Tengsl skólans við nærsamfélagið

Grunnskólinn í Hveragerði leggur mikið upp úr góðum tengslum við nærsamfélagið í Hveragerði. Fyrst ber að nefna gott samstarf milli starfsmanna skólans og íþróttamannvirkja sveitarfélagsins þar sem nemendur skólans nýta þau til íþrótta- og sundkennslu. Starfsfólk íþróttamannvirkjanna sinnir m.a. gæslu í búningsklefum á skólatíma. Auk þess hefur skólinn fengið að nýta íþróttahúsið fyrir hvers kyns uppbrot, svo sem á öskudag og fyrir jólaböll. Þá er skólinn í góðu samstarfi við íþróttafélagið Hamar sem hefur m.a. það að markmiði að efla áhuga ungmenna á íþróttaiðkun, líkamsrækt og heilbrigðu líferni.

Mjög góð samskipti eru á milli Grunnskólans í Hveragerði og Tónlistarskóla Árnesinga. Tónlistarskólinn er með séraðstöðu á efri hæð skólans og þeir nemendur sem stunda tónlistarnám tvinna það saman við skóladaginn.

Loks leggur Grunnskólinn í Hveragerði áherslu á góða samvinnu milli heimila og skóla. Í Aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og ábyrgð á að þau innritist í skóla þegar þau komast á skólaskyldualdur og sæki skóla. Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og eiga að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Foreldrar fylgist með námsframvindu barna sinna í samvinnu við þau og kennara þeirra og eiga að greina skólanum frá þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun. Foreldrar fái jafnframt tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna, svo og í skólastarfinu almennt. Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum.

Í skólum þar sem er gott samstarf við foreldra og forráðamenn má búast við að nemendur nái mun betri námsárangri en ella. Foreldrasamstarf hefur áhrif á líðan nemenda í skólanum og áhuga þeirra. Samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti og samábyrgð. Mikilvægt er að foreldrar séu sáttir við starf skólans og styðji það. Einnig er mikilvægt að foreldrar temji sér að tala jákvætt um skólann þar sem börn tileinka sér gjarnan viðhorf foreldra sinna og taka þá sér til fyrirmyndar. Foreldrar og forráðamenn eru hins vegar hvattir til að hafa samband við þá sem í skólanum starfa ef þá skortir upplýsingar eða vilja koma á framfæri ábendingum um skólastarfið.

Samstarf er á milli yngsta stigs grunnskólans og Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi. Nemendur hafa farið í ferðir þangað á vorin þar sem þeir sá sumarblómum, kryddjurtum og öðrum plöntum. Fylgst er með vexti plantnanna sem nemendur fá svo með sér heim í skólalok. Þá hafa krakkar á yngsta stigi heimsótt helstu fyrirtæki í Hveragerði og hitta jafnframt bæjarstjórann á bæjarskrifstofunni. Eins hefur verið samstarf við félag eldri borgara í Hveragerði í tilefni af degi íslenskrar tungu.

Nemendur í 7. bekk hafa heimsótt íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ás vegna stóru upplestrar­keppninnar þar sem nemendur hafa æft sig í upplestri og sömu nemendur gera samning við bæjaryfirvöld er varðar umhverfishreinsun í Hveragerði yfir allt skólaárið.

Þá hafa ýmsir árgangar iðulega heimsótt Listasafn Árnesinga og Hveragarðinn og síðast en ekki síst má nefna samstarf skólans við bókasafnið í Sunnumörk sem býður upp á skipulag sumarlesturs fyrir grunnskólabörn.