Nemendur

Fjöldi nemenda við skólann er um þessar mundir 474 sem eru frá Hveragerði og dreifbýli Ölfuss. Þó má reglulega reikna með því að nemendafjöldi taki breytingum innan skólaársins.

  • Nemendaþing

Vakin er sérstök athygli á að nemendaþing eru á dagskrá reglulega. Á síðasta skólaári var t.a.m. unnið að nýjum skólareglum í samráði við nemendur. Nú hafa þær verið gefnar út og eiga að vera komnar upp á veggi í skólastofum. Á þessu skólaári verður t.a.m. fjallað um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sjá næsta kafla. Markmið nemendaþinga:

  • Að veita nemendum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hefur merkingu fyrir daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins

  • Að efla vitund nemenda um eigin áhrif í skólastarfinu

  • Að fá fram sjónarhorn nemenda í ýmsum málaflokkum

  • Að fá fram tillögur frá nemendum um hvað hægt er að gera til að hafa jákvæð áhrif á daglegt starf í skólanum og víðar

  • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Kennarar hafa fengið kynningu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Markmiðið er að heimsmarkmiðin fléttist inn í allt okkar skólastarf um ókomna tíð.

Á nemendaþingi var rætt um heimsmarkmiðin og þau þrjú sem skólinn hefur valið að vinna með. Lýðræðisleg kosning fór fram á meðal nemenda og kosin voru markmið 1 (engin fátækt), 4 (menntun fyrir alla) og 16 (friður og réttlæti).

  • Börn styrkja börn

Á hverju skólaári, undir lok nóvember vinna nemendur skólans í góðgerðarþema. Tilgangur þemadaganna er að efla samkennd nemenda og láta um leið gott af sér leiða. Þrír dagar fara í vinnu þar sem ýmsar vörur eru útbúnar og svo seldar á markaðstorgi sem opið er öllum í íþróttahúsi. Einnig sjá nemendur á elsta stigi um kaffihús í mötuneyti skólans fyrir gesti.

Ein stærsta ákvörðun sem við tökum í tengslum við góðgerðarþemað er hvaða starfsemi við ákveðum að styrkja í það og það skiptið. Við höfum að mestu lagt það í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fer fram umræða um hvaða starfsemi við viljum styrkja og í framhaldi af þeirri umræðu er rafræn könnun lögð fyrir hvern bekk. Kosning um hugmyndir nemenda fer einnig fram meðal starfsfólks. Hér má sjá frétt um þemadagana 2024:

https://grunnskoli.hveragerdi.is/is/frettir-1/grunnskolinn-i-hveragerdi-safnadi-22-milljonum-fyrir-minningarsjod-bryndisar-kloru

  • Kennsla

Kennsluaðferðir kennara við Grunnskólann í Hveragerði fjölbreyttar og valdar með tilliti til; kennslugreina, tiltæks námsefnis, nemendahóps og aðstæðna. Áhersla er lögð á lestur og skilning á öllum stigum líkt og sjá má í heimanámsstefnu og lestrarstefnu skólans. Þá skal námsmat vera leiðsegjandi og miðast við að hvetja og leiðbeina nemendum til enn betri verka. Fólk lærir nýja hluti alla ævi. Við tökumst á við mismunandi verkefni á ólíkum æviskeiðum. Örar breytingar á samfélagi, vinnustöðum og tækni kalla á að fólk kunni til verka og sé reiðubúið að læra nýja hluti að eigin frumkvæði og undir eigin stjórn. Til þess að allt gangi vel hefur það þótt eðlilegast að allt nám sem skipulagt er af kennurum innihaldi einhverja þætti sem auka færni nemenda í að skipuleggja sig og sinna námi sínu sjálfstætt. Nemendur auki þannig þekkingu sína, hæfni og leikni upp á eigin spýtur. Það mætti segja að hlutverk allra kennara sé að styðja við sjálfstýrt ævinám nemenda sinna sem gerir þá að betri námsmönnum, hvort sem þeir læra í hópi eða sjálfstætt.

