Aðkoma og umferðaröryggi

AÐKOMA

Umferðaröryggi grunnskólabarna er afskaplega mikilvægt!

ATH: sjá hér frétt: Vegna framkvæmda við íþróttahús

Mikilvægt er að gera það sem mögulegt er til að draga úr umferð við skólann. Foreldrar eru því hvattir til að stilla umferð bifreiða um skólasvæðið í hóf og hvetja börnin til að ganga eða hjóla í skólann eftir öruggum leiðum. Nemendur eru jafnframt hvattir til að vera með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.

Foreldrar sem aka börnum sínum í skólann eru vinsamlega beðnir um að nota svokölluð sleppistæði, en þau gera kleift að hleypa börnum úr bílnum á öruggu svæði. Mikilvægt er að nota sleppistæðin, þegar börnum er ekið í skóla, en ekki síst að nota þau rétt. Miðað er við innakstur á ákveðnum stað og útakstur á ákveðnum stað, en þannig næst rétt flæði umferðar og öryggis er gætt. Með öryggi grunnskólabarna að leiðarljósi eru foreldrar vinsamlega beðnir að nota sleppistæði (í réttri akstursstefnu) meðfram skólalóð í Fljótsmörk. 

Foreldrar nemenda sem keyra börnin sín í skólann eru beðnir að nota ALLS EKKI planið við Garðshorn (á horni Skólamerkur/Reykjamerkur) sem sleppistæði.

Þá er snjallgangbraut við Breiðumörk hjá Skyrgerðinni og eykur hún öryggi gangandi vegfarenda til mikilla muna. Uppsetning gangbrautarinnar er afrakstur vinnu umferðar­öryggishóps sem starfandi var í Grunnskólanum í Hveragerði en hópurinn óskaði eindregið eftir aðgerðum sem bæta myndu öryggi barna við grunnskólann og á gönguleiðum nálægt skólanum. Þessi staðsetning var valin þar sem börn fara þarna yfir Breiðumörk á leið í skólann og einnig á leið sinni í Bungubrekku þar sem frístund og félagsmiðstöð er til húsa.

UMFERÐARÖRYGGISREGLUR SKÓLANS

NOTKUN FARARTÆKJA Á HJÓLUM (REIÐHJÓL, RAFMAGNSHLAUPAHJÓL, VESPUR O.S.FRV.) ER BÖNNUÐ Á SKÓLALÓÐ Á SKÓLATÍMA!

Tekið skal fram að bannið á einnig við um akstur að og frá Laugaskarði.

Reiðhjól og hlaupahjól skal geyma í tilheyrandi hjólagrindum við skólann en leggja skal vespum í vespustæði norðanmegin við skóla. Nemendur mega ekki skilja hjól eftir við anddyri skólans né koma með þau inn í skólabygginguna.

Farartækin eru á ábyrgð nemenda og aðstandenda þeirra.

Gönguferðir 

Nemendur noti endurskinsvesti eftir þörfum. 

Ávallt skal ganga eftir gangbrautum og fylgja almennum umferðarreglum. Þetta á einnig við þegar nemendur fara í/úr sundtíma. 

Stuðningsfulltrúar fylgi nemendum í 1. og 2. bekk í frístundaheimilið Brekkubæ. 

Vettvangsferð - Rútuferðir

Nemendur noti ávallt öryggisbelti og sitji kyrrir í sætum sínum meðan rútan er á ferð.

Virðing, kurteisi og tillitssemi sé höfð að leiðarljósi.

Nemendur mæti stundvíslega í rútuna.

Bílsessur verði notaðar eftir þörfum.

Nemendur hlýði bílstjóra og fararstjórum.

Nemendur gangi vel um.

Matur og drykkur er ekki leyfður.

Vettvangsferð - Hjólreiðar

Hjólreiðar eru bannaðar á skólatíma nema um vettvangsferð sé að ræða með leyfi kennara.

Búnaður sé þá í lagi, þ.á.m. bremsur, endurskin og/eða ljós.

Nemendur noti í öllum tilvikum reiðhjólahjálm.

Nemendur fylgi almennum umferðarreglum um hjólreiðar.