Aðkoma að skólanum

Umferðaröryggi grunnskólabarna er afskaplega mikilvægt. Nauðsynlegt er að foreldrar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann. Nemendur eru hvattir til að vera með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.

Við alla grunnskóla er að finna svokölluð sleppistæði, en þau gera kleift að hleypa börnum úr bílnum á öruggu svæði. Mikilvægt er að nota sleppistæðin, þegar börnum er ekið í skóla, en ekki síst að nota þau rétt. Miðað er við innakstur á ákveðnum stað og útakstur á ákveðnum stað, en þannig næst rétt flæði umferðar og öryggis er gætt. Með öryggi grunnskólabarna að leiðarljósi eru foreldrar vinsamlega beðnir að nota sleppistæði í Fljótsmörk eða hjá íþróttahúsi.

Foreldrar nemenda sem keyra börnin sín í skólann eru beðnir að nota ALLS EKKI planið við Garðshorn (á horni Skólamerkur/Reykjamerkur) sem sleppistæði.

Þá hefur snjallgangbraut verið tekin í notkun við Breiðumörk hjá Skyrgerðinni og eykur hún öryggi gangandi vegfarenda til mikilla muna. Uppsetning gangbrautarinnar er afrakstur vinnu umferðar­öryggishóps sem starfandi var í Grunnskólanum í Hveragerði en hópurinn óskaði eindregið eftir aðgerðum sem bæta myndu öryggi barna við grunnskólann og á gönguleiðum nálægt skólanum. Þessi staðsetning var valin þar sem börn fara þarna yfir Breiðumörk á leið í skólann og einnig á leið sinni í Bungubrekku þar sem skólasel og félagsmiðstöð er til húsa.

Sjá einnig umferðaröryggisreglur skólans HÉR