Jafnréttisáætlun

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun. Tilgangurinn með lögunum er fyrst og fremst sá að þannig sé best tryggt að hæfileikar og færni allra fái notið sín. Til þess að áætlunin þjóni tilgangi sínum þarf að setja fram mælanleg og tímasett markmið eða aðgerðaáætlun.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og í Aðalnámskrá grunnskóla er víða fjallað um jafnrétti kynjanna og mannréttindi. Þar er áherslan á að bæði kynin hafi jafnan rétt til náms, þátttöku í samfélaginu, fjölskyldu- og atvinnulífi. Markmið námsins og kennslunnar og starfshættir skólans skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun m.a. vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar og trúarbragða.

Einnig segir í Aðalnámskrá grunnskóla að markmið jafnréttismenntunar sé að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mis­mununar sumra og forréttinda annarra.

Allt skólastarf skal vera í anda jafnréttis. Jafnrétti á að vera samofið leik og starfi nemenda og starfsfólks og þurfa allir að geta starfað í þeirri vissu að ekkert hamli þeirra starfsánægju.

Jafnréttisáætlun Grunnskólans í Hveragerði tekur til annars vegar nemenda og hins vegar starfsmanna. Lögð er áhersla á að skólastarfið miði að því að styrkja og efla hvern og einn til framfara og þroska. Mikilvægt er að starfið mótist af metnaði og hvatningu til sjálfstæðra vinnubragða og aukinnar víðsýni, þar sem hver og einn fær notið sín á eigin forsendum. 

Stefna Grunnskólans í Hveragerði er að gætt skuli fyllsta jafnréttis milli kynja og að hver einstaklingur, nemandi eða starfsmaður, verði metinn á eigin forsendum. Þannig verði tryggt að mannauður nýtist sem best. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og er það stefna skólans að útrýma slíkri mismunun komi hún í ljós.

Samskipti allra í skólanum eiga að grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi, sem er forsenda þess að öllum líði vel. Áðurnefnd einkunnarorð skólans, viska, virðing og vinátta og þær skilgreiningar sem starfsfólk og nemendur skólans leggur sameiginlega í þau ná utan um skólastarfið og jafnréttisáætlun skólans.

Í Grunnskólanum í Hveragerði á sér stað innra mat á skólastarfinu, hvort sem um er að ræða starfsmannakannanir, starfsmannasamtöl eða kannanir meðal nemenda og foreldra. Með þessum könnunum gefst gott tækifæri til að kanna og leggja mat á stöðu jafnréttismála í skólanum. Notast er við Skólapúlsinn til að kanna stöðu jafnréttismála í Grunnskólanum í Hveragerði.

Jafnréttisáætlun skólans er kynnt fyrir öllum þeim sem að skólastarfinu koma.

Nemendur og jafnrétti:

Veita þarf börnum og unglingum hvatningu og tækifæri til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án þess að hefðbundnar kynjaímyndir hafi þar áhrif. Allt starfsfólk skal leitast við að styrkja jákvæða kynímynd stúlkna og drengja og vinna sérstaklega gegn áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.

Lögð er áhersla á að nemendum sé ávallt sýnd virðing í samskiptum og þeir metnir að verðleikum þannig að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.

Markmið:

  • · Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð.
  • · Námsframboð og viðfangsefni skulu höfða til allra óháð kyni.
  • · Kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir.
  • · Markvisst skal unnið gegn stöðluðum kynímyndum stúlkna og drengja, og þess gætt að kennslu- og námsgögn skólans mismuni ekki kynjum.
  • · Gæta skal jafnréttis í öllu starfi skólans og þess gætt að nemendur fái fræðslu/ráðgjöf varðandi nám og störf óháð kyni.
  • · Leita skal allra leiða til að efla sjálfsvirðingu og sjálfsvitund nemenda með það að markmiði að styrkja hvern einstakling í að velja út frá eigin sannfæringu en ekki út frá viðhorfum hóps eða staðalímyndum.
  • · Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og einelti verða ekki liðin.

