Tilskipun um sóttkví

Komið þið sæl gott fólk.

Starfsmaður við Grunnskólann í Hveragerði hefur greinst með Covid-19 og fór af stað ferli sem er á ábyrgð sóttvarnayfirvalda og almannavarna. Rakningarteymi á vegum almannavarna hefur rakið ferðir hins smitaða og haft var samband við skólastjóra áðan.

Nemendur eftirtalinna bekkja; 1., 2., 4., 5., 6., 7. og 10. bekkja, hafa samkvæmt tilmælum lögreglu, sóttvarnaryfirvalda og almannavarna verið skipaðir í sóttkví frá 10. mars til 23. mars næstkomandi. Þessar dagsetningar voru gefnar upp og eru afturvirkar. Á þessum lista eru tæplega þrjú hundruð nemendur, einhverjir hafa ekki verið í skólanum þessa síðustu viku en upplýsingapóstur er sendur til allra heimila.

Það er mikilvægt að foreldrar nálgist mögulegar upplýsingar og færi börnum sínum fréttirnar í rólegheitum og með yfirvegun. Mikilvægt er að muna að fólk í sóttkví er ekki veikt heldur í fyrirbyggjandi aðgerðum. Þónokkrir starfsmenn eru líka komnir í sóttkví, þennan sama tíma. Upplýsingar um nemendur og starfsfólk hafa eins verið sendar til rakningateymis.

Á heimasíðu Landlæknis má finna leiðbeiningar um sóttkví í heimahúsi. Eins eru gagnlegar upplýsingar á www.covid.is. Ef börn eða þið sjálf finnið fyrir flensueinkennum þá setjið ykkur í samband við 1700.

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38990/Lei%C3%B0beiningar%20fyrir%20almenning%20var%C3%B0andi%20s%C3%B3ttkv%C3%AD%20%C3%AD%20heimah%C3%BAsi%2002032020.pdf

Heilsufarsupplýsingar teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga. Því skulu ábyrgðaraðilar lágmarka skráningu og miðlun og skal hún takmarkast við það sem er algerlega nauðsynlegt.

Fyrirkomulag náms og skólastarfs næstu daga verður kynnt nánar síðar.

Hlutirnir gerast hratt og mikilvægt að fylgjast vel með upplýsingum í fréttum og heimasíðum skólans, bæjarins og landlæknis.

Bestu kveðjur,
Sævar og starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði.