Upplýsingastreymi

Grunnskólinn í Hveragerði er með heimasíðu. Slóðin er grunnskoli.hveragerdi.is en þar birtast reglulega fréttir og tilkynningar er varða skólastarfið. Jafnframt má þar finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um skólann. Þá er skólinn einnig á samfélagsmiðlum, á Facebook og Instagram, sem vísað er í á forsíðu.

Kennarar hafa fastan viðtalstíma á stundaskrá einu sinni í viku og er hann auglýstur á Mentor og á stundaskrá nemenda. Foreldrar/forráðamenn hringja eða koma í skólann á þessum tíma eftir þörfum. Einnig nota kennarar viðtalstímann til að hafa samband við foreldra/forráðamenn símleiðis ef þurfa þykir.

Allir starfsmenn eru með netfang og tölvupóstur er ákjósanlegur í almennum samskiptum við einstaka kennara eða skólann. Ef um viðkvæm mál er að ræða er æskilegra að nýta viðtalstíma kennara. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn séu með virk netföng skráð á Mentor því oft eru tilkynningar sendar út rafrænt. Ekki er ætlast til að foreldrar/forráðamenn nýti samskiptamiðla til samskipta við kennara.

Fjölskylduvefur Mentors er notaður til að auka upplýsingaflæði til heimila og auka þannig möguleika foreldra/forráðamanna á að fylgjast með skólastarfinu. Heimavinna, ástundun, lykilhæfni og námsmat eru skráð á Mentor. Einnig geta kennarar sett inn á Mentor tilkynningar um uppákomur og fréttaskot úr skólalífinu. Á Mentor birtist einnig stundaskrá nemandans og nafnalistar bekkja. Foreldrar/forráðamenn nemenda fá aðgangsorð að Mentor hjá ritara skólans við upphaf skólagöngu sem veitir þeim aðgang að upplýsingunum.

Heimasíða fjölskylduvefsins er mentor.is en einnig er hægt að smella á tengil á heimasíðu skólans til að tengjast honum. Þá er einnig hægt að sækja sér Mentorforritið í snjalltæki. Nemendur eru hvattir til að hafa sinn eigin aðgang að Mentor til að fylgjast með framvindu náms og heimanámi.

Foreldradagar eru í september, janúar og júní. Gert er ráð fyrir að forráðamenn og nemendur mæti í viðtölin til umsjónakennara. Foreldrar bóka sjálfir viðtalstíma í gegnum Mentor. Fag-, sérgreina- og íþróttakennarar eru jafnframt til viðtals á foreldradögum.

Þá er starfandi foreldrafélag við grunnskólann. Starfsemi foreldrafélaga í grunnskólum er í stöðugri þróun. Ákvarðanataka í skólamálum hefur færst nær foreldrum og forráðamönnum en það undirstrikar þörf fyrir formlegan samstarfsvettvang þeirra. Virk foreldrafélög við hvern skóla eru tvímælalaust af hinu góða. Foreldrar og forráðamenn hafa þar vettvang til að ræða saman um skólagöngu barnanna og hvaðeina sem varðar uppeldi og menntun. Þannig stilla þeir sína strengi í ýmsum hagsmunamálum og velferðarmálum með hagi barnanna að leiðarljósi. Formaður foreldrafélagsins er Rakel Guðmundsdóttir. Á heimasíðu skólans er að finna nánari upplýsingar, þ.m.t. handbók foreldrafélaga.

Loks eru tveir tenglar úr foreldrahópnum í hverjum bekk. Hlutverk bekkjartengla er að stuðla að auknu samstarfi foreldra, kennara og nemenda innan hvers bekkjar. Að hausti er leitað til foreldra um að bjóða sig fram í starf bekkjartengla en ef enginn fæst þá ræður stafrófsröð foreldra valinu. Tenglarnir starfa með foreldrafélagi skólans að þeim viðburðum sem foreldrafélag skólans stendur fyrir.