Skýrsla 2011-2013

Matsskýrsla með grænfánaumsókn

I. Formáli

Haustið 2008 var sú ákvörðun tekin í Grunnskólanum í Hveragerði að taka þátt í alþjóðlegu verkefni á vegum Landverndar sem ber yfirskriftina „Skólar á grænni grein“. Markmið verkefnisins er að auka og styrkja umhverfismenntun í skólum.

Hér birtist greinagerð Grunnskólans í Hveragerði með umsókn um Grænfána, sem skólinn sækir nú um í annað sinn. Í greinagerðinni er fjallað um umhverfisnefnd skólans, gerð grein fyrir stöðu umhverfismála í skólanum og þróun síðustu ára og sagt frá áætlun um aðgerðir og markmið, fjallað um eftirlit og endurmat, auk kynningu á umhverfisstefnu skólans.

II. Grunnskólinn í Hveragerði

Upphaflega stóð Ölfushreppur einn að skólahaldi, en eftir að Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 1946 hafa þessi tvö sveitarfélög staðið sameiginlega að rekstrinum. Nemendur úr dreifbýli Ölfushrepps sækja skóla í Hveragerði.

Áður en Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag var skóli starfræktur að Kröggólfsstöðum í Ölfusi. Hann tók til starfa haustið 1881 og var þeim börnum sem ekki gátu gengið daglega í skólann komið fyrir á næstu bæjum. Þrátt fyrir að skólinn leggðist niður vorið 1892 var barnakennslu haldið áfram á árunum 1892-1897, með farkennurum. Með fræðslulögunum 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins og þá var skólahús reist á Kotströnd og annað á Hjalla. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli og þegar Þinghús (elsti hluti gamla Hótels Hveragerðis) var byggt í Hveragerði árið 1930 fluttist skólahald þangað.

Árið 1937 var stofnaður heimavistarskóli í Hveragerði, þegar keypt var hús sem áður hafði verið barnaheimili Oddfellowreglunnar. Eftir að skólabíll var keyptur árið 1943 hefur skólinn verið heimangönguskóli. Elsti hluti núverandi aðalbyggingar var tekinn í notkun haustið 1947. Skólanum var skipt upp í tvær aðskildar stofnanir 1972, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði. Þegar viðbygging við gamla barnaskólann var tekin í notkun 1988, var skólinn sameinaður á ný í eina stofnun. Skólinn var tvísetinn að hluta til ársins 2001, þegar sex nýjar kennslustofur voru teknar í notkun. Þrátt fyrir þessa viðbót er enn brýn þörf nýbyggingum.

Grunnskólinn í Hveragerði er mjög vel staðsettur með náttúruperlur allt um kring. Varmá er í túnfætinum og þar er m.a. að finna heitar uppsprettur. Sundlaugin í Laugaskarði steinsnar frá, að ógleymdu náttúruundri sem á fáa sína líka í heiminum, en það er hverasvæðið við Hveramörk. Mjög fallegar gönguleiðir eru í næsta nágrenni skólans og óþrjótandi möguleikar til útivistar- og útikennslu.

III. Umhverfisnefnd

Í umhverfisnefnd skólans sitja fulltrúar nemenda (tveir nemendur úr hverjum árgangi), sex kennarar (nokkrir nýir komu inn haustið 2013), fulltrúi skólastjórnenda, húsvörður, forsvarsmaður útistofu, auk verkefnisstjóra. Val nemenda fór fram með mismunandi hætti eftir stigunum, stundum fóru fram kosningar í bekkjum og stundum var komið að máli við nemendur sem sýnt höfðu sérstakan áhuga á umhverfismálum. Í byrjun skólaárs 2011 var ákveðið að fjölga fulltrúum nemenda og leitast við að a.m.k. fjórir nemendur af hverju stigi sætu í nefndinni, auk þess sem allir sem áhuga hefðu fengju að sitja fundi nefndarinnar. Eins var ákveðið að aldurskipta fundum með nemendum og hafa yngra stigið saman og eldri nemendur saman því yngri nemendur þora frekar að tjá sig þegar eldri nemendur eru ekki til staðar. Þetta fyrirkomulag hefur gengið mjög vel.

