Kennslufræði í rétta átt

Kennsluaðferðir kennara við Grunnskólann í Hveragerði eru fjölbreyttar og valdar með tilliti til; kennslugreina, tiltæks námsefnis, nemendahóps og aðstæðna. Fólk lærir nýja hluti alla ævi. Við tökumst á við mismunandi verkefni á ólíkum æviskeiðum. Örar breytingar á samfélagi, vinnustöðum og tækni kalla á að fólk kunni til verka og sé reiðubúið að læra nýja hluti að eigin frumkvæði og undir eigin stjórn. Til þess að allt gangi vel hefur það þótt eðlilegast að allt nám sem skipulagt er af kennurum innihaldi einhverja þætti sem auka færni nemenda í að skipuleggja sig og sinna námi sínu sjálfstætt. Nemendur auki þannig þekkingu sína, hæfni og leikni upp á eigin spýtur. Það mætti segja að hlutverk allra kennara sé að styðja við sjálfstýrt ævinám nemenda sinna sem gerir þá að betri námsmönnum, hvort sem þeir læra í hópi eða sjálfstætt.