Dr. Maggi Jónsson arkitekt, Sævar Þór Helgason skólastjóri, Guðmundur F. Baldursson tæknifræðingur.
Söguleg heimsókn arkitektsins dr. Magga Jónssonar í Grunnskólann í Hveragerði - síðasta blýantsteiknaða hús landsins!
Á dögunum heimsótti dr. Maggi Jónsson, arkitekt, Grunnskólann í Hveragerði ásamt Guðmundi F. Baldurssyni, sem verið hefur byggingastjóri og eftirlitsmaður á vegum Hveragerðisbæjar við byggingar skólans frá því að fyrsti áfangi dr. Magga var tekinn í notkun árið 1988. Þar með voru hafnar viðbyggingar elsta hluta skólahúsnæðis sem teiknað var af Guðjóni Samúelssyni og tekið í notkun 1947.
Annar áfangi skólabyggingarinnar var tekinn í notkun í ágúst 2021, 6 kennslustofur. Þriðji áfangi skólabyggingarinnar var að hluta tekinn í notkun í ágúst 2024.
Á komandi sumri mun allur 3. áfanginn verða kominn til fullra afnota í skólastarfinu. Eldhús, salur, aðstaða til sér- og stuðningskennslu, viðtalsherbergi, sérfræðingarými, þrjár kennslustofur, ásamt kjallara. Á þessu ári mun 4. áfangi skólahúsnæðisins verða hannaður og í framhaldi boðinn út.
Þessir síðustu byggingaáfangar Grunnskólans í Hveragerði eru þeir síðustu sem dr. Maggi teiknar. Ekki nóg með það – um er að ræða síðasta húsið á Íslandi sem teiknað er með blýanti. Núorðið fer öll teiknivinna fram í tölvum.
Dr. Maggi Jónsson arkitekt, fæddur árið 1937 á áralangan og farsælan starfsferil. Hann er þekktur fyrir að teikna ýmsar merkilegar byggingar á Íslandi, þar á meðal Blönduóskirkju, sem var vígð árið 1993. Systurhús skólans í Hveragerði er F.Su en þessar tvær byggingar eru um margt líkar. Skilur dr. Maggi Jónsson eftir sig stórmerkan arf í byggingasögu Íslands