Umhverfisnefndin fundar einu sinni í viku án nemenda og reynt hefur verið að funda einu sinni í mánuði með nemendum sem stundum hefur þó raskast umtalsvert. Auk fastafulltrúa hafa aðrir starfsmenn verið boðaðir á fundi nefndarinnar þegar umræðuefni fundarins hefur snert starfssvið viðkomandi sérstaklega. Auk formlegra funda hefur fjöldi óformlegra „funda“ fleiri eða færri starfsmanna átt sér stað (n.k. vinnufundir), þegar leysa hefur þurft úr málum með hraði.

Á fyrsta fundi umhverfisnefndarinna að hausti eru línurnar lagðar fyrir komandi skólaár, með hliðsjón af stöðu mála og framgangi síðasta árs. Á næstu fundum er framgangur verkefnisins stöðugt metinn, skerpt á stöku þáttum og nýjar áherslur lagðar. Á milli funda hefur það komið í hlut verkefnisstjóra og fulltrúa kennara elsta stigs að fylgja málunum eftir. Fundagerðir eru vistaðar á innra neti skólans, aðgengilegar öllum kennurum skólans.

IV. Mat á stöðu umhverfismála og endurmat

Til að leggja mat á stöðu umhverfismála innan skólans hefur umhverfisnefndin farið yfir gátlista Landverndar á fundum áður en skýrsla þessi var samin og borin saman við skýrslur sem gerðar voru rfá 2008 og 2011. Markmið þessa var að ná fram með skýrum hætti yfirliti yfir stöðu umhverfismála innan skólans og þeim breytingum sem verkefnið hefur stuðlað að.

Þegar niðurstöður gátlistanna (sjá fylgiskjöl 1, ), sem annars vegar voru lagðir fyrir starfsfólk skólans haustið 2011 og 2013 eru bornar saman kemur fram að náðst hefur að halda góðum dampi í flestum umhverfisþáttum og náðst hefur töluverður árangur á þessum tíma Af einstökum þáttum má t.d. nefna:

