Komið þið sæl,
Hér er upplýsingapóstur vegna fyrirhugaðrar notkunar Grunnskólans í Hveragerði á Securly Classroom
Securly Classroom
Grunnskólinn í Hveragerði mun á næstu dögum taka í notkun kerfið Securly Classroom. Um er að ræða hugbúnað sem hjálpar kennurum að hafa öruggari stjórn á tölvunotkun nemenda í kennslustundum. Með Securly Classroom geta kennarar í gegnum sínar tölvur fylgst með og stjórnað aðgerðum nemenda í skólatölvum. Kennarar sjá tölvuskjái nemenda í rauntíma og geta stýrt þeim í þá átt, ef við á, að halda sig við kennsluefnið. Einnig geta kennarar lokað síðum sem ekki tengjast kennsluefninu.
Upplýsingagjöf vegna persónuverndar
Við notkun Grunnskólans í Hveragerði á Securly Classroom mun vinnsla persónuupplýsinga eiga sér stað um nemendur sem fellur undir gildissvið laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga ("persónuverndarlög"). Einkum er um að ræða upplýsingar um það sem nemendur aðhafast í skólatölvum í kennslustund. Í tilkynningu þessari má finna upplýsingar er snerta persónuvernd sem skólanum ber að veita einstaklingum samkvæmt persónuverndarlögum.
Tilgangur og lagagrundvöllur notkunar
Stafrænar truflanir hafa verið vandamál í Grunnskólanum í Hveragerði. Reynst hefur erfitt fyrir kennara að hafa yfirsýn yfir það sem nemendur aðhafast í skólatölvum í kennslustundum og útilokað er að loka á allt efni fyrir fram sem ekki tengist námsefninu. Stafrænar truflanir og ósæmilegt efni hafa áhrif á vellíðan og vinnufrið nemenda í skólastofunni og þar með getu þeirra til að sinna náminu.
Markmið Grunnskólans í Hveragerði með notkun á Securly Classroom er að takmarka stafrænar truflanir í kennslustundum, koma í veg fyrir ósæmilega netnotkun og halda nemendum við efnið með tilheyrandi ávinningi fyrir bæði þá og starfsfólk.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum skal starfsfólk skóla bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Vinnsla persónuupplýsinga vegna notkunar á Securly Classroom byggir því á nauðsyn þess að uppfylla lagskyldu sem hvílir á Grunnskólanum í Hveragerði og styðst við heimild í 3. tölul. 9. gr. persónuverndarlaga.
Aðgangur að gögnum / Þjónustuaðili
Einungis kerfisstjóri og kennari viðkomandi tíma geta séð rauntímanotkun og það sem nemandi aðhafðist í skólatölvu í kennslustund.
Fyrirtækið Securly Inc. á og rekur hugbúnaðinn Securly Classroom. Fyrirtækið er skuldbundið til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, gæta trúnaðar og fara í einu og öllu eftir fyrirmælum Grunnskólans í Hveragerði um meðferð þeirra. Undir engum kringumstæðum er fyrirtækinu heimilt að nota upplýsingar um nemendur í eigin þágu.
Varðveislutími gagna
Kennarar fylgjast einkum með rauntímanotkun nemenda á skólatölvum en einnig verða til upplýsingar um það sem nemandi aðhafðist í kennslustund, þ.e. hvaða síðum hann eyddi tíma á. Þær upplýsingar eyðast þó sjálfkrafa um leið og kennari lokar kennslustund í Securly Classroom. Upplýsingar sem verða til við notkun lausnarinnar eru því einungis varðveittar í mjög skamman tíma.
Réttindi einstaklinga
Einstaklingar njóta ýmissa réttinda samkvæmt persónuverndarlögum, svo sem réttar til aðgangs, leiðréttingar, eyðingar, takmörkunar, andmæla o.fl. Vilji viðkomandi nýta réttindi sín skal beiðni þess efnis send á persónuverndarfulltrúa Hveragerðisbæjar í gegnum netfangið personuvernd@hveragerdi.is, sjá einnig upplýsingar um persónuverndarfulltrúa að neðan.
Vakin er athygli á að réttindi einstaklinga samkvæmt persónuverndarlögum eru ekki fortakslaus og kann beiðni að vera hafnað eftir því sem lög kveða á um.
Persónuverndarfulltrúi
Hveragerðisbær hefur tilnefnt persónuverndarfulltrúa í samræmi við persónuverndarlög. Persónuverndarfulltrúi sveitarfélagsins, og jafnframt Grunnskólans í Hveragerði, er Karl Hrannar Sigurðsson. Foreldrar, forráðamenn og nemendur sem hafa frekari spurningar un notkun skólans á Securly Classroom, eða vilja nýta réttindi sín, geta sent erindi á Karl í gegnum netfangið personuvernd@hveragerdi.is.
Eftirlitsaðili
Persónuvernd hefur eftirlit með að vinnsla persónuupplýsinga fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Sá sem á hagsmuna að gæta getur lagt fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur Grunnskólann í Hveragerði fara gegn ákvæðum persónuverndarlaga. Athygli er vakin á að kvörtun skal beint að Hveragerðisbæ sem ábyrgðaraðila lausnarinnar, sbr. upplýsingar um ábyrgðaraðila að neðan. Nánari upplýsingar um Persónuvernd má finna á vef stofnunarinnar, www.personuvernd.is.
Ábyrgðaraðili
Hveragerðisbær telst ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga vegna notkunar Grunnskólans í Hveragerði á lausninni Securly Classroom.
Samskiptaupplýsingar ábyrgðaraðila:
Hveragerðisbær, kt. 650169-4849
Breiðumörk 20, 810 Hveragerði
Símanúmer: 483-4000
Netfang: mottaka@hveragerdi.is
Bestu kveðjur,
Sævar Þór Helgason
Grunnskólinn í Hveragerði