Mikilvægt er að í skólanum gangi allir í takti, sem dæmi er mikilvægt að sendar verði út sameiginlegar fréttir – vikupóstar árganga. Það er mikilvægt að líta á bekki sem einn hóp. Árgangurinn er ein heild. Þegar bekkir eru speglaðir eru margir möguleikar til uppstokkunar hópanna; strákar/stelpur, stafrófsröð, áhugasvið o.s.frv. o.s.frv. Víða eru bekkir speglaðir og mörg tækifæri til samstarfs námshópa/bekkja. Þegar þrír kennarar koma að árgangi og hafa jafnvel stuðningsfulltrúa með hópnum er ekki reiknað með nemendum úr þeim hópi í sér- eða stuðningskennslu.

Tækifæri til samþættingar milli námsgreina er hvarvetna. Í þeim efnum má huga að okkar ástkæra ylhýra tungumáli í öllum hornum.

ÖLL ERUM VIÐ ÍSLENSKUKENNARAR!

  • Teymiskennsla

Reikna má með því að teymiskennsla og vinna því tengd eigi eftir að skipa talsverðan sess í starfsemi skólans. Sú vinna verður að fá að þróast undir forystu kennara sjálfra. Teymiskennslu er hægt að sinna með ýmsum hætti:

Kennarar skipuleggja hvernig þeir haga kennslunni; þrír hópar eða tveir hópar, annar hópurinn með tvo kennara, svo dæmi sé tekið. Með þessu léttir talsvert á námsverum. Hefðbundin teymiskennsla (traditional team teaching) þar sem kennararnir deila með sér kennslu allra nemenda. Dæmigerð kennslustund í stærðfræði væri t.d. þannig að annar kennari af tveimur myndi útskýra fyrir öllum hópnum á meðan hinn sýnir dæmi á töflunni. Í hefðbundinni teymiskennslu bera kennararnir jafna ábyrgð á öllum nemendum og eru virkir í kennslustundum.

Stuðningsteymiskennsla (complimentary eða supportive team teaching) er þannig að einn kennari ber ábyrgð á að kenna efnið en annar eða aðrir sjá um að kenna leiðir til að nota það sem kennt var. Dæmi um kennslustund væri t.d. ef annar kennari af tveimur gerði nemendum grein fyrir innihaldi kafla í bók og setti nemendum fyrir lestrarverkefni en hinn kennarinn kenndi nemendum að nota gagnvirkan lestur um leið og þeir vinna verkefnið.

Hliðstæð kennsla (parallel instruction) þar sem nemendum er skipt upp í hópa og allir kennarar kenna nemendum sama efnið hver fyrir sig.

Nemendur eru aðgreindir í hópa (differentiated split class) eftir námsþörfum. Hver hópur fær kennslu til að mæta þessum þörfum. Nemendum er skipt í mismunandi hópa eftir því hvað er verið að kenna.

Einn kennari ber ábyrgðina (monitoring teacher) og á að kenna öllum nemendum en hinir kennararnir fara á milli í rýminu og aðstoða nemendur og sjá til þess að þeir hagi sér vel.

  • Líðan

Forsenda fyrir góðum vinnustað og góðum námsárangri er að nemendum og starfsfólki líði vel. Áfram verður líðan stór þáttur í hugmyndum okkar um skólabraginn ásamt góðum hreinskiptnum samskiptum. Þessi atriði eru góð viðbót við okkar góðu einkennisorð eða gildin okkar: Viska, virðing og vinátta. Við viljum að þessi vel völdu orð einkenni allt starf í skólanum.

Í góðum samskiptum felst að komast í samband við þá sem við þurfum að eiga samskipti við. Það er mjög mikilvægt fyrir andlega og félagslega vellíðan að geta stofnað til og viðhaldið vinsamlegum tengslum við aðra. Markmið samskipta geta verið margvísleg en þegar skilaboð komast hreint til skila þá auðveldar það samskiptin, en ef eitthvað rangtúlkast hins vegar verða samskipti milli einstaklinga flóknari og jafnvel erfið. Það er mikilvægt að strax í upphafi nái kennarar góðu sambandi við sinn hóp.

