Frístundamiðstöð Hveragerðisbæjar, Bungubrekka, hefur fengið tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 í A-flokki, Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Í tilnefningu Bungubrekku kemur fram að hún sé fyrir fagmensku í frístundastarfi, metnaðarfulla innleiðingu á gæðaviðmiðum og miðlun á starfi sínu innan sem utan Hveragerðis.
Bungubrekka heldur utan um frístundastarf bæjarins fyrir börn og unglinga auk vinnuskóla og sumarnámskeiða yfir sumartímann. Fram kemur á vef Skólaþróunar að sérstaða Bungubrekku sé áhersla á innra mat og starfhætti sem miða að virkri innleiðingu á gæðaviðmiðum stjórnvalda um framúrskarandi fagstarf frístundaheimila.
Ingimar Guðmundsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur, er forstöðumaður frístundamála Hveragerðisbæjar. Undir hans stjórn hefur verið mikil uppbygging og þróun í Bungubrekku undanfarin ár og er frístundamiðstöðin vel að þessari tilnefningu komin.
Auk Bungubrekku eru fjórir skólar tilnefndir í A-flokki. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í byrjun nóvember.
Hér má finna umfjöllun af vef Skólaþróunar um tilnefningu Bungubrekku.
Til hamingju Bungubrekka!