Leggja skal áherslu á að allt skólastarf miði að því að undirbúa nemendur af báðum kynjum fyrir einkalíf, fjölskyldulíf, félags- og atvinnulíf.  Námsefni mismuni ekki kynjum og í náms- og starfsfræðslu verði lögð áhersla á að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hafa verið talin hefðbundin kvenna- eða karlastörf.

Námsmat:

Einkunnir við lok 4., 7. og 10. bekk á stöðluðum könnunarprófum eru skoðaðar með reglulegu millibili og greindar eftir kynjum. Ef í ljós kemur verulegur munur á einkunnum nemenda eftir kyni þarf að grípa til sérstakra aðgerða, með það fyrir augum að staða kynja verði sem jöfnust. Viðbrögð gætu verið að breyta kennsluháttum, námsefni, samsetningu námshópa eða auka tímabundið við stuðning.

Hvernig: Skoða niðurstöður úr stöðluðum könnunarprófum.

Hvenær: Á þriggja ára fresti, fyrst gert vorið 2020.

Ábyrgðarðili: Skólastjóri, deildarstjórar og kennarar.

Sjálfsmynd:

Lögð er áhersla á að allir nemendur þjálfist í að þekkja og tjá tilfinningar sínar og læri um leið að virða tilfinningar annarra óháð kyni, uppruna, búsetu, trú eða fötlun. Leggja skal árlega fyrir nemendur spurningar um til dæmis líðan, sjálfsmynd, áform og virkni. Er munur eftir kynjum? Ef svo er þarf að vinna sérstaklega með þær niðurstöður. Þetta sjálfsmat nemenda má einnig nota sem innlegg í nemenda- og foreldrasamtöl.

Hvernig: Meðal annars með Skólapúlsi og umræðum eftir nemendaþing.

Hvenær: Í tengslum við foreldraviðtöl ár hvert, að hausti, í janúar og að vori.

Ábyrgðarðili: Skólastjórnendur, námsráðgjafar og umsjónarkennarar.

Námsefni:

Allir kennarar skólans verða að skoða og meta allt námsefni út frá jafnréttissjónarmiði. Það þarf að hafa að leiðarljósi að vinna með námsefni/kennslugögn sem byggja á jafnréttishugmyndum.

Hvernig: Skoða námsefni sem verið er að nota með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Mögulegt er að styðjast við gátlista frá Menntamálastofnun.

Hvenær: Við upphaf skólaárs og áður en nýtt námsefni er tekið í notkun.

Ábyrgðarðili: Deildarstjórar og kennarar.

Kennsluhættir:

Kennarar notast við fjölbreytta kennsluhætti. Mismunandi leiðir eru notaðar til að læra og fanga sem best áhuga þeirra og næmni til náms. Þannig er líklegast að allir fái kennslu við hæfi og ólík reynsla og gildismat fái notið sín. Mikilvægt er að skólinn bjóði upp á námskeið fyrir kennara þar sem fjallað er um jafnrétti kynjanna og sérstaklega um jafnréttismiðaða kennslu.

Hvernig: Gátlistar fyrir nemendur og kennara til að nýta í kennslustundum. Með jafnréttisfræðslu til nemenda og starfsmanna.

Hvenær: Í stanslausri skoðun.

Ábyrgðarðili: Kennarar og nemendur.

Kennsla í jafnrétti:

Það er lykilatriði að vinna markvisst með jafnrétti í lífsleiknitímum. Þó svo að lífsleikni komi ekki inn í námskrá fyrr en í 4. bekk er allt skólastarf yngri nemenda samofið lífsleikniáherslum eða þjálfun. Strax í 1. bekk er því hægt að byrja að vinna með nemendur í anda jafnréttis. Hér má benda á þemahefti sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út um jafnrétti. Umsjónartímar og bekkjarfundartímar eru góðir til umræðna um jafnrétti og jafréttismál.

