Grunnskólinn í Hveragerði og Grunnskólinn í Þorlákshöfn taka í sameiningu þátt í Erasmus samstarfsverkefninu ErasmusFest.
Fimm lönd standa að verkefninu ásamt Íslandi sem hefur yfirumsjón með því en hin löndin eru Portúgal, Tyrkland, Grikkland og Ítalía. Verkefnið byrjaði í desember 2022 og núþegar hafa nemendur og kennarar heimsótt Tyrkland og Síkiley á Ítalíu. Báðar heimsóknirnar voru frábærar en mjög ólíkar, hópurinn fékk á báðum stöðum innsýn í þeirra menningu. Í Tyrklandi var þemað myndlist og fengu nemendur að spreyta sig við ýmiskonar listsköpun. Á Síkiley var þemað matur og menning og þar fengu nemendur að búa til pasta frá grunni, pizzur, cannoli og ýmislegt fleira.
Nemendur og kennarar frá hinum þátttökulöndunum eru nú á Íslandi og munum við bjóða upp á íþróttir, útivist, hópleiki og auðvitað kynna það helsta í okkar nágrenni. Þetta er búið að vera einstaklega skemmtilegt verkefni og við hlökkum til að taka á móti þeim og heimsækja svo Portúgal og Grikkland næsta vor.