Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
Í Grunnskólanum í Hveragerði er umhverfisnefnd sem skipuð er bæði starfsfólki og nemendum og vinnur að því að halda umhverfisvitund innan skólans á lofti. Nefndin ákveður þemu til að vinna með í tvö ár í senn og sækir um nýjan fána í lok hvers tímabils. Núverandi tímabil hófst 3. apríl 2019 og þá fékk Grunnskólinn í Hveragerði afhentan sinn fjórða Grænfána. Þann 6. september sl. fékk svo Grunnskólinn í Hveragerði afhentan sinn 5. Grænfána. Þrátt fyrir heimsfaraldur og ýmsar takmarkanir hefur nemendum tekist að vinna að umhverfismálum með ýmsum hætti. Meðal verkefna var að fá Sævar Helga Bragason í heimsókn sem fræddi okkur um loftslagsmál og allir árgangar fara reglulega í útikennslu og fræðast þannig með beinum hætti um náttúruna og umhverfið. Skólinn okkar státar af einstaklega fallegum náttúruperlum allt um kring sem gaman er að nýta með fjölbreyttum hætti.
Mikil vinna liggur að baki hverjum Grænfána en þemu sem unnið hefur verið eftir eru m.a. náttúruvernd og átthagar. Verkefni þessu tengd eru til að mynda árgangagöngur að hausti þar sem hver árgangur gengur saman um helstu gönguleiðir í nágrenninu. Þá fer 1. bekkur í stutta göngu en svo lengjast ferðirnar eftir því sem nemendur eldast og þegar komið er í 10. bekk er farið í dagsgöngu frá Nesjavöllum gegnum Marardal og komið niður hjá Hellisheiðarvirkjun. Þá eru allir árgangar með útitíma í stundaskrá sem nýttir eru til ýmissa verka sem tengjast náttúrufræði og umhverfisvitund. Næsta verkefni er svo að vinna með loftslagsmál og hvernig við sem einstaklingar getum minnkað kolefnismengun.
Markmið:
- Að stuðla að umhverfisvænum starfsháttum og lífsvenjum, með áherslu á að halda mengun og verðmætasóun í lágmarki.
- Að stuðla að aukinni vitund nemenda og starfsfólks um umhverfismál.
- Að nemendur og starfsfólk læri að lifa í sátt við umhverfi sitt.
- Að efla færni nemenda og starfsfólks til að takast á við umhverfismál á jákvæðan hátt, náttúrunni og samfélaginu til heilla.
- Að gera nemendum og starfsfólki ljóst að það er hagkvæmt fyrir samfélagið að draga úr mengun, verðmætasóun og orkunotkun.
- Að vinna gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum.
- Að umhverfisfræðsla verði hluti af námi allra bekkja skólans, með samþættingu námsgreina.
- Að hvetja til útivistar og hreyfingar.
- Að nemendur séu meðvitaðir um hvernig hægt er að bæta líf sitt og komandi kynslóða með því að umgangast umhverfi sitt og náttúru af tillitssemi og umhyggju.
- Að umhverfisvernd verði samvinna heimila og skóla.
SJÁ EINNIG HÉR - GRÆNFÁNINN.IS