ferð.

Virðing, kurteisi og tillitssemi sé höfð að leiðarljósi.

Nemendur mæti stundvíslega í rútuna.

Bílsessur verði notaðar eftir þörfum.

Nemendur hlýði bílstjóra og fararstjórum.

Nemendur gangi vel um.

Matur og drykkur er ekki leyfður.

Vettvangsferð - Hjólreiðar

Hjólreiðar eru bannaðar á skólatíma nema um vettvangsferð sé að ræða með leyfi kennara.

Búnaður sé þá í lagi, þ.á.m. bremsur, endurskin og/eða ljós.

Nemendur noti í öllum tilvikum reiðhjólahjálm.

Nemendur fylgi almennum umferðarreglum um hjólreiðar.