 1. Pappírsnotkun: Áður en verkefnið hófst var ekki um markvissan sparnað á pappír að ræða. Þá var bara í stöku tilfellum var ljósritað báðum megin á blöðin og afgangspappír notaður sem risspappír og til föndurs. Nú í dag hefur dæmið algjörlega snúist við, meginreglan er að ljósritað er báðum megin á blöð og afgangspappír nýttur eins og hægt er. Hins vegar er enn bara prentað öðru megin á blöð, sem stafar af því að flestir prentararnir bjóða ekki upp á annan möguleika. Í stað þess að urða allan afgangspappír eins og áður var, er allur pappír sem ekki nýtist innan húss sendur til endurvinnslu. Pappírsnotkun er enn haldið í lágmarki og er um helmingur af þeirri notkun sem áður var.  Litaprentari er notaður í lágmarki. Samskipti við heimili fara að mestu leiti fram í gegnum tölvupóst og upplýsingar eru birtar á heimasíðu, svo sem námsvísar, skóladagatal o.fl.
 2. Umbúðir undir mjólk og safa: Í upphafi verkefnisins var boðið upp á mjólk úr fimm lítra „belju“ í matsalnum, en nemendur fengu litlar mjólkurfernur með sér inn stofur í nestistímum. Í dag er hins vegar eingöngu boðið upp á mjólk úr stærri umbúðum. „Mjólkurbeljan“ er enn í matsalnum, en nemendur fá með sér mjólk úr 1-2 lítra fernum inn í stofur og hellt í glös, sem síðan eru þvegin í matsalnum. Þessi aðgerð hefur dregið mjög mikið úr magni mjólkurumbúða í skólanum. Í stað urðunar eins og áður tíðkaðist, eru allar mjólkurumbúðir sendar til endurvinnslu.
 3. Borðbúnaður og nestismál: Í dag er nánast bara notast við fjölnota borðbúnað og leirtau í skólanum. Allir starfsmenn eiga sína sérmerktu bolla, sem þeir geta geymt óþvegna á milli kaffitíma til að draga úr notkun uppþvottavélar og auk þess eru um 20 sérmerktir bollar ætlaðir gestum. Plastmál sem áður fyrr voru algeng sjást nánast ekki lengur, jafnvel á skólaskemmtunum þar sem plastmálin voru mest notuð eru nú notast við leirtau. Verulegt átak hefur verið gert í nestismálum nemenda og koma nú flestir með nesti sitt í nestisboxum. Í stað þess að henda nestisafgöngum í almennt sorp, er nemendum gert að fara með þá heim eða skila þeim í sérstaka kassa í mötuneyti undir lífrænan úrgang.
 4. Meðhöndlun á rusli: Segja má með réttu að bylting hafi orðið á meðhöndlun á rusli í skólanum á verkefnistímanum. Áður fyrr var lítið sem ekkert flokkað, allt fór að mestu í almennan ruslagám til urðunar. Nemendur og starfsfólk er vel meðvitað um reglur skólans um flokkun og endurvinnslu. Hins vegar eru vísbendingar um að ekki sé öruggt að allir foreldrar þekki reglur skólans nógu vel, nokkuð sem huga verður betur að. Í dag er allt rusl sem tilfellur innan skólans flokkað og það sem er endurvinnalegt sent til endurvinnslu hjá Íslenska gámafélaginu (t.d. pappír, fernur, bylgjupappi, plast og smærri málmhlutir) og allur lífrænn úrgangur er jarðgerður hjá Íslenska gámafélaginu. Rétt eins og áður var er rafhlöðum, ónýtum rafmagnstækjum, spilliefnum og flúrperum skilað á gámasvæði bæjarins til viðeigandi eyðingar. Föt sem „daga uppi“ í skólanum eru gefin Rauða krossinum, eins og áður.
 5. Nánasta umhverfi: Almenn ánægja ríkir með skólalóðina og auk þess býr skólinn það vel að eiga greiðan aðgang að náttúrulegu umhverfi í næsta nágrenni skólans. Hins vegar virðast nemendur oft á tíðum ekki þekkja nógu vel vernduð og friðlýst svæði í nágrenninu, sem þyrfti að bæta úr. Reynt er eftir fremsta megni að vekja nemendur til umhugsunar og vekja með þeim umhyggju fyrir nánasta umhverfi sínu. Einn liður í því er að 7. bekk er árlega falið að hreinsa rusl mánaðarlega af skólalóð, opnum, grænum svæðum bæjarins og meðfram helstu götum. Þarna sjá nemendur hversu miklu rusli er hent á víðavangi og vekur þau til umhugsunar um mikilvægi þess að ganga vel um og bera virðingu fyrir sínu nánasta umhverfi. Að launum fá nemendur greiðslu frá Hveragerðisbæ og sem rennur í ferðasjóð nemenda.
 6. Þegar umhverfishópurinn fór yfir gátlistann kom í ljós að það var margt sem vel var gert og hafði áunnist í umhverfismálum í skólanum. Enn eru þó nokkur atriði sem betur mættu fara og má þar t.d. nefna að bæta þarf aðgengi upplýsinga á heimasíðu skólans og vinnur ný umhverfisnefnd að því. Þá væri gott að koma upp skiltum úti við skólalóð við bílastæðin um lausagang bifreiða, þ.e. beina þeim tilmælum til ökumanna að drepa á bílvél á meðan beðið er. Við notum svansmerkta plastpoka í ruslafötur, en þurfum að gæta þess enn betur að skipta þeim ekki út fyrr en þeir séu orðnir ónothæfir.

V. Áætlun um aðgerðir og markmið

Í upphafi verkefnisins fór umtalsverður tími í að ræða og meta þau markmið sem ætlunin væri að stefna að og í framhaldi þar af að setja fram áætlun um aðgerðir næstu þriggja ára. Meginmarkmiðin sem sett voru í upphafi og skyldu vera leiðarljós okkar á næstu árum voru:

