Hér má sjá þær Jönu Marín, Maren Sif og Lilju Snædísi auk umsjónarkennara og skólastjóra GÍÞ
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin var hér í síðustu viku var vægast sagt vel heppnuð. Þar voru allir sigurvegarar!
Keppnin er árlegt samstarfsverkefni fyrir nemendur í 7. bekk Grunnskólans í Hveragerði og Grunnskólans í Þorlákshöfn sem miðar að því að efla vandaðan upplestur og sjálfsöryggi í framkomu. Nemendur fá markvissa kennslu í framsögn, túlkun og framkomu.
Tólf nemendur lásu valin ljóð og sögubrot af mikilli innlifun og alúð. Allir lesarar stóðu sig afskaplega vel og voru aðstandendur og kennarar stoltir af frammistöðu þeirra. Hátíðinni var einnig gert hátt undir höfði með tónlistaratriðum frá báðum skólum sem prýddu dagskrána.
Þrír nemendur hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi lestur. Í þriðja sæti varð Jana Marín Finnsdóttir úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn, í öðru sæti Maren Sif Vilhjálmsdóttir úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn og að lokum hlaut Lilja Snædís Marteinsdóttir úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn fyrsta sætið. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.
Að lokinni dagskrá var öllum krökkunum boðið í pylsupartý, leiki og samveru.