Forvarnarstefna

Samkvæmt lögum eru einstaklingar börn að 18 ára aldri. Forvarnir eru aðgerðir sem fyrirbyggja áhættuhegðun og vanheilsu. Heilsuefling beinist að því að heilsa og velferð einstaklingsins eflist og styrkist. Þekking á heilsueflandi þáttum og leiðum til að forðast áhættuhegðun skipta þar miklu máli.

Forvarnarstefna Grunnskólans í Hveragerði tekur mið af aldri nemenda. Með forvörnum er átt við aðgerðir sem byggðar eru á áætlun til að koma í veg fyrir að einstaklingar heltist úr samfélaginu eða einangrist. Meginmarkmið stefnunnar er að stuðla að sem bestri þjónustu við nemendur, uppfylla markmið laga og aðalnámskrár um kennslu í samræmi við þarfir nemenda.

Þegar grunnskólagangan hefst takast nemendur á við nýjar aðstæður og aukið sjálfstæði. Mikilvægt er að góð samskipti og traust á milli heimila og skóla sé í öndvegi. Með því upplifa nemendur öryggi. Barni sem líður vel á fyrstu árum skólagöngunnar farnast yfirleitt vel í sínu námi. Mikilvægt er að gott jafnvægi ríki milli tímans sem nemendur verja í skóla og frístundastarfi. Álag má ekki verða of mikið, ávallt sé tími aflögu fyrir góða samveru með foreldrum.

Á miðstigi axla nemendur meiri ábyrgð á sjálfum sér og verða sjálfstæðari. Nemendur efast jafnvel um margt sem tekið var gott og gilt á bernskuárum. Líkamsímynd breytist og fleiri koma að félagsmótun; fullorðnir og jafnaldrar.

Unglingsárum fylgja nýjar og spennandi áskoranir. Áhrif jafningjahópsins verða meiri en áður þar sem nemendur máta sig við ýmis hlutverk. Elskum unglinginn óhikað. Unglingar vilja að foreldrar séu umhyggjusamir og setji skýr mörk án þess að verða ráðríkir og dómharðir. Því  meiri tíma sem foreldrar verja með unglingnum sínum því ólíklegra er að hann leiðist út í neyslu vímuefna. Forvarnarstarf beinist að því að styrkja félagslega stöðu og skapa aðstæður þar sem nemendur njóta æsku sinnar í öruggu umhverfi.

Miklu skiptir að nemendur og starfsfólk upplifi skólann sem samfélag án ofbeldis þar sem virkni og þátttaka allra í samfélaginu skiptir miklu. Mikil áhersla er lögð á eitt einkunnarorða skólans, virðingu. Nemendur beri virðingu fyrir sér og öðrum.

Markmið:

Þjálfa nemendur í að tjá hugsanir sínar, skoðanir og tilfinningar á jákvæðan hátt.

Efla sjálfsþekkingu nemenda og aðstoða þá við að byggja upp skýra sjálfsmynd.

Mikilvægt er að nemendur búi við góða líkamlega og andlega heilsu, hagsmunir þeirra séu í fyrirrúmi.

Áhersla er lögð á að vinna gegn hverskonar ofbeldi: Líkamlegu, andlegu, kynferðislegu sem og einelti.

Miklu skiptir að virkja öll börn og ungmenni til þátttöku í samræmi við aldur og þroska og sporna gegn brottfalli nemenda úr námi og skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi.

Áhersla er lögð á að sporna við hvers kyns vímuefnaneyslu.

Foreldrar eru lykilaðilar í forvörnum og samvera foreldra og barna er verndandi þáttur.

Sterk og jákvæð sjálfsmynd, félagsfærni og heilbrigðir lífshættir eru börnumog unglingum kjölfesta til að takast á við lífið og tilveruna.

Samvinna í nærumhverfi og efling félagsauðs er verndandi þáttur fyrir börn og unglinga sem styður foreldra í uppeldishlutverkinu.

Virk þátttaka í skóla- og frístundastarfi styrkir sjálfsmynd og félagsfærni barna og unglinga.

Einstaklingur sem hefur tileinkað sér hegðun og gildi í lífinu þar sem hlúð er að verndandi þáttum sniðgengur áhættuhegðun. Með því að sniðganga áhættuhegðun er stigið skref í átt að verndandi þáttum svo sem með; heilsurækt, geðrækt, sterkri jákvæðri sjálfsmynd, líkamsvitund, félagsfærni og samfélagsábyrgð. Áhættuhegðun er hegðun sem skaðar einstaklinginn til dæmis með neyslu vímuefna, afbrot, átröskun, of mikilli tölvunotkun, klámi. Hvers kyns ofbeldi; líkamlegt, andlegt, kynferðislegt sem og einelti. Vanlíðan, geðröskun, ofbeldi á heimili, mismunun vegna fötlunar, kynferðis og ólíks uppruna og félagslegir erfiðleikar eru jafnframt áhættuþættir í lífi barna og unglinga sem sérstaklega þarf að huga að.