Snjallgangbraut

Í tilkynningu frá Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra kemur fram að snjallgangbraut hefur verið tekin í notkun á Breiðumörk á móts við Skyrgerðina og eykur hún öryggi gangandi vegfarenda til mikilla muna. 

Uppsetning gangbrautarinnar er afrakstur vinnu umferðaröryggishóps sem starfandi var í Grunnskólanum í Hveragerði en hópurinn óskaði eindregið eftir aðgerðum sem bæta myndu öryggi barna við grunnskólann og á gönguleiðum nálægt skólanum.  Þessi staðsetning var valin þar sem börn fara þarna yfir Breiðumörk á leið í skólann og einnig á leið sinni í Bungubrekku, frístundaskóla og félagsmiðstöð. 

Snjallgangbrautin "skynjar" þegar gangandi vegfarandi nálgast götuna og kviknar þá á LED göngulýsingu sem lýsir upp gangbrautina og vegfarandann á meðan hann gengur yfir götuna.  Einnig kviknar ljós á gangbrautarmerkinu og blikkandi viðvörunarljós segir ökumönnum að vegfarandi sé á leið yfir götuna.   Þessari tækni er ætlað að gera gangandi vegfarendur sýnilegri en áður þegar farið er yfir gangbraut. 

Það er afar ánægjulegt að nú skuli fyrsta snjallgangbrautin hér í Hveragerði hafa verið tekin í notkun og með henni stigið stórt skref í umferðaröryggismálum.  Foreldrum barna er jafnframt bent á að að nauðsynlegt er að kenna börnum að nota gangbrautina en mikilvægt er að hjóla og ganga ekki beint út á götuna heldur hinkra eftir að blikkandi ljósið birtist áður en gatan er þveruð. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.

Sjá upphaflega frétt hér