Stundatöflur

Skóladagurinn hefst kl. 08:10 þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga og kl. 08.30 á mánudögum og föstudögum. Nemendur í 7. – 10. bekkjum byrja alla daga kl. 08:30. Skólahúsnæðið er opið frá kl. 07:30 á morgnana. Boðið er upp á hafragraut á morgnana frá kl. 07:50 – 08:05. Eftir að skóla lýkur á daginn býðst nemendum 1. – 3. bekkja lengd viðvera á skólaseli til kl. 17:00. Nemendum er tvískipt í 20 mínútna frímínútur kl. 09:30 og 09:50. Frímínútnagæsla er í höndum stuðningsfulltrúa skólans. Um svipað leyti er stuttur nestistími nemenda. Þeir geta komið með hollt nesti að heiman eða verið í ávaxta- og/eða mjólkuráskrift, sjá nánar á heimasíðu skólans. Hádegishlé er á tímabilinu 11:30 – 12:50, matseðil má nálgast á heimasíðu skólans. Nemendur sækja sundtíma við sundlaugina í Laugaskarði og íþróttir eru kenndar í íþróttahúsinu við skólann. List- og verkgreinar (smíði, textílmennt, myndmennt, heimilisfræði, leik- og tónlist) eru kenndar í lotum. Þá er útivist í stundatöflum í öllum árgöngum. Óhætt er að fullyrða að útikennsla, að flytja kennslu að einhverju leyti út fyrir veggi skólans, auðgi og styrki allt nám ásamt því að vera hollt fyrir bæði líkama og sál.

Sífellt er leitað leiða til að betrumbæta stundatöflur í takti við skólaþróun og breytingar í samfélaginu. T.d. er möguleiki á að leggja aukna áherslu á snillitíma/áhugasviðsverkefni. Með snillitímum eða áhugasviðsverkefnum verða til sjálfstæðir nemendur sem sýna frumkvæði í námi. Nemendum sem líður vel við verk sín, þekkja eigin styrkleika, nýta sér sína reynslu og þekkingu til að afla sér nýrrar þekkingar. Það er mikilvægt að kennarar hjálpi nemendum með fyrstu skrefin og samstarf innan árganga er mikilvægt.

Kennsla valgreina á elsta stigi verður með sama hætti og á s.l. skólaári þegar byrjað var að kenna valnámskeið í þremur 12 vikna lotum. 8.-10. bekkir verða á sama tíma í vali, einu sinni í viku í 40 mínútna kennslustund og einu sinni í viku í 80 mínútna kennslustund. Valinu er stýrt að því leyti að allir nemendur stigsins hafi við útskrift lokið tilskildum fjölda tíma í list- og verkgreinum í samræmi við viðmiðunarstundaskrá. Engar smiðjur verða í 8.bekk, en allir nemendur elsta stigs geta áfram valið hin klassísku smiðjufög; heimilisfræði, myndmennt, smíði og textílmennt. Þótt valinu sé stýrt að hluta, hafa nemendur nú meira um það að segja en áður hvaða list- og verkgreinar þeir velja að leggja áherslu á. Alls geta nemendur valið úr 35 valgreinum fyrir komandi skólaár. Þar af eru þrettán list- og verkgreinar, sem er veruleg aukning frá því sem verið hefur.

Þeim valnámskeiðum sem í boði eru fyrir komandi skólaár má skipta í fjóra flokka:

List- og verkgreinar:

·         Allt um bílinn

·         Dans

·         Heimilisfræði

·         Hljómsveitaval

·         Hönnun, nýsköpun og endurnýting

·         Keramik

·         Leiklist í víðu samhengi

·         Myndmennt

·         Skjálftinn 2022

·         Skrautskrift

·         Smíði

·         Starfsfræðsla, handverk og hegðun

·         Textílmennt

Líðan, samskipti og lífsleikni:

·         Drekar og dýflissur

·         Fjármálalæsi

·         Jákvæðni og hamingja

·         Jóga

·         Leiðtogi í eigin lífi

·         Hvernig á að temja drekann sinn

·         Kynja- og kynfræðsla

·         Sálfræði

·         Spil og leikir

·         Táknmál

Saga:

·         Íþróttasaga

·         Kvikmyndasaga

·         Popp- og rokksaga

Annað:

·         Grasafræði, Gæludýraval með grænu ívafi, Enski boltinn, Í fréttum er þetta helst, Skák, Stjörnufræði og framhaldsskólaáfangar

Elsta stig stígur skref í átt til aukinnar samþættingar á komandi skólaári. 9. og 10. bekkjum verður samkennt í tveimur kennslustundum á viku, rúmlega 60 nemendur og 5 kennarar. Fögin sem verða samþætt í þessari fyrstu lotu eru náttúrufræði, samfélagsfræði, íslenska og upplýsingatækni. Þá verður allt stigið einu sinni í viku í sameiginlegum aðstoðartímum víðsvegar um húsið, þar sem nemendur velja sjálfir þau fög sem þeir telja sig helst þurfa á aðstoð að halda við. 20 mínútna umsjónartímar sem hafa verið á dagskrá þrisvar í viku undanfarin skólaár hafa nú verið lagðir af en í staðinn fær hver umsjónarbekkur á stiginu tvær 40 mínútna kennslustundir á viku með sínum umsjónarkennara. Heiti þessara tíma í stundatöflu er Umsjón/Áform/Fundir og er sótt í smiðju Norðlingaskóla.

STUNDATÖFLUR MÁ FINNA HÉR