Móttaka nýrra nemenda
Við móttöku nýrra nemenda er lögð áhersla á góðar móttökur og skýrar upplýsingar. Foreldrar og nemandi eru boðuð í skólann til kynningar áður en kennsla hefst. Skólastjórnendur leiða nýja nemendur og foreldra til fundar við umsjónarkennara sem kynnir þeim húsakost, lykilstarfsmenn og skólastarfið. Þegar nemendur byrja í skólanum á miðjum vetri eru þeir, ásamt foreldrum, boðaðir til fundar eftir hádegi þegar ekki er kennsla. Sérstaklega er stuðlað að því að nýir nemendur tengist verðandi bekkjarfélögum.
Innritun nýrra nemenda er í höndum stjórnenda og ritara skólans. Gögnum er aflað frá fyrri skóla ef þau eru fyrir hendi. Því næst er bekkur valinn fyrir nemanda og umsjónarkennara tilkynnt um komu nemandans. Foreldrar eru boðaðir á fund.
Nemendum í bekknum er sagt frá nýjum nemanda og nafni hans. Nemendur fengnir/valdir til að taka að sér leiðsögn um skólann og fylgd fyrstu dagana, m.a. í frímínútur og hádegishlé. Foreldrum barna í bekknum er jafnframt tilkynnt um nýjan nemanda.
Allir kennarar sem kenna bekknum, námsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur fá grunnupplýsingar um nemandann auk upplýsinga um námslega og félagslega stöðu. Stuðningsfulltrúar, matráður og húsvörður fá grunnupplýsingar og upplýsingar um félagslega stöðu.
Móttaka nýrra nemenda innflytjenda
Í lögum um grunnskóla (16. grein nr. 91/2008) er kveðið á um að allir grunnskólar skuli hafa móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin á að taka mið af bakgrunni nemenda, tungumálafærni og hæfni þeirra á öðrum námssviðum. Áætlunin á að tryggja að nemendur og foreldrar þeirra fái upplýsingar um skólann og ráðleggingar um skólastarfið.
Við móttöku nýrra nemenda með annað móðurmál en íslensku er samskonar ferli og við móttöku annarra nýnema. Gengið er frá túlkaþjónustu ef þarf.