  • Einstaklingsviðtöl

Kennarar skulu sýna nemendum sínum persónulegan áhuga og umsjónarkennarar sinni einstaklingsviðtölum reglulega á skólaárinu. Nýir umsjónarkennar ræði einslega við sína nemendur eins fljótt og mögulegt er við upphaf skólastarfs. Fyrstu viðtöl eiga ekki að vera löng, einungis létt kynning, dæmi; ,,ég heiti Sævar ég hef búið í Hveragerði í 150 ár og áhugamálin mín eru útivera, tölvuleikir og magadans.” Hvað heitir þú? Hvað finnst þér skemmtilegast í skólanum? Hvers vegna ætlum við að hafa geggjað gaman í skólanum í vetur? Sýnum nemendum okkar persónulegan áhuga, alltaf.

  • Samvera – tjáskipti – samskipti

Með samveru ætlum við að efla tengsl í hverjum hópi. Félagsvitund, samkennd og samhygð. Hægt er að fara í margskonar hópeflisleiki. Útivera og útikennsla er kjörin vettvangur til að efla gæði í samverustundum. Víða er fimmskipting í klassísku smiðjunum. Fimmta smiðjan snýr að líða og samveru, þar fæst tækifæri til þess að efla samskiptahæfni og vinna að því að efla gagnrýna hugsun.

Með góðum tjáskiptum getum við tjáð okkur, með orðum og án orða miðað við kringumstæður hverju sinni. Í þessu felst t.d. að geta tjáð langanir okkar og skoðanir eða þá að biðja um ráð þegar þess gerist þörf. Í góðum samskiptum felst að komast í samband við þá sem við þurfum að eiga samskipti við. Það er mjög mikilvægt fyrir andlega og félagslega vellíðan að geta stofnað til og viðhaldið vinsamlegum tengslum við aðra. 

  • Þrautseigja – seigla

Með seiglunni hafast svo margir hlutir. Þrautseigja er eftirsóknarverður hæfileiki sem gott er að hjálpa nemendum og samstarfsfólki að tileinka sér. Menntun er nefnilega langhlaup, ekki spretthlaup, við erum lengi að læra og beitum mismunandi aðferðum til náms. Seigla er í einu orði þrjóska, dugnaður og þolinmæði. Fallegt orð sem lýsir óbilandi krafti. Seigla er farsæl aðlögun líkama, sálar og anda í erfiðum aðstæðum. Með seiglunni getur einstaklingur náð farsælli aðlögun þrátt fyrir að ganga í gegnum erfiðleika. Hugtakið er notað hvort sem seiglan er tilkomin vegna innri þátta einstaklingsins, vegna lærðrar hegðunar eða vegna styðjandi umhverfis. Í okkar flókna nútímasamfélagi er stundum talað um að ákveðinn hópur barna lifi við svo erfiðar aðstæður að það dragi verulega úr líkum á því að þau nái árangri eða eðlilegum þroska í uppvexti sínum. Það er mikilvægt að koma auga á styrkleika nemenda og þekkja vel eigin styrkleika og seiglu. Fræðimaðurinn Michael Sadowski segir það vera endurtekna niðurstöðu úr eigindlegum viðtalsrannsóknum sínum að nemendur vitni um hvernig einstaka kennarar hafi verið þeim stoð og stytta og eflt seiglu þeirra í erfiðum aðstæðum. Þessir kennarar sýna nemendum umhyggju, hvatningu og eru reiðubúnir til að hlusta og sjá nemendurna sem sjálfstæða einstaklinga sem skipta máli.

