Um heilsuvernd grunnskólabarna

Sælir kæru foreldrar.

Nú við upphaf skólaárs langar mig stuttlega að kynna fyrir ykkur heilsuvernd skólabarna.
Ég kem inn sem nýr skólahjúkrunarfræðingur og Súsanna heldur áfram.

Við erum í skólanum á þessum tímum (gæti breyst, verður þá tilkynnt):
8:30-12:00 mánudaga (Súsanna)
8:30-14:00 þriðjudaga (Guðfinna)
8:30-14:00 miðvikudaga (Guðfinna)
8:30-12:00 fimmtudaga (Guðfinna)
Utan þessa tíma er alltaf hægt að leggja fyrir skilaboð hjá ritara skólans eða á heilsugæslunni og munum við hafa samband.
Tölvupóstur: grunnskoli.hveragerdis@hsu.is
Heilsugæslan í Hveragerði: 432-2400

Heilsuvernd skólabarna er á vegum heilsugæslunnar og er framhald af ung- og smábarnavernd. Starfsemin er framkvæmd eftir þeim lögum og reglum sem um hana gilda. Á heilsuvefnum http://heilsuvera.is er yfirlit yfir áherslur í starfseminni. Mikil samvinna er við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum barnanna og stuðla að velferð þeirra. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þetta vel og hikið ekki við að hafa samband við okkur ef einhverjar spurningar vakna eða þið viljið koma skilaboðum til okkar vegna barna ykkar.

Markmið heilsuverndar grunnskólabarna er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan.
Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Við veitum skipulagða heilsuvernd í öllum árgöngum og leggjum áherslu á að hvetja til heilbrigðra lífshátta.
Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna. Þá gefst ykkur kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í daglegu lífi.

Ef einhverjar spurningar vakna eða þið teljið ykkur þurfa að koma upplýsingum til okkar er best að senda tölvupóst á grunnskoli.hveragerdis@hsu.is eða biðja fyrir skilaboðum hjá ritara skólans eða á Heilsugæslunni í Hveragerði og við munum hafa samband við ykkur.

Ég vil sérstaklega hvetja foreldra nýrra nemenda sem glíma við heilsufarsvanda s.s. langvinna sjúkdóma, bráðaofnæmi eða annað að hafa samband við okkur til þess að veita mikilvægar upplýsingar þar um. Eins ef breytingar hafa orðið hjá eldri nemendum er mikilvægt að upplýsa okkur um þær.

Hlakka til vetrarins með börnunum ykkar og samstarfsins við ykkur.

Kær kveðja,
Guðfinna Ýr Sumarliðadóttir
Skólahjúkrunarfræðingur í Grunnskólanum í Hveragerði