Útivistartími

Útivistartími barna og unglinga

Skólinn getur ekki og á ekki að stjórna útivistartíma barna og unglinga. Við viljum hvetja forráðamenn þeirra til að taka höndum saman og virða þær útivistarreglur sem í gildi eru. Ef það tekst er unnið fyrirbyggjandi starf sem komið getur í veg fyrir óæskilegt atferli og hættur sem ógna lífshamingju barnanna. Þegar skemmtanir eru haldnar á vegum skóla og/eða félagsmiðstöðvar, sem standa lengur en útivistartíminn segir til um, er æskilegt að forráðamenn nái í börn sín að samkomum loknum.

Börn 12 ára og yngri mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 20:00 frá 1. september til 1. maí og eftir kl. 22:00 frá 1. maí til 1. september nema í fylgd með fullorðnum. Hæfilegur svefntími hjá 5-12 ára börnum er talinn vera u.þ.b. 10-12 klukkustundir. 

Börn 13 til 16 ára mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 22:00 frá 1. september til 1. maí og eftir kl. 24:00 frá 1. maí til 1. september nema í fylgd með fullorðnum og þegar um er að ræða heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.