  • Réttur og ábyrgð nemenda

Grunnskólinn er vinnustaður nemenda. Allir nemendur skólans eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og hefur vellíðan þeirra að leiðarljósi. Grunnskólinn skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Vinnuálag skal vera hæfilegt og nemendur skulu fá nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs. Nemendur skulu fá samfellt jóla- og páskaleyfi. Nemendur eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um námsumhverfi, skipulag námsins, fyrirkomulag skólastarfsins og þær ákvarðanir sem snerta þá. Tekið skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska. Umsjónarkennarinn fylgist með líðan og almennri velferð umsjónarnemenda sinna, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál. Umsjónarkennarinn stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila. Nemendur eiga einnig rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla. 

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskólans í öllu því sem skólann varðar. Þeir eiga að fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Ef hegðun nemanda reynist verulega ábótavant ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, meðal annars með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði ekki breyting til batnaðar skal kennari leita aðstoðar. Meðan mál skv. 3. mgr. grunnskólalaga er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og fræðslunefnd sveitarfélagsins tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Fræðslunefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði.

Nemendur fá námsgögn í skólanum auk þess að fá kennslubækur til afnota. Nemendur eru hvattir til að fara vel með námsgögn. Nemendur sem þurfa hljóðbækur hlaða þeim niður af vef Menntamálastofnunar eða nýta aðgang sinn að Hljóðbókasafninu.

Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri (sbr. 32. gr. grunnskólalaga). Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla. Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar samkvæmt lögum þessum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga (úr 14. gr. grunnskólalaga).

  • Umgengni

Nemendur eiga að setja skó á merkt svæði í anddyri og þar eru snagar fyrir yfirhafnir. Í yngri bekkjum eru skór og yfirhafnir fyrir utan kennslustofur. Í lok skóladags sjá kennarar til þess að nemendur gangi vel frá kennslustofu. Merkja skal skó og yfirhafnir nemenda með nafni og símanúmeri eins og kostur er. Óskilamunir eru í aðalanddyri, við stofu 115 og á skrifstofu skólans. Ef nemendur tapa einhverju, s.s. úlpum, skóm, töskum, sund-eða íþróttafötum eru forráðamenn hvattir til að hafa samband við húsvörð. Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á hlutum sem tapast og skal nemendum bent á að vera ekki með peninga eða önnur verðmæti með sér í skólanum. Óskilamunir sem ekki eru sóttir að vori eru gefnir til Rauða krossins.

  • Nemendaráð

Hlutverk nemendaráðs er að vinna að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Nemendaráð er æðsta ráð nemenda við Grunnskólann í Hveragerði og starfar ráðið í nánu samstarfi við félagsmiðstöðina Skjálftaskjól. Tilgangur  ráðsins er að halda uppi félagsstarfi í skólanum og í félagsmiðstöðinni, efla félagslegan áhuga nemenda og standa vörð um hagsmuni og velferð allra nemenda skólans. Nemendaráð fjallar um efni sem tengjast félagsstarfi nemenda, ráðið hefur umsjón með ákveðnum hefðum í skólastarfi og leitar leiða til þess að styðja við jákvæðan skólabrag og virkja aðra nemendur. Allir nemendur í 8. - 10. bekk eru félagar í nemendaráði. 

Í nemendaráði sitja fulltrúar af elsta stigi, þ.e. einn fulltrúi úr hverri bekkjardeild í 8. og 9. bekk og tveir fulltrúar úr hverri bekkjardeild í 10. bekk. Formaður nemendaráðs kemur úr 10. bekk. Hlutverk formanns er einkum að hafa forystu í félagslífi nemenda og koma fram fyrir hönd þess.

Hlutverk, viðmið og gildi nemendaráðs: 

Nemendaráð fundar reglulega. Allir meðlimir nemendaráðs hafa ákveðnum hlutverkum að gegna og þau helstu eru;

  • Fulltrúar nemendaráðs skulu vinna að hagsmuna- og velferðarmálum allra nemenda.

  • Eru fyrirmynd í orði og gjörðum innan skólans sem utan.

  • Eru talsmaður nemenda og koma hugmyndum og ábendingum þeirra inn á borð nemendaráðs.

