Að lokinni skólasetningu

Grunnskólinn í Hveragerði var settur í morgun við hátíðlega athöfn. Haustið 1947 hófst skólastarf í elsta hluta núverandi skólabyggingar. Skólastarf í Hveragerði er mun eldra. Í máli Sævars Þórs skólastjóra við setningu kom fram að í dag verður tekin í notkun hluti af 3. áfanga skólans. Þar með fæst nýtt og glæsilegt fullbúið eldhús ásamt rýmum fyrir sérfræðinga og smærra hópstarf. 

Framkvæmdir við þriðja áfanga hófust á vormánuðum 2023, áætluð verklok eru sumarið 2025. Viðbyggingin er staðsett vestur af eldri byggingum. Byggingin er staðsteypt á tveimur hæðum ásamt lagnakjallara, um 1120m2 brúttó stærð gólfflatar. Verktaki er Stéttafélagið, verkstjóri byggingavinnu er Steinar Örn Arnarson og staðarstjóri Magnús Guðmundsson. Guðmundur F. Baldursson er byggingarstjóri og eftirlitsmaður verkkaupa. 

Það var góð tilfinning sem greip starfsfólk skólans þegar nemendur mættu til starfa. Glæsilegur nemendahópurinn fyllti húsið af gleði og eftivæntingin er allt að því áþreifanleg þegar hugsað er til allra þeirra nýju og spennandi hluta sem kannaðir verða í haust, vetur og vor. 

Bestu kveðjur,

starfsfólk GÍH.