Nemendur

Fjöldi nemenda við skólann hefur aukist frá síðasta skólaári. Nú eru um 450 nemendur við skólann frá Hveragerði og dreifbýli Ölfuss: 

Líðan nemenda

Síðustu fjögur skólaár hefur okkur verið tíðrætt um líðan nemenda. Það er forsenda fyrir góðum námsárangri að nemendum og starfsfólki líði vel. Áfram er líðan stór þáttur í hugmyndum okkar um skólabraginn ásamt góðum hreinskiptnum samskiptum. Þessi atriði eru góð viðbót við okkar góðu einkennisorð eða gildin okkar: Viska, virðing og vinátta.  Við viljum að þessi vel völdu orð einkenni allt starf í skólanum. Umsjónarkennarar hafa talsverðan tíma með sínum hópum, umsjónartímar í 20 mínútur þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Auk þess eru 40 mínútna kennslustund á viku ætluð til bekkjafunda og umræðna. Tvisvar í mánuði skal hver bekkur halda Olweusarbekkjarfund. Umsjónarkennarar skulu taka einstaklingsviðtöl við umsjónarnemendur sína. Fyrirhugaðar eru kennslukannanir, þar sem nemendur meta jafnvel önnur atriði en kennslu. Er kennari duglegur að leyfa nemendum að standa upp, hrista og teygja, ríkir gagnkvæm virðing í stofunni? Er erfitt? Er gaman? Eru kennslustundir brotnar upp á einhvern hátt? Hvernig ganga bekkjarfundir?

Samvera – tjáskipti – samskipti

Með samveru ætlum við að efla tengsl í hverjum hópi. Félagsvitund, samkennd og samhygð. Hægt er að fara í margskonar hópeflisleiki. Útivera og útikennsla er kjörin vettvangur til að efla gæði í samverustundum. Víða er fimmskipting í klassísku smiðjunum. Fimmta smiðjan snýr að líða og samveru, þar fæst tækifæri til þess að efla samskiptahæfni og vinna að því að efla gagnrýna hugsun.

Með góðum tjáskiptum getum við tjáð okkur, með orðum og án orða miðað við kringumstæður hverju sinni. Í þessu felst t.d. að geta tjáð langanir okkar og skoðanir eða þá að biðja um ráð þegar þess gerist þörf. Í góðum samskiptum felst að komast í samband við þá sem við þurfum að eiga samskipti við. Það er mjög mikilvægt fyrir andlega og félagslega vellíðan að geta stofnað til og viðhaldið vinsamlegum tengslum við aðra.

Þrautseigja – seigla

Með seiglunni hafast svo margir hlutir. Þrautseigja er eftirsóknarverður hæfileiki sem gott er að hjálpa nemendum og samstarfsfólki að tileinka sér. Menntun er nefnilega langhlaup, ekki spretthlaup, við erum lengi að læra og beitum mismunandi aðferðum til náms. Seigla er í einu orði þrjóska, dugnaður og þolinmæði. Fallegt orð sem lýsir óbilandi krafti. Seigla er farsæl aðlögun líkama, sálar og anda í erfiðum aðstæðum. Með seiglunni getur einstaklingur náð farsælli aðlögun þrátt fyrir að ganga í gegnum erfiðleika. Hugtakið er notað hvort sem seiglan er tilkomin vegna innri þátta einstaklingsins, vegna lærðrar hegðunar eða vegna styðjandi umhverfis. Í okkar flókna nútímasamfélagi er stundum talað um að ákveðinn hópur barna lifi við svo erfiðar aðstæður að það dragi verulega úr líkum á því að þau nái árangri eða eðlilegum þroska í uppvexti sínum. Það er mikilvægt að koma auga á styrkleika nemenda og þekkja vel eigin styrkleika og seiglu. Fræðimaðurinn Michael Sadowski segir það vera endurtekna niðurstöðu úr eigindlegum viðtalsrannsóknum sínum að nemendur vitni um hvernig einstaka kennarar hafi verið þeim stoð og stytta og eflt seiglu þeirra í erfiðum aðstæðum. Þessir kennarar sýna nemendum umhyggju, hvatningu og eru reiðubúnir til að hlusta og sjá nemendurna sem sjálfstæða einstaklinga sem skipta máli.

Réttur og ábyrgð nemenda

Grunnskólinn er vinnustaður nemenda. Allir nemendur skólans eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og hefur vellíðan þeirra að leiðarljósi. Grunnskólinn skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Vinnuálag skal vera hæfilegt og nemendur skulu fá nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs. Nemendur skulu fá samfellt jóla- og páskaleyfi. Nemendur eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um námsumhverfi, skipulag námsins, fyrirkomulag skólastarfsins og þær ákvarðanir sem snerta þá. Tekið skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska. Umsjónarkennarinn fylgist með líðan og almennri velferð umsjónarnemenda sinna, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál. Umsjónarkennarinn stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila. Nemendur eiga einnig rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskólans í öllu því sem skólann varðar. Þeir eiga að fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Ef hegðun nemanda reynist verulega ábótavant ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, meðal annars með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði ekki breyting til batnaðar skal kennari leita aðstoðar. Meðan mál skv. 3. mgr. grunnskólalaga er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og fræðslunefnd sveitarfélagsins tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Fræðslunefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði.

Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri (sbr. 32. gr. grunnskólalaga). Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla. Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar samkvæmt lögum þessum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga (úr 14. gr. grunnskólalaga).

Námsgögn nemenda

Nemendur fá námsgögn í skólanum auk þess að fá kennslubækur til afnota. Nemendur eru hvattir til að fara vel með námsgögn. Nemendur sem þurfa hljóðbækur hlaða þeim niður af vef Menntamálastofnunar eða nýta aðgang sinn að Hljóðbókasafninu.

Kennarar hafa aðgang að fáeinum spjaldtölvum til notkunar fyrir nám og geta hlaðið skólabókum inn á spjaldtölvuna og jafnframt nýtt hana í stuttmyndagerð og önnur skapandi verkefni. Vonast er til að skólinn geti fjárfest í fleiri spjaldtölvum fyrr en síðar enda eftirspurnin talsvert meiri en framboð.

Umgengni

Nemendur eiga að setja skó á merkt svæði í anddyri og þar eru snagar fyrir yfirhafnir. Í yngri bekkjum eru skór og yfirhafnir fyrir utan kennslustofur. Í lok skóladags sjá kennarar til þess að nemendur gangi vel frá kennslustofu. Merkja skal skó og yfirhafnir nemenda með nafni og símanúmeri eins og kostur er. Óskilamunir eru í aðalanddyri, við stofu 115 og á skrifstofu skólans. Ef nemendur tapa einhverju, s.s. úlpum, skóm, töskum, sund-eða íþróttafötum eru forráðamenn hvattir til að hafa samband við húsvörð. Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á hlutum sem tapast og skal nemendum bent á að vera ekki með peninga eða önnur verðmæti með sér í skólanum. Óskilamunir sem ekki eru sóttir að vori eru gefnir til Rauða krossins.

Forföll og leyfi

Veikindi skal tilkynna á Mentor eða til skrifstofu skólans fyrir upphaf skóladags. Ef óskað er eftir leyfi í tvo daga eða skemur skal hringja á skrifstofu. Umsókn um lengra leyfi er á forsíðu heimasíðunnar.