 • Að stuðla að umhverfisvænum starfsháttum og lífsvenjum, með áherslu á að halda mengun og verðmætasóun í lágmarki.
 • Að stuðla að aukinni vitund nemenda og starfsfólks um umhverfismál.
 • Að nemendur og starfsfólk læri að lifa í sátt við umhverfi sitt.
 • Að efla færni nemenda og starfsfólks til að takast á við umhverfismál á jákvæðan hátt, náttúrunni og samfélaginu til heilla.
 • Að gera nemendum og starfsfólki ljóst að það er hagkvæmt fyrir samfélagið að draga úr mengun, verðmætasóun og orkunotkun.
 • Að vinna gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum.
 • Að umhverfisfræðsla verði hluti af námi allra bekkja skólans, með samþættingu námsgreina.
 • Að hvetja til útivistar og hreyfingar.
 • Að nemendur séu meðvitaðir um hvernig hægt er að bæta líf sitt og komandi kynslóða með því að umgangast umhverfi sitt og náttúru af tillitssemi og umhyggju.
 • Að umhverfisvernd verði samvinna heimila og skóla.
 • Að efla útikennslu, m.a. með því að útbúa útikennslustofu undir Hamrinum.

Í upphafi Grænfánverkefnisins var megináherslu á sorpflokkun og endurvinnslu en á öðru stigi verkefnisins var ákveðið að leggja áherslu á nærumhverfið og setti nefndin sér eftirfarandi markmið:

 1. Kynna fyrir nemendum þær náttúruperlur sem við höfum í nágrenni við okkur.
 2. Nýting útistofu fyrir alla árganga og uppbygging grenndarskóga með gróðursetningu.
 3. Skapa samfellu í náttúrufræðikennslu fyrir 1. – 10. bekk.
 4. Að efla þátt umhverfismenntar í öllum námsgreinum.

Vel hefur gengið að ná þessum markmiðum.

VI. Það sem unnið var að árin 2011 - 2013

Umhverfisnefndin hefur í lok hvers skólaárs gefið út samantekt yfir helstu þætti sem unnið hefur verið að og sem gefur þokkalega mynd af starfi hvers skólaárs.

6.1. Ársskýrsla skólaársins 2011 - 2012

Starfið hófst með skipan umhverfisnefndar í byrjun skólaárs 2011. Við skipan nefndarinnar var lögð áhersla á að sem flest starfssvið innan skólans ættu þar fulltrúa ásamt nemendum af öllum þremur stigum skólans. Fulltrúar starfsmanna í umhverfisnefndinni eru Ari, Jón Einar, Ása, Guðjón, Guðríður, Auðbjörg, Hallur, Auður, Garðar og Kolbrún. Nefndin fundaði á tveggja vikna fresti á tímabilinu, auk fjölda óformlegra samræðustunda. Fundargerðirnar má finna á innra neti skólans undir heitinu Grænfáni á kennarasameigninni.

Fyrsta verk nefndarinnar var að kanna stöðu umhverfismála í skólanum. Farið var yfir umgengnisvenjur og sorpflokkun hjá hverjum árgangi fyrir sig og Guðbjörg matráðurtók á móti hópum til að fara yfir flokkun í mötuneytinu.

Ákveðið var að virkja kennara betur til að nota útistofuna ásamt því að fara meira með nemendur út í náttúruna. Það gekk vonum framar og var útistofan mikið notuð. Í sumum bekkjardeildum var fastur útistofutími á viku á meðan aðrir kusu að fara eftir veðri og vindum.

Tveir fastir hópar notuðu útistofuna mikið. Annars vega var boðið upp á val á elsta stigi sem vann að leiktækjagerð, stunduðu trjáhögg, æfði sig í eldamennsku og stundaði útivist. Þessi hópur var eftir hádegi einn dag í viku og voru nokkrir virkir nemendur yfir veturinn. Hins vegar var annar hópur einn morgun í viku. Það voru allt drengir með ADHD greiningu eða á einhverfurófi. Það verkefni var styrkt af Velferðarráðuneytinu og gekk prýðis vel. Þeir unnu líka að leiktækjagerð, elduðu og stunduðu útivist. Þessir drengir voru mjög ánægðir og sóttust eftir aukatímum með valinu. Yfirleitt var orðið að þeim óskum.

Sveppatýnsluferð var farin með nemendum á elsta stigi sem Ari náttúrufræðikennari stjórnaði. Þar lærðu nemendur að skoða og greina sveppi. Nemendur voru langflestir mjög ánægðir með þessa ferð og komu heim með fulla poka af ætisveppum.

