Þrautseigja

Með seiglunni hafast svo margir hlutir. Þrautseigja er eftirsóknarverður hæfileiki sem gott er að hjálpa nemendum og samstarfsfólki að tileinka sér. Menntun er nefnilega langhlaup, ekki spretthlaup, við erum lengi að læra og beitum mismunandi aðferðum til náms. Seigla er í einu orði þrjóska, dugnaður og þolinmæði. Fallegt orð sem lýsir óbilandi krafti. Seigla er farsæl aðlögun líkama, sálar og anda í erfiðum aðstæðum. Með seiglunni getur einstaklingur náð farsælli aðlögun þrátt fyrir að ganga í gegnum erfiðleika. Hugtakið er notað hvort sem seiglan er tilkomin vegna innri þátta einstaklingsins, vegna lærðrar hegðunar eða vegna styðjandi umhverfis. Í okkar flókna nútímasamfélagi er stundum talað um að ákveðinn hópur barna lifi við svo erfiðar aðstæður að það dragi verulega úr líkum á því að þau nái árangri eða eðlilegum þroska í uppvexti sínum. Það er mikilvægt að koma auga á styrkleika nemenda og þekkja vel eigin styrkleika og seiglu. Michael Sadowski (2013, bls. 28‒32) segir það vera endurtekna niðurstöðu úr eigindlegum viðtalsrannsóknum sínum að nemendur vitni um hvernig einstaka kennarar hafi verið þeim stoð og stytta og eflt seiglu þeirra í erfiðum aðstæðum. Þessir kennarar sýna nemendum umhyggju, hvatningu og eru reiðubúnir til að hlusta og sjá nemendurna sem sjálfstæða einstaklinga sem skipta máli.