Heimhringingar

Komið þið sæl.

Í Grunnskólanum í Hveragerði er unnið eftir Olweusaráætlun gegn einelti sem ætlað er m.a. að skapa þær aðstæður í skólanum að einelti viðgangist ekki. Áætlunin er heildstæð nálgun sem nær til alls skólasamfélagsins. Lögð er rík áhersla á að nemendur tileinki sér heilbrigða lífshætti og jákvætt viðhorf.

Í skólanum er starfrækt sérstakt Olweusarteymi sem heldur utan um og tryggir að það sé unnið eftir réttum verkferlum. Í teyminu eru skólastjórnendur, námsráðgjafar og fulltrúi frá frístundamiðstöðinni Bungubrekku.

Í öllum samtölum við nemendur er mikilvægt að átta sig fyrst á því hver munurinn er á einelti og samskiptavanda. Það getur verið eðlilegt að það komi upp samskiptavandi á milli barna í daglegu amstri en einelti er mun alvarlegra og þarfnast ávallt sérstakrar úrvinnslu.

Notast er við eftirfarandi skilgreiningu á einelti í Olweusaráætlun Grunnskólans í Hveragerði:

Einelti er neikvætt, langvarandi og endurtekið áreiti sem beinist gegn einum eða fleiri einstaklingum

og hefur margþætt neikvæð áhrif á þá sem fyrir því verða. Einelti felur í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi.


Einn liður í áætluninni snýr að heimhringingum tvisvar yfir skólaárið sem umsjónarkennarar sinna. Innan skamms fara heimhringingarnar af stað hjá okkur þar sem líðan nemenda er aðalinntak samtalsins.

Áður en samtalið á sér stað er mikilvægt að foreldrar taki samtalið við sitt barn og geta m.a. haft eftirfarandi atriði til hliðsjónar.

1. Hvernig líður barninu þínu í skólanum?
2. Hefur barnið þitt lent í erfiðum samskiptum í skólanum síðasta mánuðinn?
3. Á barnið þitt vini/bekkjarfélaga sem líður illa í skólanum?
4. Telur þú að barnið þitt hafi áreitt eða lagt aðra nemendur í einelti?
5. Hefurðu á tilfinningunni að barninu þínu líði betur í einhverjum kennslustundum? Þá hvaða?