Enska smásagnakeppnin

Verðlaunahafarnir úr Hveragerði ásamt forsetafrúnni (f.v.) Heiðar Þór, Eliza, Kveldúlfur Ari og Sigr…
Verðlaunahafarnir úr Hveragerði ásamt forsetafrúnni (f.v.) Heiðar Þór, Eliza, Kveldúlfur Ari og Sigrún Ósk.

Í síðustu viku voru veitt verðlaun í Ensku smásagnakeppninni 2019, sem Félag enskukennara á Íslandi (FEKÍ) heldur árlega. Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn að Bessastöðum, þar sem Eliza Reid forsetafrú ásamt stjórn FEKÍ, tók á móti vinningshöfum og voru nemendur verðlaunaðir fyrir glæsilegan árangur.

Þátttaka í þessari skemmtilegu landskeppni er fyrir löngu orðinn fastur liður í Grunnskólanum í Hveragerði og sýna nemendur mikinn metnað í sögugerðinni. Í gegnum tíðina hefur þessi metnaður skilað fjölmörgum vinningshöfum, sem Hvergerðingar eru afar stoltir af, og að þessu sinni var skólinn svo lánsamur að eiga þrjá vinningshafa.

Í flokknum 5. bekkur og yngri voru veitt tvenn verðlaun sem bæðu komu í hlut nemenda skólans, þeirra Kveldúlfs Ara Ottósonar Borg og Sigrúnar Óskar Stefánsdóttur og í flokknum 6.- 7. bekkur hlaut Heiðar Þór Grétarsson fyrstu verðlaun.

Sannarlega frábær árangur hjá nemendum Grunnskólans í Hveragerði. Keppnin hófst formlega á evrópska tungumáladeginum 26. september og fór þannig fram að nemendur skrifa smásögur á ensku út frá einu orði, sem í ár var JOY.

Sjá einnig hér: https://www.sunnlenska.is/frettir/hvergerdingar-hladnir-verdlaunum-a-bessastodum/