Góðgerðaþema í GÍH

Góðgerðadagur í Grunnskólanum í Hveragerði 2021
Föstudagurinn 3. desember 2021 er góðgerðadagur í Grunnskólanum í Hveragerði. Góðgerðadagurinn er lokadagur árlegs góðgerðarþema sem nemendur og starfsfólk skólans hafa staðið fyrir frá því í nóvember 2015. Tilgangur góðgerðaþemans er að efla samkennd nemenda og láta um leið gott af okkur leiða.
Fyrir tíma Covid (2015-2019) gátum við haldið veglega uppskeruhátíð í skólanum á góðgerðadaginn þar sem bæjarbúum og öllum öðrum sem hafa viljað heimsækja okkur gafst kostur á að skoða afrakstur vinnunnar og styðja við málefni dagsins á einhvern hátt. Í fyrra neyddumst við til að fresta góðgerðaþemanu vegna Covid og í ár getum við því miður ekki boðið gestum og gangandi í heimsókn, en þess í stað munum við selja afurðir og þjónustu á netinu á sérstakri sölusíðu sem er verið að leggja lokahönd á. Meðal þjónustu sem við munum bjóða uppá má nefna sendiferðir á gámasvæðið, ruslahreinsun, snjómokstur, bílaþrif og margt fleira.

Ein stærsta ákvörðun sem við tökum í tengslum við góðgerðarþemað er hvaða starfsemi við ákveðum að styrkja í það og það skiptið. Við höfum að mestu lagt það í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fer fram umræða um hvaða starfsemi við viljum styrkja og í framhaldi af þeirri umræðu er rafræn könnun lögð fyrir hvern bekk. Kosning um hugmyndir nemenda fer einnig fram meðal starfsfólks. Sameiginleg niðurstaða starfsfólks og nemenda í ár er sú að styrkja Dropann, styrktarfélag barna með sykursýki.

Þau málefni sem við höfum styrkt hingað til hafa verið valin með tilliti til þess að börn njóti á einhvern hátt góðs af styrknum. Meginstef okkar hefur þannig verið að börn styrki börn. Styrkþegar okkar hingað til hafa verið:

2015: Amnesty International (460.00 kr.-)
2016: Félag krabbameinssjúkra barna (810.000 kr.-)
2017: Barnaspítali Hringsins (1.360.000 kr.-)
2018: Birta, landssamtök þar sem foreldrar sem misst hafa börn sín skyndilega geta sótt styrk og stuðning (1.750.000 kr.-)
2019: Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna (1.480.000 kr.-).

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag lýkur skóla 12:50 og opnar skólasel þá fyrir nemendur sem þar eru skráðir.
Skólatöskur eru ekki nauðsynlegar þessa daga, heldur léttur bakpoki með nesti eftir þörfum.


Með fyrirfram þökk, fyrir hönd nemenda og starfsmanna Grunnskólans í Hveragerði

Sævar Þór Helgason