Í vikulokin

Á föstudögum er gefið út fréttabréf starfsmanna þar sem farið er yfir vikuna sem er að líða og vikuna sem framundan er ásamt ýmsum fróðleiksmolum.

Í dag var hundrað og ellefti nemendadagur þessa skólaárs og sólin hækkar á lofti. Það er bjartara framundan í orðsins fyllstu merkingu.

Vikan sem er að líða var nokkuð hefðbundin og næsta vika verður góð. Bolludagur á mánudag, svo sprengidagur og loks öskudagur á miðvikudag. Foreldrar eiga að hafa fengið upplýsingar um skipulag þess dags í föstudagspósti frá umsjónarkennurum. Þetta árið verður ekki húllumhæ í íþróttahúsi á öskudag í samstarfi við foreldrafélagið.

Skáldin Jóhannes úr Kötlum, sr. Helgi Sveinsson og Kristmann Guðmundsson sömdu á síðustu öld Hveragerðisbrag þar sem allar vísur enduðu: Hveragerði er heimsins besti staður. Við starfsfólk og nemendur við Grunnskólann í Hveragerði tökum undir það. Án alls rembings eða oflætis. Við erum langmest að vinna með staðreyndar í daglegum störfum. Oft hvetjum við til nýsköpunar, frumkvæðis, túlkunar og almennrar listsköpunar og Hveragerði er heimsins besti staður, samkvæmt öllum þeim fræðum. Skólinn er vel skipaður framúrskarandi starfsliði, 40% starfsmanna (mis)gamlir nemendur. Því má leiða að því líkum að það sé svo gaman í skólanum að fólk vill vera þar sem lengst. Menntar sig til endurkomu. Eins er talsvert hátt hlutfall starfsmanna karlmenn, eða 30%. Hver öðrum glæsilegri þó fleiri blómadrottningar séu í hópnum en blómakóngar.

Við erum fyrirmyndir hvert fyrir annað. Virðum náungann, vini okkar og samstarfsfólk. Góða helgi!