  • Eru fulltrúar nemenda gagnvart stjórn skólans og skólayfirvöldum.

  • Nemendaráðsfulltrúar beri upp erindi til umfjöllunar á fundum ráðsins.

  • Hvetja aðra nemendur til þátttöku í starfi skólans og félagsstarfi með jákvæðu umtali.

  • Hlusta á hugmyndir frá öðrum nemendum, vera skapandi og stuðla þannig að því að allir nemendur upplifi sig sem hluta af heildinni.

  • Skipuleggja og mæta á nemendaráðsfundi og taka virkan þátt í umræðum og verkefnum á hverjum fundi.

  • Koma að undirbúningi og útfærslu viðburða og hjálpa starfsfólki við frágang að viðburðum loknum.

Verkefni sem eru á ábyrgð nemendaráðs:

  • Rósaball.

  • Árshátíð elsta stigs.

  • Setustofa elsta stigs.

Hlutverk formanns nemendaráðs:

  • Stjórnar nemendaráðsfundum.

  • Skipuleggur störf nemendaráðs og sér um verkaskiptingu.

  • Er talsmaður nemendafélagsins út á við. Afhendir m.a. styrk frá skólanum eftir góðgerðarþema og heldur ræðu við útskrift 10. bekkja.

  • Sýnir starfi sínu áhuga og sinnir því vel.

  • Er í góðu sambandi við skólayfirvöld, kennara, starfsfólk og samnemendur.

Nemendaráð starfar undir leiðsögn deildarstjóra elsta stigs og fulltrúa frá félagsmiðstöðinni Skjálftaskjól.

Meðlimir nemendaráðs hafa tækifæri til þess að sinna sínum störfum á skólatíma m.a. sem val ásamt því að ráðið hefur aðgang að vinnuaðstöðu í frístundamiðstöðinni Bungubrekku.

Ætlast er til að þeir sem sitja í nemendaráði séu til fyrirmyndar fyrir aðra nemendur og fari í einu og öllu að reglum skólans.
Meti stjórnendur skólans svo að nemendaráðsmaður sé ekki að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans er viðkomandi áminntur eða látin víkja úr ráðinu svo hægt sé að hleypa öðrum áhugasömum að. Þó er umsvifalaust brottrekstrarsök gerist nemendaráðsmaður uppvís að broti á landslögum, reglum skólans eða félagsmiðstöðvarinnar, en þess þó gætt að andmælaréttur þeirra sé virtur.

Starfsreglur nemendaráðs eru endurskoðaðar á hverju vori af sitjandi nemendaráði.

  • Forföll og leyfi nemenda

Forráðamenn tilkynna forföll nemenda fyrir upphaf skóladags gegnum Mentor eða hjá ritara skólans í síma 483-0800. Ef nemandi þarf að fá leyfi hluta úr degi eða einn skóladag skal hafa samband við umsjónarkennara. Þegar um lengri tíma er að ræða en tvo daga skal sækja um leyfi á heimasíðu skólans.

Það er á ábyrgð foreldra/forráðamanna að sjá til þess að nemendur vinni upp það námsefni sem þeir missa af í lengra leyfi. Ef óskað er eftir undanþágu frá skyldunámi í námsgrein er sótt um það skriflega til aðstoðarskólastjóra eða deildarstjóra sem leggur umsókn fyrir nemendaverndarráð til umsagnar.

Sjá ítarlegri upplýsingar í kaflanum um skólasókn og ástundun.

  • Stundatöflur nemenda

Á síðasta skólaári var gerð könnun meðal nemenda, foreldra og starfsfólks um upphaf skólastarfs á morgnana. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Allt skólastarf hefst kl. 08:30.

