Kennsla

Kennsluaðferðir kennara við Grunnskólann í Hveragerði fjölbreyttar og valdar með tilliti til; kennslugreina, tiltæks námsefnis, nemendahóps og aðstæðna. Áhersla er lögð á lestur og skilning á öllum stigum líkt og sjá má í heimanámsstefnu og lestrarstefnu skólans. Þá skal námsmat vera leiðsegjandi og miðast við að hvetja og leiðbeina nemendum til enn betri verka. Fólk lærir nýja hluti alla ævi. Við tökumst á við mismunandi verkefni á ólíkum æviskeiðum. Örar breytingar á samfélagi, vinnustöðum og tækni kalla á að fólk kunni til verka og sé reiðubúið að læra nýja hluti að eigin frumkvæði og undir eigin stjórn. Til þess að allt gangi vel hefur það þótt eðlilegast að allt nám sem skipulagt er af kennurum innihaldi einhverja þætti sem auka færni nemenda í að skipuleggja sig og sinna námi sínu sjálfstætt. Nemendur auki þannig þekkingu sína, hæfni og leikni upp á eigin spýtur. Það mætti segja að hlutverk allra kennara sé að styðja við sjálfstýrt ævinám nemenda sinna sem gerir þá að betri námsmönnum, hvort sem þeir læra í hópi eða sjálfstætt.

Mikilvægt er að í skólanum gangi allir í takti, sem dæmi er mikilvægt að sendar verði út sameiginlegar fréttir – vikupóstar árganga. Það er mikilvægt að líta á bekki sem einn hóp. Árgangurinn er ein heild. Þegar bekkir eru speglaðir eru margir möguleikar til uppstokkunar hópanna; strákar/stelpur, stafrófsröð, áhugasvið o.s.frv. o.s.frv. Víða eru bekkir speglaðir og mörg tækifæri til samstarfs námshópa/bekkja. Þegar þrír kennarar koma að árgangi og hafa jafnvel stuðningsfulltrúa með hópnum er ekki reiknað með nemendum úr þeim hópi í sér- eða stuðningskennslu.

Reikna má með því að teymiskennsla og vinna því tengd eigi eftir að skipa talsverðan sess í starfsemi skólans. Sú vinna verður að fá að þróast undir forystu kennara sjálfra. Teymiskennslu er hægt að sinna með ýmsum hætti:

Kennarar skipuleggja hvernig þeir haga kennslunni; þrír hópar eða tveir hópar, annar hópurinn með tvo kennara, svo dæmi sé tekið. Með þessu léttir talsvert á námsverum. Hefðbundin teymiskennsla (traditional team teaching) þar sem kennararnir deila með sér kennslu allra nemenda. Dæmigerð kennslustund í stærðfræði væri t.d. þannig að annar kennari af tveimur myndi útskýra fyrir öllum hópnum á meðan hinn sýnir dæmi á töflunni. Í hefðbundinni teymiskennslu bera kennararnir jafna ábyrgð á öllum nemendum og eru virkir í kennslustundum.

Stuðningsteymiskennsla (complimentary eða supportive team teaching) er þannig að einn kennari ber ábyrgð á að kenna efnið en annar eða aðrir sjá um að kenna leiðir til að nota það sem kennt var. Dæmi um kennslustund væri t.d. ef annar kennari af tveimur gerði nemendum grein fyrir innihaldi kafla í bók og setti nemendum fyrir lestrarverkefni en hinn kennarinn kenndi nemendum að nota gagnvirkan lestur um leið og þeir vinna verkefnið.

Hliðstæð kennsla (parallel instruction) þar sem nemendum er skipt upp í hópa og allir kennarar kenna nemendum sama efnið hver fyrir sig.

Nemendur eru aðgreindir í hópa (differentiated split class) eftir námsþörfum. Hver hópur fær kennslu til að mæta þessum þörfum. Nemendum er skipt í mismunandi hópa eftir því hvað er verið að kenna.

Einn kennari ber ábyrgðina (monitoring teacher) og á að kenna öllum nemendum en hinir kennararnir fara á milli í rýminu og aðstoða nemendur og sjá til þess að þeir hagi sér vel.