Tannverndarvika 1.-5. febrúar

Áhersla tannverndarvikunnar að þessu sinni er á skaðsemi orkudrykkja en neysla ungmenna á orkudrykkjum með koffíni hefur meira en tvöfaldast síðustu 2-3 ár. Mikil og tíð neysla sætra og sykurlausra orkudrykkja getur leyst upp ysta lag glerungsinns sem þynnist og eyðist og myndast ekki aftur. Tennurnar verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á að tannskemmdum. Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi. Á Heilsuveru má finna myndband um þetta efni sjá hér

Orkudrykkir innihalda koffín sem er miðtaugaörvandi og ávanabindandi efni. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess. Orkudrykkir hafa verið markaðssettir sem heilsudrykkir en neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu getur valdið hjartsláttartruflunum og aukið vökvatap líkamans ef þeirra er neytt í kjölfar íþróttaæfinga.

Íslenska vatnið er besti svaladrykkurinn og óhætt að drekka vel af því. Í vatni eru engin örvandi efni og það er því ákjósanlegasti drykkurinn til að viðhalda vökvajafnvægi líkamans. Sýrustig vatns er svipað og munnvatnsins og því eyðir það ekki glerungi tannanna.