Skólahúsnæðið

Grunnskólinn í Hveragerði er heildstæður grunnskóli með nemendur frá 1. – 10. bekk. Skólinn er staðsettur í skólahúsnæði á tveimur hæðum við Skólamörk 6 í Hveragerði. Aukinheldur eru kennslustofur í þremur byggingum við skólann og í júlí 2021 verður ný viðbygging skólans tilbúin sem er með sex kennslustofur. Ljóst er að meðan beðið er eftir að ný álma rísi verður stundum þröngt á þingi á miðstigi og elsta stigi. Á efri hæðinni eru nú sex miðstigsstofur, en á móti kemur að 10. bekkir færa sig út í Garðshorn. Til þess að allt gangi upp verður talsverð samnýting á öllum stofum á efri hæðinni.

Nemendur eiga að setja skó á merkt svæði í anddyri og þar eru snagar fyrir yfirhafnir. Í yngri bekkjum eru skór og yfirhafnir fyrir utan kennslustofur. Í lok skóladags sjá kennarar til þess að nemendur gangi vel frá kennslustofu. Merkja skal skó og yfirhafnir nemenda með nafni og símanúmeri eins og kostur er. Óskilamunir eru í aðalanddyri, við stofu 115 og á skrifstofu skólans. Ef nemendur tapa einhverju, s.s. úlpum, skóm, töskum, sund-eða íþróttafötum eru forráðamenn hvattir til að hafa samband við húsvörð. Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á hlutum sem tapast og skal nemendum bent á að vera ekki með peninga eða önnur verðmæti með sér í skólanum. Óskilamunir sem ekki eru sóttir að vori eru gefnir til Rauða krossins.

Loks  hafa kennslurými hér innanhúss fengið nýjar merkingar. Neðri hæð fær merkingu sem byrjar á 100 og efri hæð byrjar á 200. Stofa 3 fær því nú heitið stofa 107, stofa 2 verður stofa 108 o.s.frv. Nöfn hjáleigubyggða halda sér eins og verið hefur.