Komið þið sæl.
Í vikunni taka nemendur grunnskólans þátt í UNICEF hreyfingunni líkt og undanfarin ár.
Fyrirkomulagið á hreyfingunni í ár er þannig að nemendur geta látið heita á sig fyrir hvert unnið verk (í okkar tilfelli 400m hlaup). Svo fá nemendur með sér heim svokallaðan ,,heimspassa" þar sem þau geta sýnt fram á hversu mörgum hringjum þau náðu í hlaupinu.
Áheitablað fór til heimila sem hægt er að nýta til þess að halda utan um áheitasöfnun.
Eftir hlaup geta foreldrar, og eftir atvikum aðrir styrktaraðilar, gengið frá áheitunum með rafrænum hætti í gegn um sérstaka styrktarsíðu grunnskólans hjá UNICEF.
Hér er tengill inn á þá síðu:
https://sofnun.unicef.is/participant/grunnskolinn-i-hveragerdi-hreyfingin-2023
Það sem skiptir mestu máli í þessu verkefni er að sýna samstöðu í verki og fá fræðslu um brýn málefni en að þessu sinni er áhersluatriðið 2. grein barnasáttmálans, öll börn eru jöfn. Það verður tekin umræða við krakkana að það skipti ekki máli hversu miklu þau safna og þess vegna viljum við beina þeim tilmælum til ykkar að hafa áheitin frekar hófleg en eins og kemur fram í foreldrabréfinu frá UNICEF (sjá viðhengi) þá er áherslan alls ekki á háar upphæðir heldur að börnin upplifi samtakamáttinn sem felst í að allir vinni saman og leggi sitt af mörkum til mannúðarmála. Einnig kemur þar fram að börnin geta að sjálfsögðu tekið þátt í UNICEF hreyfingunni án þess að nokkur heiti á þau. Engin skylda er að safna áheitum. Þátttakan ein og sér er mikilvæg og börnin geta sýnt velvilja sinn með því að láta sig málefnið varða.
Fyrirkomulagið á okkar hreyfidegi er þannig að krakkarnir fá 20 mínútur til að hlaupa eins marga hringi á skólalóðinni og þau geta en hringurinn er í kringum 400 metrar. Miðað við árangur fyrri ára þá eru krakkarnir að fara allt frá 4 og upp í 11 hringi á þessum tíma en að sjálfsögðu spilar aldur og úthald þar inn í.