List fyrir alla - Leikhópurinn Lotta

List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum. 

Stefnt er að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.

Á þennan hátt er menningarframboð aukið enn frekar og stuðlað að samstarfi listamanna og listahópa með börnum og ungmennum landsins þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum vel kunnur fyrir utandyra leiksýningar sínar á sumrin, en þau hafa ferðast með glænýja íslenska fjölskyldusöngleiki um allt land síðustu 15 ár. Fyrir nokkrum árum tók hópurinn einnig upp árlegt vetrarstarf þar sem þau endurgera sumarsýningarnar sínar 10 árum seinna og klæða í dásamlegan nýjan búning innandyra og heimsækja öll landshorn því bæði að sumri og vetri.

Lotta hefur ferðast um með atriði og sýningar af öllum stærðum og gerðum síðastliðin ár, atriði sem hentar vel við hvaða tækifæri sem er! Þau eru þekkt fyrir vandaðar sýningar, góðan boðskap, leik, söng, dans og gleði sem og húmor fyrir allan aldur.

Á mánudag mætti leikhópurinn og sýndi leikritið Pínulitla Mjallhvít fyrir 1.-3. bekki en leikhópurinn sýndi það verk árið 2015. Við þökkum leikhópnum fyrir frábæra skemmtun.

https://listfyriralla.is/