Samfella milli skólastiga

Samstarf við leikskóla og framhaldsskóla er mikilvægur þáttur og í Grunnskólanum í Hveragerði hefur starfsfólk lagt sig fram um að gera flutning barna á milli skólastiga sem auðveldastan og ánægjulegastan fyrir nemendur og foreldra.

Leikskóli

Kennarar 1. bekkja, kennarar skólahóps á leikskóla auk stjórnenda úr öllum skólunum þremur; grunn­skólanum og leikskólunum Óskalandi og Undralandi funda með reglubundnum hætti þar sem rætt er um skólastarfið á báðum stigum. Á þessum fundum er skipst á upplýsingum um starfið í skólunum. Kennarar leitast við að átta sig á hvaða reynslu börnin koma með úr leikskólanum. Samstarf leikskólanna og grunnskólans hefst þegar barn er á síðasta ári í leikskóla í skólahópi. Strax þá um haustið koma börnin í heimsóknir með leikskóla­kennurunum þar sem þau fá að skoða skólann og hitta skólastjórnendur. Í desember koma þau og taka þátt í gangasöng með öllum nemendum skólans. Eftir áramót koma þau svo í heimsóknir í 1. bekkinn og taka þátt í skólastarfinu. Nemendur í 1. bekk bjóða nemendum leikskólanna að koma og horfa á atriðin sem þau sýna foreldrum á bekkjarkvöldi og á árshátíð. Um vorið er sameiginleg gönguferð með báðum leikskólunum og 1. bekkjunum.

Síðasti þátturinn í samstarfinu er vorskólinn. Öll börnin fá boðsbréf í vorskólann sem er í þrjá daga. Fyrsta daginn í vorskólanum er foreldrum boðið að koma í heimsókn í kaffispjall þar sem þeim gefst tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum. Þeir geta einnig áttað sig á hvaða börn eru með barninu þeirra í árgangi. Þarna hitta þeir kennarana og skoða húsnæðið. Kaffispjallið er óformlegt en foreldrar geta spurt.  Stefnt er að því að þeir kennarar sem munu kenna 1. bekk veturinn eftir taki á móti nemendum í vorskólanum. Skömmu síðar er formlegur fundur með öllum foreldrum þeirra á sal skólans. Þar kynna kennarar starfið í fyrsta bekk, svara spurningum og ræða m.a. skólafærninámskeið að hausti sem skylt er að taka þátt í. Loks fara nemendur í 1. bekk í heimsókn í gamla leikskólann sinn í september.

Framhaldsskóli

Langflestir nemendur hefja nám í framhaldsskóla strax að loknum grunnskóla og er því mikilvægt að þeir fái góðar upplýsingar um hvað er í boði fyrir þá, bæði í heimabyggð sem og aðra skóla. Þessi fræðsla er að mestu á ábyrgð náms- og starfsráðgjafa skólans sem eru tengiliðir skólans við framhaldsskóla. Þeir byrja strax í 8. bekk að kynna fyrir nemendum nám að loknum grunnskóla en úr miklu er að velja í námsúrvali framhaldsskólanna. Fræðslunni er skipt upp á eftirfarandi hátt:

8. bekkur: Námsbrautir og inntökuskilyrði framhaldsskólanna eru kynnt.

9. bekkur: Námsbrautir og inntökuskilyrði framhaldsskólanna eru kynnt.

10. bekkur: Nemendur fá ítarlega kynningu á námsbrautum framhaldsskólanna, inntökuskilyrðum og framhaldsskólakerfinu (áfangakerfi/bekkjakerfi).

Nemendum stendur auk þess til boða að heimsækja nokkra framhaldsskóla. Jafnframt geta nemendur fengið einstaklingsmiðaða ráðgjöf ef þess er óskað, auk þess að taka áhugasviðskönnun, sem getur hjálpað þeim að taka ákvörðun um náms- eða starfsval.

Þeir nemendur sem lokið hafa námsefni 10.bekkjar og/eða teljast hafa náð tilætlaðri hæfni í viðkomandi fagi, samkvæmt aðalnámskrá, eiga kost á því að taka áfanga í fjarnámi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Nemendur sem stunda fjarnám fá aðstoð frá kennurum grunnskólans en FSu sér að öllu öðru leyti um kennslu og skipulag áfanganna.

Hjá námsráðgjöfum er að finna ýmsa bæklinga og upplýsingar um framhaldsskóla. Á vefslóðinni idan.is má einnig finna upplýsingar um nám og störf að loknum grunnskóla. Sjá nánar um störf náms- og starfsráðgjafa HÉR