Í þeim tilgangi að efla samkennd og samfélagskennd meðal nemenda starfa s.k. vinabekkir innan skólans, vinahóparnir eru þannig skipaðir að 2., 6. og 10.bekkur mynda einn vinahóp, 1., 5. og 9. bekkur annan vinahóp, 3. og 7. bekkur þann þriðja og 4. og 8. bekkur þann fjórða .Á aðventunni var farin vinanganga í þessum hópum sem kallast vasaljósafriðarganga. Sú ganga hefur verið fastur liður í dagskrá skólans í mörg ár. Gengið var undir Reykjafjalli í átt að Ölfusborgum og til baka í gegnum Reyki. Þessi ganga heppnaðist mjög vel og var fallegt að sjá ljósakeðjuna sem myndast þegar nemendur ganga í myrkrinu með ljósin sín.

Eins og á síðasta ári sáu nemendur 7. bekkjar um að tæma reglulega grænu og gulu söfnunarkassana fyrir pappír og fernur og fá þeir smá greiðslu fyrir sem rennur í ferðasjóð bekkjarins. Auk þess sjá þessir nemendur um að hreinsa skólalóð, rusl á á götum og í görðum innan bæjarins u.þ.b. mánaðarlega. Hvoru tveggja leystu nemendurnir vel af hendi. Á sama hátt héldu nemendur 10. bekkjar áfram að aðstoða í mötuneyti, m.a. við uppþvott og flokkun þess lífræna úrgangs sem til fellur.

Í skólanum hafa fleiri verkefni í tengslum við umhverfismennt fest sig í sessi. Á yngsta stigi er í gangi samstarfsverkefni á milli Grunnskólans og Landbúnaðarháskóla Íslands er nefnist Græna framtíðin. Markmið verkefnisins er að nýta þá aðstöðu og þekkingu sem er til staðar á Reykjum, þjálfa kennara Grunnskólans í verklegri kennslu á sviði náttúrufræða og færa hefðbundna kennslu út fyrir veggi skólastofunnar. Þegar líður að vori fara nemendur upp á Reyki og sá þar t.d. sumarblómum, sem fylgt er reglulega eftir með priklun og vökvun. Nemendur 6. bekkjar taka þátt í alþjóðlegu vatnsmælingaverkefni, þar sem unnið er með vatnsgæði neysluvatns og þau rannsökuð. Verkefnið felst í að rannsaka hitastig, grugg, súrefni og sýrustig í neysluvatni skólans, Varmánni og lækjarsprænu neðan sundlaugar. Að loknum mælingum og úrvinnslu eru niðurstöðurnar sendar til íslensku verkefnisstjórnarinnar (á www.vatnid.is)  sem síðan kemur þeim til alþjóðaheimasíðunnar (www.worldwatermonitoringday.org).

Skólinn tekur á hverju ári þátt í verkefninu „Göngum í skólann“ og eru bæði nemendur og starfsfólk hvatt til að leggja bílnum og ganga eða hjóla. Þetta átak hefur alltaf gengið vel og mikil samkeppni milli bekkja um hver er duglegastur. Með þessu móti er fólk vakið til umhugsunar um heilsueflingu og minni mengun.

6.3. Ársskýrsla skólaársins 2012 – 2013

Umhverfisnefndina skipuðu Ari Eggertson, Kolbrún Vilhjálmsdóttir, Erna Ingvarsdóttir, Sólrún Auður Katarínusardóttir, Jón Einar Valdimarsson, Guðríður Aadnegard, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Guðjón Árnason. Úr nemendahóp voru valdir tveir nemendur úr hverjum árgangi og skiptust nemendur á að mæta á fundi. Grænfánafundir með nemendum voru nokkrir í vetur en nokkuð óreglulega. Fundirnir voru góðir og börnin verða sífellt betri í að tjá skoðanir sínar og viljugri að taka ábyrgð. Það er eftirtektarvert að ábyrgð nemenda á elsta stigi vex og teljum við að uppeldið á yngri stigum sé að skila sér. Við prófuðum einnig að skipta fundunum upp á milli stiga, þ.e. að hafa sér fundi með yngri deildum annars vegar og eldri deildum hins vegar. Það kom mjög vel út því þá voru yngri nemendur óhræddir við að tjá sig og klöguðu þau eldri mátulega á þeim fundum.

Áfram var haldið með að virkja kennara betur til að nota útistofuna ásamt því að fara meira með nemendur út í náttúruna. Það markmið náðist afar vel og var útistofan mikið notuð. Áfram var fastur útistofutími í sumum bekkjardeildum á meðan aðrir kusu að fara eftir veðri og vindum.

