Heimanámsstefna

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra (Lög um grunnskóla, 2008 nr. 91).

Í heimanámsstefnu GíH er megináhersla lögð á lestur, lesskilning og sköpun.  Fyrirkomulag lesturs og lesskilningsverkefna er með eftirfarandi hætti:

Yngsta stig. Skráður heimalestur, 5 orðabók, málsgreinabók, yndislestur. Umsjónarkennarar yfirfara skráningu heimalesturs.

Miðstig. Skráður heimalestur, lestur námsbóka, yndislestur. Umsjónarkennarar yfirfara skráningu heimalesturs.

Elsta stig. Skráður heimalestur, lestur námsbóka, markviss yndislestur. Umsjónarkennarar yfirfara skráningu heimalesturs.

Kennsluáætlanir í öllum fögum eru sýnilegar nemendum og foreldrum/forráðamönnum á Mentor. Mikilvægt er að nemendur, foreldrar og kennarar fylgist í sameiningu með því að nemendur standist áætlunina. 

Í stað hefðbundinnar vinnubókavinnu er gert ráð fyrir því að hægt sé að leggja fyrir annarskonar verkefni sem heimanám. Til dæmis; lesskilningsverkefni, viðtöl/upplýsingaöflun, stuttmyndagerð, snjalltækjaverkefni og fleiri verkefni sem reyna á sköpun. Í eldri bekkjum (7.- 10. bekkjum) getur ritgerðarvinna einnig orðið að heimanámi í einhverjum mæli.  Mikilvægt er að kennarar í ólíkum greinum hafi með sér samráð þannig að heimanám/próf dreifist með sanngjörnum hætti yfir skólaárið og milli námsgreina. Óski nemandi og heimili eftir auknu heimanámi verður leitast við að verða við því. Mælst er til þess að námsbækur séu sendar reglulega heim með nemendum til að foreldrar geti fylgst með því sem börnin eru að gera í skólanum.

Námsumhverfi þarf að vera hvetjandi. Það er mikilvægt að nemendur læri að þekkja sína hæfileika og þróa þá. Hverjar eru þarfirnar? Hverjar eru mögulegar lausnir? Það er mikilvægt að skólastarf hafi traust samfélagsins; fjölskyldna, kennara, skólastjórnenda og yfirvalda. Allir sem að skólanum koma mynda kerfi sem saman getur leitað leiða til að umbreyta starfinu og veita enn betri skilyrði til náms. 

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska (Lög um grunnskóla, 2008 nr. 91).