Fyrsta nemendaþing skólaársins

Í skólanum eru reglulega haldin nemendaþing yfir skólaárið. Hið fyrsta var haldið sl. þriðjudag og að þessu sinni tóku nemendur í 5. og 7. bekkjum þátt. Markmið nemendaþinga eru að veita nemendum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hefur merkingu fyrir daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins. Spurt var m.a. um hvað sé best við skólann, hvað þurfi að laga, hvenær skólinn ætti að byrja á morgnana, hver einkunnarorð skólans eru og hugmyndir nemenda um umræðuefni á bekkjarfundum. Nemendur stóðu sig mjög vel og komu skýrar skoðanir fram í nemendahópnum varðandi hin og þessi málefni. Það má til dæmis nefna að þegar hóparnir fengu það verkefni að gefa samnemendum sínum góð ráð stóð ekki á svörum og voru nemendur heilt yfir sammála um að þeir þyrftu að passa að hegða sér vel og vera góð hvert við annað.

Það vakti einnig athygli að þegar nemendur fengu það verkefni að velta fyrir sér hvað þyrfti að laga í skólanum var niðurstaðan mjög skýr. Nemendur voru sammála því að þau vildu nota tölvur og spjaldtölvur meira í kennslu og vildu meina að skólinn þyrfti að kaupa fleiri slík tæki af því að það væri svo gaman að læra í gegnum tækin. Krakkarnir vita greinilega hvað þeir vilja.