Nemendur í 4. bekk fengu höfðinglegt boð um að koma á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Suðurlands. Um þessar mundir stendur Sinfóníuhljómsveitin fyrir tónleikum í 14 grunnskólum á Suðurlandi. Aðalverk tónleikanna var Stúlkan í turninum en það var Snorri Sigfús Birgisson sem samdi verkið við sögu Jónasar Hallgrímssonar.
Það var virkilega gaman að fá að hlýða á þessa tónleika. Í upphafi fór Guðmundur Óli hljómsveitarstjóri yfir öll hljóðfærin sem þarna voru og hljóðfæraleikararnir komu með skemmtileg tóndæmi. Það var einnig gaman að heyra hvernig sögumaður og tónlistin fléttuðust saman í verkinu um Stúlkuna í turninum. Krakkarnir voru svo fengnir til að slá botninn í tónleikana með því að syngja með hljómsveitinni Ryksugan á fullu.
Þetta voru virkilega skemmtilegir tónleikar og við þökkum Sinfóníuhljómsveit Suðurlands kærlega fyrir komuna.