Nýtt í stundatöflum

Í fyrra var nýbreytni á elsta stigi; samantekt, sú tilraun gekk mjög vel og verður framhaldið þetta skólaár. Þar fá nemendur tækifæri til að ráðfæra sig við kennara með verkefni sem út af standa eftir vikuna og fá ráðleggingar með verkefni í vinnslu. Í 7. bekkjum er mannrækt á dagskrá þar sem meðal annars verður hægt að vinna verkefni úr smiðju jákvæðrar sálfræði.

Möguleiki er á snillitímum/áhugasviðsverkefnum. Með snillitímum eða áhugasviðsverkefnum verða til sjálfstæðir nemendur sem sýna frumkvæði í námi. Nemendum sem líður vel við verk sín, þekkja eigin styrkleika, nýta sér sína reynslu og þekkingu til að afla sér nýrrar þekkingar. Það er mikilvægt að kennarar hjálpi nemendum með fyrstu skrefin og samstarf innan árganga er mikilvægt.

Í 9. og 10. bekkjum verður ákveðin nýbreytni í íþróttum og sundi. Nemendum verður verður skipt í fjóra hópa þvert á bekki þar sem rík áherslu verður lögð á að búa nemendur undir að bera ábyrgð á eigin heilsu í stóru samhengi. Kennslustundir verða fjórum sinnum í viku þar sem viðfangsefnin verða fjölbreytt en meðal annars verður unnið með hefðbundnar íþróttir, sund, líkamsrækt, núvitund, jóga, næringarfræði, útivist og íþróttafræði.

Á þessu skólaári verður gerð tilraun með að kenna valnámskeið í þremur 12 vikna lotum á elsta stigi. 8. – 10. bekkir verða á sama tíma í vali, einu sinni í viku í 40 mínútna kennslustund og einu sinni í viku í 80 mínútna kennslustund. Markmiðið með þessari breytingu er fyrst og fremst að auka vægi list- og verkgreina í vali á elsta stigi, en valinu er stýrt að því leyti að allir nemendur stigsins hafi við útskrift lokið tilskildum fjölda tíma í þeim greinum í samræmi við viðmiðunarstundaskrá. Engar smiðjur verða í 8. bekk, en á móti kemur að allir nemendur elsta stigs geta áfram valið hin klassísku smiðjufög; heimilisfræði, myndmennt, smíði og textílmennt. Þótt valinu sé stýrt að hluta, hafa nemendur nú meira um það að segja en áður hvaða list- og verkgreinar þeir velja að leggja áherslu á. Alls geta nemendur valið úr 25 valgreinum fyrir komandi skólaár. Þar af eru 7 list- og verkgreinar. Allt val verður kennt fyrir hádegi, sem er nýbreytni.

Þeim valnámskeiðum sem í boði eru fyrir komandi skólaár má skipta í fjóra flokka:

List- og verkgreinar

 • Allt um bílinn
 • Heimilisfræði
 • Leiklist og framsögn
 • Myndmennt
 • Smíði
 • Starfsfræðsla, handverk og hegðun
 • Textílmennt

Líðan, samskipti og lífsleikni:

 • Fjármálalæsi
 • Jóga
 • Leiðtogi í eigin lífi
 • Hvernig á að temja drekann sinn
 • Kynja- og kynfræðsla
 • Sjálfsmynd - samskipti, samfélagsmiðlar, húðumhirða, hreyfing, næring
 • Spil og leikir
 • Táknmál

Saga:

 • Íþróttasaga
 • Kvikmyndasaga
 • Popp- og rokksaga

Annað:

 • Enski boltinn, Í fréttum er þetta helst, Skák, Stjörnufræði og framhaldsskólaáfangar.

Önnur nýbreytni í stundatöflum bekkja á elsta stigi sem vert er að nefna er að komið var til móts við óskir umsjónarkennara í kjölfar Covid fársins, að búa til aðstoðartíma þar sem umsjónarkennari er með sinn hóp og aðstoðar við það sem þörf er á hverju sinni. Með aðstoð frá faggreinakennurum í einhverjum tilvikum. Þá er elsta stig að feta sig í átt að aukinni samþættingu, en í 8.bekkjum verður ein kennslustund á viku lögð undir áhugasviðsverkefni þar sem nemendur geta valið sér viðfangsefni eftir áhuga og unnið úr þeim á þann hátt sem þeir telja að henti sér best. Umsjónarkennarar og námsráðgjafi halda utan um þessar kennslustundir.