Tveir fastir hópar notuðu útistofuna mikið. Annars vega var boðið upp á val á elsta stigi sem vann að leiktækjagerð, stunduðu trjáhögg, æfði sig í eldamennsku og stundaði útivist. Þessi hópur var eftir hádegi einn dag í viku og voru 8 virkir nemendur yfir veturinn. Hins vegar var annar hópur einn morgun í viku. Það voru 5 drengir, allir með ADHD greiningu eða á einhverfurófi. Það verkefni var styrkt af Velferðarráðuneytinu og gekk prýðis vel. Þeir unnu líka að leiktækjagerð, elduðu og stunduðu útivist. Þessir drengir voru mjög ánægðir og sóttust eftir aukatímum með valinu. Yfirleitt var orðið að þeim óskum.

Vinnan hjá þessum hópum við útistofuna gekk ágætlega. Vísir að leiktækjum er risinn upp og mun sú vinna halda áfram á komandi vetri.

Að hausti var farin vinaganga í berjamó með öllum árgöngum. Þá var gengið undir Hamrinum að Kömbum. Þar er að finna heilmikið berjasvæði og undu börnin sér vel.

Á aðventunni var svo farin önnur vinanganga sem kallast vasaljósafriðarganga. Sú ganga hefur verið fastur liður í dagskrá skólans í mörg ár. Í þetta sinn var ákveðið að ganga í myrkrinu í útistofuna og þar var drukkið heitt kakó og borðaðar smákökur. Heppnaðist sú ganga afar vel og allir voru glaðir og ánægðir.

Náttúrufræðikennarinn fór með nemendur elsta stigs í sveppatínsluferð. Þar lærðu nemendur að skoða og greina sveppi. Nemendur voru langflestir mjög ánægðir með þessa ferð og komu heim með fulla poka af ætisveppum.

Textílkennarinn fór með hóp nemenda og skreytti útistofuna. Þar voru settir upp stórir kóngulóarvefir ásamt öðru skemmtilegu skrauti sem fékk að hanga í trjánum yfir veturinn.

Margir bekkir voru einnig duglegir að fara út þó þeir hafi ekki einblínt á útistofuna. Hveragerði hefur upp á að bjóða dásamlegt umhverfi sem hægt er að nýta til ýmissa vettvangsrannsókna. Varmá rennur nánast við hlið skólans, Garðyrkjuskólinn að Reykjum og umhverfið þar í kring er steinsnar frá skólanum, Hverasvæðið, Reykjadalur, Reykjafjall  og fleira. Þetta umhverfi hafa kennarar og nemendur nýtt ágætlega þó alltaf megi gera enn betur.

Tvö umhverfisverkefni eru í gangi í samstarfi við Hveragerðisbæ. Annars vegar sjá sjöundu bekkingar um ruslatínslu í bænum gegn greiðslu. Ágóðinn fer í vorferð nemenda á Úlfljótsvatn. Miðað er við að nemendur fari minnst einu sinni í mánuði og hirði rusl og jafnvel oftar ef þurfa þykir. Hins vegar eru tíundi bekkingar með samning við bæinn um aðstoð í mötuneyti og sjá að hluta um frímínútnagæslu. Ágóðinn af þeirri vinnu fer í lokaferð nemenda að loknum tíunda bekk.

Græna framtíðin er samstarfsverkefni við Garðyrkjuskólann að Reykjum sem hefur haldið í mörg ár. Þegar líður að vori fara nemendur á yngsta stigi og læra að sá fyrir sumarblómum. Reglulega er svo farið og vökvað og priklað. Það eru svo glaðir nemendur sem fá að fara heim með nokkuð af sumarblómum í farangrinum þegar skóla er slitið á vorin.

Nemendur 6. bekkja taka þátt í alþjóðlegu vatnsmælingarverkefni. Þar er unnið með vatnsgæði neysluvatns og þau rannsökuð. Verkefnið felst í að rannsaka hitastig, grugg, súrefni og sýrustig í neysluvatni skólans, Varmánni og lækjarsprænu fyrir neðan sundlaug. Að loknum mælingum og úrvinnslu eru niðurstöðurnar sendar til íslensku verkefnisstjórnarinnar.

