Teymiskennsla

Mikilvægt er að í skólanum gangi allir í takti, sem dæmi er mikilvægt að sendar verði út sameiginlegar fréttir – vikupóstar árganga. Það er mikilvægt að líta á bekki sem einn hóp. Árgangurinn er ein heild. Þegar bekkir eru speglaðir eru margir möguleikar til uppstokkunar hópanna; strákar/stelpur, stafrófsröð, áhugasvið o.s.frv. o.s.frv. Víða eru bekkir speglaðir og mörg tækifæri til samstarfs námshópa/bekkja. Þegar þrír kennarar koma að árgangi og hafa jafnvel stuðningsfulltrúa með hópnum er ekki reiknað með nemendum úr þeim hópi í sér- eða stuðningskennslu. Þrír stærðfræðikennarar koma að þeirri kennslu í hverjum hópi á elsta stigi og þrír kennarar koma að kennslu í íslensku í 7. – 10. bekkjum.

Kennarar skipuleggja hvernig þeir haga kennslunni; þrír hópar eða tveir hópar, annar hópurinn með tvo kennara, svo dæmi sé tekið. Með þessu léttir talsvert á námsverum. Hefðbundin teymiskennsla (traditional team teaching) þar sem kennararnir deila með sér kennslu allra nemenda. Dæmigerð kennslustund í stærðfræði væri t.d. þannig að annar kennari af tveimur myndi útskýra fyrir öllum hópnum á meðan hinn sýnir dæmi á töflunni. Í hefðbundinni teymiskennslu bera kennararnir jafna ábyrgð á öllum nemendum og eru virkir í kennslustundum.

Stuðningsteymiskennsla (complimentary eða supportive team teaching) er þannig að einn kennari ber ábyrgð á að kenna efnið en annar eða aðrir sjá um að kenna leiðir til að nota það sem kennt var. Dæmi um kennslustund væri t.d. ef annar kennari af tveimur gerði nemendum grein fyrir innihaldi kafla í bók og setti nemendum fyrir lestrarverkefni en hinn kennarinn kenndi nemendum að nota gagnvirkan lestur um leið og þeir vinna verkefnið.

Hliðstæð kennsla (parallel instruction) þar sem nemendum er skipt upp í hópa og allir kennarar kenna nemendum sama efnið hver fyrir sig.

Nemendur eru aðgreindir í hópa (differentiated split class) eftir námsþörfum. Hver hópur fær kennslu til að mæta þessum þörfum. Nemendum er skipt í mismunandi hópa eftir því hvað er verið að kenna.

Einn kennari ber ábyrgðina (monitoring teacher) og á að kenna öllum nemendum en hinir kennararnir fara á milli í rýminu og aðstoða nemendur og sjá til þess að þeir hagi sér vel.