Baráttudagur gegn einelti og heimhringingar framundan

Í dag var haldið upp á Baráttudag gegn einelti í skólanum sem jafnframt var grænn dagur. Þá bera nemendur m.a. út svokallaðar vinakveðjur en þær hafa farið til skiptis til heimila og fyrirtækja í bænum. Að þessu sinni fóru vinakortin til fyrirtækja. Ástæðan fyrir því að dagurinn er grænn er vegna þess að samkvæmt eineltisáætlun skólans er svokallaður ,,verndari" grænn á litinn. Verndari er á móti einelti og hjálpar eða reynir að hjálpa þolanda.

Í Grunnskólanum í Hveragerði er unnið eftir Olweusaráætlun gegn einelti sem ætlað er m.a. að skapa þær aðstæður í skólanum að einelti viðgangist ekki. Áætlunin er heildstæð nálgun sem nær til alls skólasamfélagsins. Lögð er rík áhersla á að nemendur tileinki sér heilbrigða lífshætti og jákvætt viðhorf.

Í skólanum er starfrækt sérstakt Olweusarteymi sem heldur utan um og tryggir að það sé unnið eftir réttum verkferlum. Í teyminu eru skólastjórnendur, námsráðgjafar og fulltrúi frá frístundamiðstöðinni Bungubrekku.

Í öllum samtölum við nemendur er mikilvægt að átta sig fyrst á því hver munurinn er á einelti og samskiptavanda. Það getur verið eðlilegt að það komi upp samskiptavandi á milli barna í daglegu amstri en einelti er mun alvarlegra og þarfnast ávallt sérstakrar úrvinnslu.

Notast er við eftirfarandi skilgreiningu á einelti í Olweusaráætlun Grunnskólans í Hveragerði:

Einelti er neikvætt, langvarandi og endurtekið áreiti sem beinist gegn einum eða fleiri einstaklingum og hefur margþætt neikvæð áhrif á þá sem fyrir því verða. Einelti felur í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi.

Einn liður í áætluninni snýr að heimhringingum tvisvar yfir skólaárið sem umsjónarkennarar sinna. Innan skamms fara þær af stað hjá okkur þar sem líðan nemenda er aðalinntak samtalsins. Símtal til aðstandenda nemenda sem búa við sameiginlegt forræði fer til þess heimilis þar sem nemandi er með lögheimili.

Áður en samtalið á sér stað er mikilvægt að foreldrar taki samtalið við sitt barn og geta m.a. haft eftirfarandi atriði til hliðsjónar:

1. Hvernig líður barninu þínu í skólanum?

2. Hefur barnið þitt lent í erfiðum samskiptum í skólanum síðasta mánuðinn?

3. Á barnið þitt vini/bekkjarfélaga sem líður illa í skólanum?

4. Telur þú að barnið þitt hafi áreitt eða lagt aðra nemendur í einelti?

5. Hefurðu á tilfinningunni að barninu þínu líði betur í einhverjum kennslustundum? Þá hvaða?

Kveðja, starfsfólk GÍH.