Sorpflokkun í skólanum gekk vel og verður stöðugt betri. Að vísu eru oft einhverjir agnúar í mötuneyti  sem þarf að leysa en þeir verða sífellt minni. Samkvæmt könnun sem gerð var meðal þorpsbúa gengur sorpflokkun ekki alveg nógu vel og getur skólinn því verið gott hjálpartæki til að ala sorpflokkun upp hjá nemendum.

Á hverju ári taka nemendur og stasrfsfólk þátt í verkefninu „Göngum í skólann“. Þá er efnt til samkeppni milli bekkja um að ganga eða hjóla sem mest í skólann. Þannig tekst að vekja fólk betur til meðvitundar um hversu heilsusamlegt það er að ganga eða hjóla í stað þess að nota ökutæki.

Síðastliðin tvö ár hefur skólinn verið í verkefni á vegum Comeniusar í samstarfi við 5 aðra skóla í Evrópu. Megin þema þess verkefnis var umhverfismennt og farið var í gegnum fjölmörg verkefni sem tengdust þessu efni.  Þar var m.a fjallað um meðhöndlun á rusli, varðveislu auðlinda og vistfræðilega þróun, jarðhita og endurnýjanlegar auðlindir, meðhöndlun og varðveislu vatnsauðlinda og vindbúskap. Tveir til þrír kennarar komu frá hverju landi og heimsóttu hvern skóla fyrir sig þar sem hvert  verkefni  var kynnt. Kennararnir fóru svo með verkefnin í sinn heimaskóla þar sem nemendur voru látnir vinna og gera grein fyrir niðurstöðum.  Heilmikil verkefnavinna kom út úr þessu samstarfi sem tók enda í maí 2013.

VII. Umhverfisstefna Grunnskólans í Hveragerði

Grunnskólinn í Hveragerði kappkostar að hafa sjónarmið umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi, í samræmi við markmið Staðardagskrár 21 þar sem stefnt er að því að daglegt líf stuðli að sjálfbæru samfélagi. Skólinn leggur áherslu á að nemendur verði meðvitaðir um umhverfi sitt og mikilvægi þess að ganga um náttúru og auðlindir jarðar af virðingu og ábyrgð. Skólinn einsetur sér að nota starfshætti umhverfisverndar og stuðla að umhverfisvænu samfélagi. Takmarkið er að umhverfisstefnan verði hluti af daglegu lífi nemenda og starfsfólks hvort heldur er á vinnustað, á heimili, á ferðalagi eða annars staðar.

Umhverfisstefnan er inni á heimasíðu skólans.

XI. Lokaorð

Við í Grunnskólanum í Hveragerði erum ánægð með þá vinnu og árangur sem náðst hefur síðast liðin tvö ár. Okkur finnst mikilvægt að viðhalda stefnu okkar og bæta svo við hana ákveðnum þáttum til að stuðla að þróun í umhverfismálum skólans og teygja arma okkar lengra út í grenndarsamfélagið.

Umhverfisnefndin hefur starfað vel og þeir nemendur sem hafa setið í umhverfisnefndinni hafa sýnt starfi hennar áhuga og komið með gagnlegar ábendingar. Það ríkir almennur vilji innan skólans til að vinna áfram að umhverfismálum og tryggja okkur Grænfánann áfram. Kennarar, nemendur og annað starfsfólk skólans hafa yfirleitt tekið vel í verkefni sem hlúa að markmiðum okkar. Markmið okkar með umhverfismennt, flokkun og endurnýtingu er að auka þekkingu og skapa jákvætt viðhorf nemenda og starfsmanna skólans á umhverfismálum.

Hér hefur verið stiklað á stóru um umhverfismál í Grunnskólanum í Hveragerði og greinilegt er að ýmislegt hefur áunnist í þeim málum á undanförnum árum. Notkun á gátlista Landverndar um stöðu umhverfismála í skólanum leiddi í ljós að við stöndum okkur vel að mörgu leyti og það sem betur má fara ætti yfirleitt að vera auðvelt að bæta. Áhersla næstu ára verður því lögð á það að styrkja það sem vel er gert og bæta það sem bæta þarf.

Go to top