Jólakveðja og upplýsingar vegna upphafs skólastarfs 2021

Komið þið sæl,

Það má með sanni segja að árið hafi verið viðburðaríkt og verður án efa lengi í minnum haft. Skólastarfið hefur verið öðruvísi en venjulega, það hefur í raun fátt verið með venjubundnum hætti árið 2020. Í febrúar fór áhrifa COVID-19 að gæta hér á landi og víðast hvar um heiminn með fjölmörgum samfélagslegum takmörkunum sem hefur áhrif á skólastarf. Skólastjórnendur hafa ítrekað á árinu þurft að breyta skipulagi skólastarfs vegna fyrirmæla yfirvalda, sem oft hafa komið með ansi litlum fyrirvara. Skólastarf var með óhefðbundum hætti 16. mars til 3. apríl og skert frá 14.-30. apríl. Á haustmisseri hafa verið takmarkanir á skólastarfi frá 3. nóvember. Fyrir góða vinnu og lausnamiðað hugarfar starfsfólk skólans ber að þakka, við erum í þessu saman. Eins ber að þakka ykkur, foreldrum og nemendum fyrir gott samstarf við þessar "fordæmalausu" aðstæður sem ítrekað koma upp. Skerðingar á skólastarfi vegna heimsfaraldurs eru ekki lengur dæmalausar.

Margt gott hefur gerst í starfinu, við höfum lært margt, til dæmis gert okkur enn frekar grein fyrir mikilvægi góðra samskipta og nám er að miklu leiti samfélagslegt. Jólin eru hátíð hefðanna og skólastarfið er líka víða bundið hefðum sem við söknum þegar skólastarfi eru sett takmörk, það var t.d. glatað að geta ekki boðið upp á opinn gangasöng, haldið góðgerðardag og dansað í kringum jólatré á jólaballi með heimsins bestu jólahljómsveit.

Nýjar tillögur sóttvarnalæknis eru í samræmi við litakóðakerfi almannavarna fyrir skólastarf. Það er ljóst að allt önnur staða faraldursins kann að verða uppi við upphaf nýs skólatímabils um áramótin sem krefst endurskoðunar á tillögunum. Núverandi tillögur sem útfærðar eru í reglugerð heilbrigðisráðherra dagsettum 21.12.2020, eru því settar með þeim fyrirvara að ástandið verði ekki verra við upphaf nýs árs. Reglugerðin gildir til 28. febrúar með öllum heimsins fyrirvörum. Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber starfsfólki að nota grímur. Í sameiginlegum rýmum, m.a. mötuneytum verður heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun. Þessar reglur gilda einnig um frístundaheimili, skipulagt íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf og um störf í félagsmiðstöðvum. Eins og staðan er í dag, 22.12 gerum við ráð fyrir því að skólastarf hefjist 4. janúar 2021 og kennt verði eftir stundaskrám sem útgefnar voru við skólasetningu 24. ágúst.

Við erum einbeitt í því að gera góðan skóla betri. Höldum áfram og einbeitum okkur að því að vinna með styrkleika okkar og menntum nemendur okkar til framtíðar. Um leið og ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, lít ég björtum augum til komandi árs og næstu ára og hlakka til áframhaldandi samstarfs við ykkur.

Ég vona að þið hafið það reglulega gott í jólafríinu.

Bestu kveðjur,
Sævar.