Enska smásagnakeppnin

Miðvikudaginn 10. mars s.l. voru verðlaun veitt í ensku smásagnakeppninni 2020 sem félag enskukennara á Íslandi (FEKÍ) heldur árlega. Keppnin hefst á hverju ári á evrópska tungumáladeginum þann 26. september og fer þannig fram að nemendur skrifa smásögur á ensku útfrá ákveðnu þemu sem að þessu var A Time for….

Þátttaka Grunnskólans í Hveragerði (GÍH) í landskeppninni er löngu orðinn fastur liður í skólastarfinu og eru nemendur mjög áhugasamir um sögugerðina. Gaman er að segja frá því að skólinn hefur átt vinningshafa í landskeppninni frá árinu 2012, eða í 9 ár samfellt. Vart þarf að taka fram hve stolt við erum af nemendum okkar í gegnum tíðina en að þessu sinni vorum við svo lánsöm að eiga þrjá vinningshafa og fór verðlaunaafhendingin fram við hátíðlega athöfn að Bessastöðum. Þar tók forsetafrúin Eliza Reid á móti vinningshöfum og afhenti verðlaunin ásamt stjórn FEKÍ.

Í flokknum 5. bekkur og yngri hlaut Sigurður Grétar Gunnarsson heiðursviðurkenningu og í flokknum 6.-7. bekkur hlaut Hrafnhildur Sif Gunnarsdóttir þriðju verðlaun og Kveldúlfur Ari Ottóson fyrstu verðlaun. Um leið og við óskum þeim innilega til hamingju þökkum við öllum sem tóku þátt í keppninni.

Bestu kveðjur frá enskudeildinni,

Ólafur Jósefsson