Bréf til heimila

Komið þið sæl,

Grunnskólinn í Hveragerði, skólinn okkar, vinnur eftir Olweusaráætlun gegn einelti. Þessa dagana standa yfir heimhringingar, þar sem umsjónarkennarar hringja í foreldra og ræða um líðan og samskipti barna þeirra. Þessi símtöl eru liður okkar í áætluninni og varða að því markmiði að gera samskipti enn betri.

Sú nýbreytni var í ár að á baráttudegi gegn einelti 8. nóvember voru stjórnendur skólans til viðtals við foreldra um samskipti og líðan milli 16 og 17. Enginn kom.

Eins og gefur að skilja hefur skólinn ekki farið varhluta af þeirri þróun sem orðið hefur í samskiptum fólks sem fara nú æ meira fram í gegnum samskiptamiðla. Margir gera ráð fyrir að hafa beinan og milliliðalausan aðgang að nánast hverjum sem er, hvenær sem er, og að fyrirspurnum og athugasemdum sé svarað samstundis. Þetta á einnig við um samskipti foreldra við kennara. Enda þótt þessu fylgi margvísleg þægindi er nauðsynlegt að viðhalda almennar kurteisisreglur um samskipti skóla og foreldra, sem tryggja velferð nemenda án þess að trufla nám og kennslu. Mikilvægt er að öllum hagsmunaaðilum sé ljóst hvaða reglur gilda um samskipti kennara og foreldra.

Tölum við kennara en ekki um þá.

Það er mikilvægt þegar eitthvað í samskiptum nemenda okkar í skólanum fer úrskeiðis þá sé starfsfólki skólans tilkynnt um málið.

Í allri umræðu um síma og umgengni barna og ungmenna við snjalltækin er vert að minna á ábyrgð foreldra og almennar reglur. Samfélagsmiðillinn Snapchat er bannaður yngri en 12 ára. Við vitum af nemendum í okkar skóla sem eru með aðgang þangað inn mun yngri. Vikulega heyrast sögur/fréttir af óeðlilegum og hræðilegum samskiptum. Samskipti fólks á Snapchat eru ekki vistuð og því er miðillinn oft vettvangur valdaójafnvægis og misnotkunar, t.d þar sem eldri aðilar freista þess að öðlast traust ungmenna eins og fram hefur komið í nýlegum kynferðisafbrotamálum. Þá eru eineltismál á milli barna og ungmenna sem eiga sér stað á Snapchat einnig fjölmörg og alvarleg.

Við biðjum ykkur foreldra að vera sérstaklega á varðbergi og fjarlægja Snapchat í tækjum barna ykkar. Þá er einnig mikilvægt að ræða opinskátt og reglulega um samfélagsmiðlanotkun barnanna ykkar. Ekki einungis þegar í óefni er komið heldur einnig á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Í slíkri samræðu felst mikið forvarnargildi. Hér á eftir koma nokkur atriði tengd samskiptum kennara og heimila. Umsjónarkennarinn er alltaf sá sem foreldrar skulu leita fyrst til með málefni sem þarfnast úrlausna tengt skólagöngu barnsins. Þarnæst er það deildarstjóri viðkomandi stigs og svo aðstoðarskólastjóri og skólastjóri.

Tölvupóstur

Lögð er áhersla á að kennarar fái vinnufrið í kennslustundum og þurfi ekki að opna tölvupóst né svara síma. Tölvupóstur er eingöngu notaður til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir um hagnýt mál. Aldrei ætti að nota tölvupóst til að ræða viðkvæm, persónuleg mál.

Hver og einn kennari ákveður sjálfur hvort hann tekur á móti vinnupósti í farsíma sinn eða ekki. Kennarar eru með fasta viðtalstíma á stundaskrá þar sem foreldrar geta hringt eða komið til fundar við þá. Ef málið þolir ekki bið er hægt að óska eftir símtali eða fundi með milligöngu ritara eða í gegnum heimasíðu. Á heimasíðu er „hnappur“ þar sem hægt er að óska eftir símtali. Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og deildarstjórar veita viðtöl eftir samkomulagi.

Ritari stýrir aðgengi foreldra að kennurum í samræmi við reglur skólans. Foreldrar tilkynna veikindi barna sinna og/eða stutt leyfi til ritara skólans.

Samráðs- og upplýsingafundir eru haldnir reglulega í skólanum. Foreldrar/forráðamenn eru boðaðir til funda snemma að hausti, í byrjun skólaársins.

Skólinn birtir allar helstu upplýsingar um skólastarfið á heimasíðu sinni m.a. skóladagatal, skólanámskrá, starfsáætlun, samstarfsáætlun foreldra og skóla, starfsmannalista, matseðil, tómstundatilboð o.fl.

Hagnýtar upplýsingar um námsmarkmið, námsmat, heimanám o.fl. eru jafnframt birtar á Mentor þar sem þær eru uppfærðar reglulega af umsjónarkennara og öðrum kennurum sem kenna nemandanum.

Umsjónarkennari sendir foreldrum reglulega helstu upplýsingar um bekkjarstarfið og það sem fram undan er í bekknum.

Í september, janúar og júní eru haldnir samráðsfundir/foreldraviðtöl með umsjónarkennara, foreldrum og nemenda þar sem farið er yfir markmið og stöðu nemandans. Á sama tíma gefast einnig tækifæri fyrir nemendur, foreldra og sérgreinakennara að eiga fundi um markmið og stöðu nemandans. Frekari upplýsingar eru veittar eftir þörfum á fundum, með samtölum, tölvupósti og gegnum síma.

Fyrir hönd starfsfólks Grunnskólans í Hveragerði.

Með vinsemd og virðingu, Sævar Þór.

SJÁ EINNIG SKÓLAREGLUR - REGLUR UM SNJALLTÆKI