Hvernig: Koma þarf fram, í kennsluáætlun og námskrá, hvernig og hvenær slík kennsla fer fram. Hvenær: Jafnt og þétt yfir allt skólaárið.

Ábyrgðarðili: Umsjónarkennarar og námsráðgjafi.

Skólanámskrá – áætlanir:

Nauðsynlegt er að skoða í hvaða námsgreinum/námskrám er sérstaklega fjallað um jafnrétti kynjanna eða hefðbundnum kynímyndum viðhaldið. Í allri áætlanagerð er unnið sérstaklega með jafnrétti kynjanna að leiðarljósi. Allar námsgreinar tengjast beint eða óbeint jafnrétti.

Hvernig: Hver og einn kennari verður að skoða það námsefni sem nemendur vinna með, þær áherslur sem kennari leggur í skólastarfinu í daglegu samneyti við nemendur, það gildismat sem ríkir í skólanum/nemendahópnum og þær kennsluaðferðir sem unnið er eftir.

Hvenær: Jafnt og þétt yfir skólaárið, auk þess sem þessir þættir eru sérstaklega skoðaðir þegar velja á nýtt námsefni og einnig þegar námskrá er endurskoðuð árlega.

Ábyrgðarðili: Stjórnendur og kennarar.

Íþrótta- og félagsstarf nemenda:

Það þarf að hafa að leiðarljósi jafnan hlut kynja við val í nemendaráð og við hvert það tækifæri þegar nemandi eða nemendur skólans koma fram fyrir hans hönd. Einnig að skólinn leggi jafna áherslu á þátttöku stráka og stelpna í íþróttamótum.

Hvernig: Hvetja bæði kyn til þátttöku, efla sjálfstraust með markvissri kennslu í lífsleikni.

Hvenær: Alltaf í íþrótta- og félagsstarfi nemenda .

Ábyrgðarðili: Umsjónarkennarar og íþróttakennarar.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni:

Það þarf að gera nemendum ljóst að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni verði aldrei liðin í skólanum. Það þarf að setja meðferð slíkra mála í ákveðinn farveg samanber einelti og áföll. Nemendur eiga alls ekki að sætta sig við kynferðislega áreitni. Það þarf að gera nemendum grein fyrir því að áreitni getur birst í mörgum myndum, til dæmis í orðum eða látbragði og að þolmörk einstaklinga eru mismunandi. Nemendur eiga hvorki að sætta sig við áreitni af hendi samnemenda né starfsmanna skólans. Hér ber að skoða sérstaklega nýjar leiðir sem notaðar eru til áreitis svo sem tölvur og símar.

Hvernig: Virk samvinna við stoðþjónustuna; Félagsþjónustuna, Barnavernd, Barnahús og lögreglu er nauðsynleg til þess að hægt sé að tryggja sem best velferð nemenda. Ef upp kemur grunur/vissa um að nemandi hafi orðið fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegu áreiti í skólanum eða utan hans skal samstundis haft samband við barnaverndaryfirvöld og Barnahús. Hafa ber samband við foreldra ef þeir tengjast á engan hátt meintu áreiti. Gagnkvæm og traust samvinna við heimili nemenda og ýmis félaga­samtök til dæmis íþróttafélög, félagsmiðstöðina Skjálftaskjól og félagasamtök þarf að vera til staðar. Kennarar komi fræðslu um kynferðislega áreitni inn í námsefnið eins og við verður komið og vísi til jafnréttisáætlunar skólans.

Hvenær: Á haustmisseri hvert skólaár er fræðsla fyrir alla nemendur og starfsfólk sem snýr að þessum þætti. Skólaárið 2018-2019 var fræðsla fyrir nemendur í mars.

Ábyrgðarðili: Skólastjóri og kennarar

Samstarf heimilis og skóla:

Mikilvægt er að foreldrar af öllum kynjum fái tækifæri til að taka virkan þátt í skólagöngu barna sinna. Hvetja skal foreldra af öllum kynjum til að taka virkan þátt í skólagöngu barna sinna, þátttöku í viðburðum á vegum skólans og starfi innan foreldrafélagsins.

