Líðan og samvera

Okkur hefur verið tíðrætt um líðan nemenda. Það er forsenda fyrir góðum námsárangri að nemendum og starfsfólki líði vel. Áfram er líðan stór þáttur í hugmyndum okkar um skólabraginn ásamt góðum hreinskiptnum samskiptum. Þessi atriði eru góð viðbót við okkar góðu einkennisorð eða gildin okkar: Viska, virðing og vinátta. Við viljum að þessi vel völdu orð einkenni allt starf í skólanum. Umsjónarkennarar hafa talsverðan tíma með sínum hópum, umsjónartímar í 20 mínútur þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Auk þess er 40 mínútna kennslustund á viku ætluð til bekkjarfunda og umræðna. Tvisvar í mánuði skal hver bekkur halda Olweusarbekkjarfund. Umsjónarkennarar skulu taka einstaklingsviðtöl við umsjónarnemendur sína. Fyrirhugaðar eru kennslukannanir, þar sem nemendur meta jafnvel önnur atriði en kennslu. Er kennari duglegur að leyfa nemendum að standa upp, hrista og teygja, ríkir gagnkvæm virðing í stofunni? Er erfitt? Er gaman? Eru kennslustundir brotnar upp á einhvern hátt? Hvernig ganga bekkjarfundir?

Það er mikilvægt að öllum sé sýndur persónulegur áhugi. Hvaða „tæki“ höfum við til að okkur líði vel? Er íhugun málið? Sjálfshjálparbækur? Núvitund? Hér er tækifæri til að vinna með styrkleika hvers og eins, áhugasviðstengd verkefni og fleira í þeim dúr.

Með samveru ætlum við að efla tengsl í hverjum hópi. Félagsvitund, samkennd og samhygð. Hægt er að fara í margskonar hópeflisleiki. Útivera og útikennsla er kjörin vettvangur til að efla gæði í samverustundum. Í 2., 4., 5., 6. og 7. bekkjum verður fimmskipting í klassísku smiðjunum. Í 2., 4. og 5. bekkjum kemur umsjónarkennari inn í fimmtu smiðjuna. Í 6. og 7.  bekkjum kemur námsráðgjafi inn í fimmtu smiðjuna og vinnur með samskipti. Með þessari skiptingu fæst þar tækifæri til þess að efla samskiptahæfni og vinna að því að efla gagnrýna hugsun.

Með góðum tjáskiptum getum við tjáð okkur, með orðum og án orða miðað við kringumstæður hverju sinni. Í þessu felst t.d. að geta tjáð langanir okkar og skoðanir eða þá að biðja um ráð þegar þess gerist þörf. Í góðum samskiptum felst að komast í samband við þá sem við þurfum að eiga samskipti við. Það er mjög mikilvægt fyrir andlega og félagslega vellíðan að geta stofnað til og viðhaldið vinsamlegum tengslum við aðra.