Skólahúsnæðið er þó opið frá kl. 07:30 á morgnana en gæsla hefst ekki fyrr en 07:45. Boðið er upp á hafragraut á morgnana frá kl. 07:50 – 08:15. Eftir að skóla lýkur á daginn býðst nemendum 1. – 4. bekkja lengd viðvera á frístundaheimilinu Brekkubæ (innan Bungubrekku) til kl. 17:00. Frímínútnagæsla kl. 09:50-10:10 er í höndum stuðningsfulltrúa skólans. Um svipað leyti er stuttur nestistími nemenda. Þeir geta komið með hollt nesti að heiman eða verið í ávaxta- og/eða mjólkuráskrift, sjá nánar á heimasíðu skólans. Hádegishlé er á tímabilinu 11:30 – 12:50, matseðil má nálgast á heimasíðu skólans. Nemendur sækja sundtíma við sundlaugina í Laugaskarði og íþróttir eru kenndar í íþróttahúsinu við skólann. List- og verkgreinar (smíði, textílmennt, myndmennt, heimilisfræði, leik- og tónlist) eru kenndar í lotum.

  • Umsjón

Umsjónarkennarar hafa talsverðan tíma með sínum hópum, á yngsta stigi er viðvera nemenda með umsjónarkennara mikil en í efri bekkjum koma fleiri kennarar að kennslu í hverjum hópi. Umsjónarkennarar sinna m.a. bekkjarfundum, útikennslu og 40 mínútna kennslustund í viku er ætluð til bekkjarfunda og umræðna á yngsta- og miðstigi. Tvisvar í mánuði skal hver bekkur halda bekkjarfundi, oftar eftir þörfum.

Þá er sífellt leitað leiða til að betrumbæta skólaumhverfi nemenda í takti við skólaþróun og breytingar í samfélaginu. T.d. er möguleiki á að leggja aukna áherslu á snillitíma/áhugasviðsverkefni. Með snillitímum eða áhugasviðsverkefnum verða til sjálfstæðir nemendur sem sýna frumkvæði í námi. Nemendum sem líður vel við verk sín, þekkja eigin styrkleika, nýta sér sína reynslu og þekkingu til að afla sér nýrrar þekkingar. Það er mikilvægt að kennarar hjálpi nemendum með fyrstu skrefin og samstarf innan árganga er mikilvægt.

Þá er ekki síður mikilvægt að horfa til félagsvitundar og samkenndar. Í þeim efnum er hægt að fara í margskonar hópeflisleiki, víða er hugað að aukinnar félagsfærni. Þá er mannrækt á elsta stigi sem byggð er á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði.

  • Skólaíþróttir á elsta stigi

Fyrir fáeinum skólaárum var sett upp ákveðin nýbreytni í 9. og 10. bekkjum í skólaíþróttum. Nemendum verður skipt í fimm hópa þvert á bekki þar sem rík áhersla verður lögð á að búa nemendur undir að bera ábyrgð á eigin heilsu í stóru samhengi. Kennslustundir verða fimm sinnum í viku þar sem viðfangsefnin verða fjölbreytt en meðal annars verður unnið með hefðbundnar íþróttir, sund, líkamsrækt, núvitund, jóga, næringarfræði, útivist og íþróttafræði.

  • Valfög á elsta stigi

Við höldum áfram með valnámskeið í þremur 12 vikna lotum á elsta stigi. 8.-10. bekkir verða á sama tíma í vali, einu sinni í viku í 40 mínútna kennslustund og einu sinni í viku í 80 mínútna kennslustund. Markmiðið með þessu er fyrst og fremst að auka vægi list- og verkgreina í vali á elsta stigi en valinu er stýrt að því leyti að allir nemendur stigsins hafi við útskrift lokið tilskildum fjölda tíma í þeim greinum í samræmi við viðmiðunarstundaskrá. Allir nemendur elsta stigs geta áfram valið hin klassísku smiðjufög; heimilisfræði, myndmennt, smíði og textílmennt. Þótt valinu sé stýrt að hluta, hafa nemendur nú meira um það að segja en áður hvaða list- og verkgreinar þeir velja að leggja áherslu á.

Valnámskeið hafa verið af ýmsu tagi, t.d. enski boltinn, kvikmyndasaga, skólahreysti, keramik og núvitund.