Hvernig: Leggja skal áherslu á að taka reglulega upp umræðu um mannréttindi, jafnréttismál og jafnréttisáætlun skólans í foreldraráði. Hvetja skal foreldra af öllum kynjum til að koma í heimsókn í skólann.

Hvenær: Við upphaf skólaárs.

Starfsmenn:

Engin störf innan skólans eru flokkuð sem sérstök kvenna- eða karlastörf. Bjóða skal starfsfólki upp á fræðslu og endurmenntun um jafnréttismál og kynferðislega áreitni. Starfsfólki skulu tryggðir möguleikar til endurmenntunar og starfsþróunar, óháð kyni. Kynbundið ofbeldi, áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum.

Hvernig: Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum. Öll kyn skulu hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsmanna.

Hvenær: Fræðsla árlega á starfsmannafundi, við skipulag að hausti skal tekið tillit til jafnréttissjónarmiða við deilingu verkefna.

Ábyrgðarðili: Stjórnendur.

Auglýsingar:

Störf skulu auglýst eftir því sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir.

Hvernig: Hafa skal öll kynin í huga þegar störf eru auglýst og leitast við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Við ráðningar verði unnið í samræmi við verklagsreglur Hveragerðisbæjar um ráðningar með tilliti til kynjasjónarmiða.

Hvenær: Í hvert sinn sem ráðningar eiga sér stað.

Ábyrgðarðili: Skólastjóri.

Launajafnrétti:

Þess skal gætt að allir starfsmenn njóti sömu kjara fyrir sömu eða sambærilega vinnu. Einnig skal þess gætt að þátttaka í launaðri yfirvinnu s.s. stýrihópum, vinnuhópum og teymum standi báðum kynjum jafnt til boða.

Hvernig: Með launagreiningu starfsmanna.

Hvenær: Við skipulagningu kennsluárs og alltaf þegar við á.

Ábyrgðarðili: Skólastjóri og launafulltrúi Hveragerðisbæjar.

Samræming fjölskyldu og vinnustaðarins:

Allir starfsmenn og nemendur eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynferðislegri né kynbundinni áreitni. Ætíð skal þess gætt að starfsmenn, karlar og konur, geti eftir fremsta megni starfrækt starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Hvernig: Með tilfærslu vinnutíma eftir þörfum, eða heimila að vinna sé að einhverju leyti stunduð að heiman. Með því að auðvelda starfsfólki að koma aftur til starfa eftir fæðingarorlof og veikindi.

Hvenær: Reglulega

Ábyrgðarðili: Skólastjóri og trúnaðarmenn. Að öðru leiti er vísað í jafnréttisáætlun Hveragerðisbæjar.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni:

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum eða í félagsstarfi á vegum skólans.

Hvernig: Öllu starfsfólki skal gert ljóst að einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni, í hvaða formi sem hún er, verði aldrei liðin í skólanum og að brugðist verði fljótt við slíkum ábendingum innan skólans. Málefnið tekið fyrir með reglubundnum hætti á starfsmannafundum.

Hvenær: Rýnt verður í niðurstöður kannana um líðan sem lagðar eru fyrir starfsmenn og í upplýsingar sem fram koma í starfsmannasamtölum.

Ábyrgðarðili: Skólastjórnendur og kennarar.

Kynning:

Árlega þarf að kynna jafnréttisáætlun skólans og þá sérstaklega þann hluta er snýr að nemendum Hvernig: Á haustfundum og á heimasíðu skólans.

Ábyrgðarðili: Skólastjórnendur og umsjónarkennarar.

Sjá einnig jafnréttisáætlun Hveragerðisbæjar hér:

 https://www.hveragerdi.is/static/files/Stjornkerfi/Stefnur/jafnrettisaaetlun-2023-2027.pdf