Skjálftinn - Hæfileikakeppni ungmenna

Skjálftinn, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum á Suðurlandi, verður haldinn í fyrsta sinn laugardaginn 15. maí í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn og að sjálfsögðu tekur fríður flokkur nemenda úr Grunnskólanum í Hveragerði þátt.

„Skjálftinn verður haldinn með öðru sniði en upphaflega stóð til vegna sóttvarnaráðstafanna. Í stað þess að þátttakendur hittist, eigi saman heilan dag og flytji atriði sín fyrir fullan sal af fólki, þá tekur UngRúv upp atriði frá hverjum skóla og setur saman í viðburð sem verður aðgengilegur á ungruv.is frá kl. 18 sunnudaginn 16. maí,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, verkefnisstjóri Skjálftans.

„Með þessum hætti er hægt að taka upp hvert atriði án þess að stefna öllum ungmennunum saman með tilheyrandi aukinni hættu á þessum furðutímum heimsfaraldurs. Úrslitin verða tilkynnt “live” á Skjálfta Instagramminu sunnudagskvöldið 16. maí kl. 20 þegar formaður dómnefndar, Salka Sól, afhendir farandverðlaunagripinn til fyrsta sigurliðs Skjálftans,“ bætir Ása Berglind við.

Að þessu sinni er keppnin fyrir grunnskóla í Árnessýslu en á næsta ári stendur til að bjóða fleiri skólum á Suðurlandi þátttöku.

Sjá nánar á vef Sunnlenska - Smelltu hér