Náms- og starfsráðgjöf

Hlutverk námsráðgjafa er að vera talsmaður nemenda í skólanum, standa vörð um velferð nemenda og leita lausna í málum þeirra. Helstu hlutverk námsráðgjafa eru:

  • Ráðgjöf um vinnubrögð í námi.
  • Leiðsögn og fræðsla um skipulagningu tíma og áætlunargerð.
  • Leiðsögn og fræðsla um náms- og próftækni.
  • Leiðsögn og fræðsla um lífsstíl og venjur sem stuðlað geta að aukinni einbeitingu, úthaldi og
  • auknu tilfinningalegu jafnvægi.
  • Að efla færni og þekkingu til að hafa áhrif á framvindu námsferils.
  • Að stuðla að því að nemandi nái settu marki í námi.
  • Að aðstoða einstaklinga sem standa höllum fæti.

Námsráðgjafi veitir nemendum stuðning vegna persónulegra, félagslegra og hegðunarlegra erfiðleika. Stuðningurinn er einstaklingsmiðaður þar sem nemandanum er hjálpað að leita lausna. Námsráðgjafinn vísar á önnur úrræði sé þess þörf. Sá stuðningur sem námsráðgjafinn veitir hefur það að markmiði að aðstoða nemandann þannig að hann geti náð hámarks árangri í námi sínu. Námsráðgjafi er bundinn trúnaði um einkamál nemenda. Dæmi um vandamál sem hægt er að leita aðstoðar við eru námsleiði, mætingar, vandamál í samskiptum við bekkjafélaga, kennara, vini eða fjölskyldu, stríðni, einelti, sorg, þunglyndi, kvíði, feimni og vímuefni.

Þá veita náms- og starfsráðgjafar fræðslu og ráðgjöf í námstækni. Slík kennsla felur í sér að aðstoða nemendur við að greina námsaðferðir, námsvenjur, lífsvenjur eða námsstíl og kynna árangursríkar námsvenjur og námsaðferðir. Þá aðstoða þeir nemendur við að prófa sig áfram og tileinka sér aðferðir, venjur eða stíl sem reynist þeim vel.

Einnig byrja náms- og starfsráðgjafar að kynna fyrir nemendum í 8., 9. og 10. bekk nám að loknum grunnskóla en úr miklu er að velja í námsúrvali framhaldsskólanna. Sjá nánar um tengsl skólans við framhaldsskóla á heimasíðu.

Náms- og starfsráðgjafar skólans eru Guðríður Aadnegard og Kolbrún Vilhjálmsdóttir. Hægt er að panta tíma hjá þeim eða gegnum ritara skólans.