Um skólann

Grunnskólinn í Hveragerði er heildstæður grunnskóli með nemendur frá 1.–10. bekk. Skólinn er staðsettur í skólahúsnæði á tveimur hæðum við Skólamörk 6 í Hveragerði. Auk þess eru kennslustofur í þremur byggingum við skólann og í júlí 2021 kom ný viðbygging við skólann sem hefur að geyma sex kennslustofur auk millirýma.

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 07:30 - 14:00 alla virka daga. Allar helstu upplýsingar má finna á heimasíðu skólans. Sé erindið brýnt er hægt að óska eftir símtali hér.

Skólastarf hefst árdegis þriðjudaga - fimmtudaga kl. 08:10 en kl. 08:30 á mánudögum og föstudögum. 7.-10. bekkur byrjar alla daga 08:30. Nemendur eiga að mæta á þeim tíma sem stundaskrá segir til um.

Veikindi eða önnur forföll nemenda skal skrá gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans áður en hringt er inn í fyrstu kennslustund.

Ritari skólans er Elva Óskarsdóttir / elva(hjá)hvg.is

Stjórnendur

Skólastjóri: 
Sævar Þór Helgason - saevar(hjá)hveragerdi.is

Aðstoðarskólastjóri:
Matthea Sigurðardóttir - matthea(hjá)hveragerdi.is

Deildarstjórar:
Ólafur Hilmarsson, yngsta stig - oh(hjá)hvg.is
Kolbrún Vilhjálmsdóttir, miðstig - kolbrun(hjá)hvg.is
Sigmar Karlsson, elsta stig - sigmar(hjá)hvg.is

Viðtalstímar skólastjórnenda eru eftir samkomulagi.

Skólinn er vel staðsettur með náttúruperlur allt um kring. Varmá er í túnfætinum en þar er að finna heitar uppsprettur. Sundlaugin í Laugaskarði steinsnar frá, að ógleymdu náttúruundri sem á fáa sína líka í heiminum, en það er hverasvæðið við Hveramörk.  Mjög fallegar gönguleiðir eru í nánasta umhverfi skólans og óþrjótandi möguleikar til útivistar- og útikennslu, m.a. í fallegri útistofu skólans Lundi undir Hamrinum.

Samkvæmt 29 gr. grunnskólalaga ber hverjum grunnskóla að gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur  fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Skólanámskrá er nánari útfærsla á Aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak  náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs.

Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og skal endurskoða reglulega. Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Þar skal birta upplýsingar um starfslið skólans, stjórnkerfi, mögulegan stuðning fyrir nemendur af ýmsu tagi og almennar hagnýtar upplýsingar um skólahald hvers skólaárs. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir fræðslunefnd sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitastjórnar um fyrirkomulag skólahalds.

Við grunnskóla skal jafnframt starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólastjóri hefur forgöngu um stofnun skólaráðs. Hann situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndarsamfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra valinn af öðrum en fulltrúum skólaráðs. Aðstoðarskólastjóri stýrir skólaráði í forföllum skólastjóra. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald.

Rauði þráðurinn í skipulagi skólastarfsins snýr að grunnþáttum menntunar; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi auk jafnréttis og sköpunar. Um grunnþættina segir í Aðalnámskrá grunnskóla:

Grunnþættir í menntun ásamt áhersluþáttum grunnskólalaga skulu vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum í grunnskóla. Þeir eiga að birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans. Grunnskólinn er eina skólastigið sem nemendum er skylt að sækja og er því mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunnþáttanna og sem búa þau undir þátttöku í lýðræðissamfélagi.

Aukinheldur leggur allt starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði kapp sitt á að nemendum líði vel sem fá tækifæri til að styrkja hæfileika sína. Samskipti innan skólans einkennast af gagnkvæmri virðingu. Skólinn ýtir undir alhliða þroska nemenda með áherslu á vellíðan, samskiptahæfni, þrautseigju, tillitssemi, lýðræði og heilbrigði. Þegar nemendur ljúka námi eru þeir ábyrgir, sjálfstæðir og vel hæfir í samskiptum. Grunnskólinn í Hveragerði er eftirsóttur vinnustaður og nýtur góðs álits í samfélaginu.

Núverandi merki Grunnskólans í Hveragerði hannaði Hrund Guðmundsdóttir í árslok 2019 sem ber einkunnarorð skólans. Þau eru:

Viska – Virðing – Vinátta

Visku og þekkingar aflar maður sér með því að takast á við lífið, hvort heldur er í leik eða starfi. Í skólanum vex kunnátta og leikni nemenda. Með visku að vopni erum við betur í stakk búin til þess að takast á við verkefni nútíðar og framtíðar.

Virðing endurspeglast í þeirri kurteisi sem við sýnum hvert öðru. Hvernig við tölum við annað fólk, hvernig við tölum um það og hvernig við förum með eigur okkar og annarra. Við virðum skoðanir annarra og tökum tillit til ólíkra þarfa, aðstæðna, langana og væntinga til hvers og eins.

Vinátta er mikilvægur þáttur þess að fólki upplifi lífshamingju og líði vel í leik og starfi. Hún er einn af hornsteinum daglegra samskipta og undirstaða vellíðanar og framfara.