Samstarf milli skólastiga

Samstarf grunnskóla og leikskóla

Samstarf leik- og grunnskóla er mikilvægur þáttur í grunnskólabyrjun barns og í Grunnskólanum í Hveragerði hefur starfsfólk lagt sig fram um að gera flutning barna á milli skólastiga sem auðveldastan og ánægjulegastan fyrir nemendur og foreldra.

Samstarf leikskólanna og Grunnskólans hefst þegar barn er á síðasta ári í leikskóla í skólahópi. Í september hittast umsjónakennarar 1. bekkja og leikskólakennarar skólahóps, ræða um starfið í báðum skólunum, hvað börnin eru að fást við á leikskólunum og hins vegar í 1. bekk. Þá eru heimsóknir dagsettar fyrir komandi vetur. Í september koma leikskólabörnin í heimsókn með leikskólakennurunum þar sem þau fá að hitta skólastjórnendur að skoða skólann. Í október fara börnin í 1. bekk í heimsóknir á gamla leikskólann sinn og í nóvember koma leikskólabörnin í heimsókn í 1. bekk og taka þátt í starfinu. Í desember koma leikskólabörnin og taka þátt í gangasöng með öllum nemendum Grunnskólans. Eftir áramót eru heimsóknir einu sinni í mánuði í 1. bekkinn. Um vorið, í maí, er sameiginleg gönguferð með báðum leikskólunum og 1. bekkjunum.

Síðasti þátturinn í samstarfinu er vorskólinn. Öll börnin fá boðsbréf í vorskólann sem er í þrjá daga.  Stefnt er að því að þeir kennarar sem munu kenna 1. bekk veturinn eftir taki á móti nemendum í vorskólann. Á þeim dögum er haldinn formlegur fundur með öllum foreldrum á sal skólans, hann er tímasettur kl 18:00 og stendur í klukkustund. Þar er farið yfir hvað gott er að leggja áherslur á yfir sumarið svo sem að læra að klæða sig sjálfur, fara á sundnámskeið, þjálfa salernisferðir og fleira í þeim dúr. Þar er fyrirkomulag skólans kynnt varðandi sameiginleg skólagögn nemenda. Hér skapast góður grundvöllur til  að spyrja spurninga.

 Á starfsdögum kennara að hausti, áður er skólastarfið hefst, boða umsjónarkennarar foreldra í viðtal með barni sínu.

Skólafærninámskeið er haldið seinni hluta ágústmánaðar þar sem foreldrar hlýða á margskonar erindi sem varða skólabyrjun barna þeirra. Þar er einnig lögð áhersla á að foreldrar kynnist og blandi geði. 

Nám að loknum grunnskóla

Námsráðgjafar byrja í 8. bekk að kynna nemendum námsúrval framhaldsskólanna en þar er úr miklu að velja. Fræðslunni er skipt upp á eftirfarandi hátt:

8. bekkur - Námsbrautir og inntökuskilyrði framhaldsskólanna eru kynnt.

9. bekkur - Námsbrautir og inntökuskilyrði framhaldsskólanna eru kynnt.

10. bekkur - Nemendur í 10. bekk fá ítarlega kynningu á:

  • Námsbrautum framhaldsskólanna.
  • Inntökuskilyrðum.
  • Framhaldsskólakerfinu (áfangakerfi/bekkjakerfi).

Nemendum stendur auk þess til boða að heimsækja nokkra framhaldsskóla. Nemendur geta fengið einstaklingsmiðaða ráðgjöf ef þess er óskað, auk þess að taka áhugasviðskönnun, sem getur hjálpað þeim að taka ákvörðun um náms- eða starfsval. Tímapantanir fara fram á skrifstofu skólans.