Kennsla eftir páska

Komið þið sæl,

Ef allt væri eðlilegt þá værum við nú að fagna glæsilegri árshátíð elsta stigs frá því í gærkvöldi, kveðja nemendur okkar, óska þeim góðrar helgar og gleðilegs páskafrís. En við höfum lítið hitt nemendur okkar í raunheimi síðan 13. mars.

Skólastarf hefur verið skipulagt eftir páska, frá 14. apríl með þeim hætti að við getum tekið á móti öllum nemendum skólans einhvern tíma dagsins. Jafnframt sinnum við nemendum foreldra/forráðamanna í forgangshópum með sambærilegum hætti og verið hefur. Það mætti segja að á hverjum degi verði þá staðlota í skólanum. Mikilvægi góðra samskipta í skólanum eru óumdeild, við söknum nemenda okkar og samstarfsfólks og hlökkum til að geta hafið skólastarf eins og hægt er.

Starfsemin verður skipulögð í kringum þær takmarkanir sem komu fram í auglýsingu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra frá 13. mars 2020. Takmörkunin gildir til 3. maí kl. 23:59. Í auglýsingunni segir í 4. gr.: Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag. Engin íþrótta- eða sundkennsla og engar smiðjur umræddan tíma.

. Við ætlum að verja nemendur okkar og starfsfólk fyrir smiti í skólanum.
. Við sinnum nemendum foreldra/forráðamanna í forgangshópum.
o Athugið að forðast skal að blanda saman hópum nemenda. Nú er í gildi 10. útgáfa forgangslistans.
o Samkvæmt leiðbeiningum sérfræðinga hjá embætti landlæknis mega kennarar skipta um nemendahóp sé þess brýn þörf, best er þó ef hægt er að forðast slíkt. Jafnframt er heimilt að sameina litla hópa, en miða þá við hámark 20 nemenda í hóp í grunnskólum og 10-15 nemendur í hóp í leikskólum. Í báðum tilfellum er æskilegt að helgi skilji á milli sé það hægt og að tekið sé tilliti til heilsufars í hópunum. Embætti landlæknis leggur áherslu á mikilvægi þess að kennarar séu ekki reglulega með marga hópa, slíkt vinnur gegn tilgangi hópaskiptinga.
o ATHUGIÐ - ef krakkar vilja leika saman eftir skóla þá er æskilegt að leikfélagarnir séu úr sama bekk. Sama á við blöndun hópa utan skóla og
innan.
o Við sinnum nemendum í því skipulagi sem gefið er út. - sjá hér fyrir neðan.
. Við sinnum útskriftarnemendum 10. bekkja sérstaklega, áfram. Þeirra skipulag mun breytast frá því sem er í skjalinu - breytist væntanlega frá og með 20.4.20.

Síðustu viku hafa kennt okkur margt. Við höfum hvatt kennara til að nota þær aðferðir sem þeir og nemendur þeirra hafa unnið með og þekkja. Sumir skólar standa mjög framarlega tæknilega og fjarkennsla er tiltölulega létt breyting hjá þeim. Hjá öðrum er það jafnvel flókið stökk. Allt skólastarfið er til skoðunar, alltaf. Ef til vill komum við til með að nýta þessa reynslu okkar til einhverra breytinga á kennsluháttum og þróunar meðfram þeim klassísku leiðum sem við höfum unnið með. Með þeim takmörkunum sem skólastarfi hefur verið settar er skólastarf hvergi með eðlilegum hætti á landinu. Sums staðar fá nemendur klukkutíma á dag í skólanum, annars staðar koma þeir annan hvern dag.

Ég er á þeirri skoðun að við hér í Hveragerði höfum verið á talsvert öðrum stað en aðrir grunnskólar á Íslandi þar sem hér kom snemma upp smit hjá starfsmanni og mjög umfangsmikil sóttkví meðal nemenda, á þriðja hundrað, og starfsmanna, á þriðja tug hafi lagt línurnar. Það að halda úti hefðbundnu skólastarfi þegar svo marga starfsmenn vantaði var ekki mögulegt. Við höfum ítrekað ætlað að hefja skólastarf innan þeirra takmarkana sem auglýsing um skert skólahald segir. Því miður hefur það ekki gengið eftir. Við höfum ekki treyst okkur til að halda því úti og treysta öryggi allra hlutaðeigandi, nemenda og starfsmanna. Aðstæður okkar hafa verið stöðugt til skoðunar. Vonandi tekst þetta núna, að hefja skólastarf með þeim hætti sem hér var kynningar.

Nemendur í 1. og 2. bekkjum borða í mötuneyti skólans, skráningar eins og venjulega.

Skólabíllinn heldur fyrstu ferð eins og venjulega, kl. 7:30 frá fyrsta bæ. Heimferðir verða kl. 12:30 og kl. 15:00. Starfsmenn GT sækja á þremur bílum fyrsta daginn en það verður endurskoðað. Eins er spurning hvort þurfi ferð frá Bungubrekku fyrir foreldra í Ölfusi dreifbýli sem eru á forgangslistum.

Skólasel er opið fyrir forgangsbörn.

Eins og kom fram í pósti 13. mars síðastliðinn hafa foreldrar val um að halda börnum sínum áfram heima. Það ber að tilkynna.

Skipulag eftir páska - Sjá hér

 Sævar Þór Helgason, skólastjóri.