Ársskýrsla 2010

Ársskýrsla 2010

GRÆNFÁNI – UMHVERFISNEFND

-

Samantekt vetrarins 2010/2011

 

 

Umhverfisnefndina skipuðu í ár auk undirritaðs Ari Eggertsson, Guðríður Aadnegard, Anna Margrét Stefánsdóttir, Erna Ingvarsdóttir, Guðjón Árnason og Magnús Gíslason húsvörður, fulltrúar nemenda voru Anna Guðrún og Særún úr 4. bekk, Gunnar og Alexander úr 6. bekk og Óskar og Jökull úr 8. bekk. Nefndin hélt sex formlega fundi á tímabilinu, auk fjölda óformlegra samræðustunda.

 

 Að hausti 2010 var þráðurinn tekinn upp að nýju þar sem frá var horfið vorinu áður, þ.e. að leggja áherslu á flokkun úrgangs. Í ljósi reynslunnar frá síðasta ári taldi umhverfisnefndin rétt að leggja áherslu á eftirfarandi þætti skólaárið 2010/2011:

  1. Skerpa enn frekar á flokkuninni í matsalnum. Til að ná settu marki er nauðsynlegt að fá tvo flokkunarvagna þangað. Þegar þeir væru komnir í gagnið væri upplagt að nýta vinahópana þar sem eldri nemendur myndu sækja þá yngri og kenna þeim flokkunina.
  2. Kanna möguleikana á að hætta notkun litlu mjólkurfernanna og nota þær stóru í þeirra stað. Nemdur gætu þá t.d. verið með glös í stofunum, en vandamálið er að ekki eru vaskar í öllum stofum, þá þyrftu t.d. umsjónarmenn að fara með glösin í eldhúsið og matráður þvegið þau þar.
  3. Rétt eins og á síðasta ári mun 7. bekkur sjá um að tæma pappírsvagnana, en huga þarf að því að hnippa í þau þegar kassar taka óvænt að yfirfyllast.
  4. Nauðsynlegt er að virkja fulltrúa nemenda enn frekar í störfum umhverfisnefndarinnar. Talið var óraunhæft að vera með fulltrúa nemenda úr öllum bekkjum, í þess stað var ákveðið að vera með tvo nemendur af hverju stigi (4., 6. og 8. bekk) sem þekkjast þokkalega svo að þeir verði öruggari með sig og virkari.
  5. Nýta samvinnu vinabekkjanna sem allra best, m.a. að 2., 6. og 10. bekkur fari saman í Yrkjuferð til að gróðursetja í Hamrinum í haust.

 

Í nóvember komu nýjir flokkunarvagnar í matsalinn. Í kjölfarið fóru allir umsjónakennarar með bekkina sína í matsalinn til að kynna fyrir nemendum enn frekar flokkunina sem þar fer fram. Þrátt fyrir þetta var umgegni og flokkun enn ábótavant í matsalnum þegar líða tók á veturinn, nokkuð sem taka verður á.

 

Á árinu sáu nemendur um að skreyta skjalið með umhverfisstefnu skólans og hefur það nú verið prentað í lit og hengt upp á ábernadi stöðum í skólanum.

 

Ekki varð nein breyting á notkun mjólkurferna í ár, enda málið umdeilt.

 

Í ár tókst að virkja fulltrúa nemenda mun betur en undanfarin ár, þeir tjáðu sig óhikað og lögðu sitt á vogaskálarnar um ýmis mál. Á fundum nefndarinnar kom m.a fram hjá fulltrúum nemenda að þeir vildu gjarnan að útistofan væri notuð meira. Í vetur var unnið ötullega að hreinsun þar og setja upp grillskýli svo hægt sé með góðu móti að fara þangað með hópa og grilla. Ennfremur vöktu þeir máls á umgegni 9. og 10. bekkinga í matsalnum og mikilvægi þess að eldri bekkingar séu þess meðvitaðir að þeir séu ákveðnar fyrirmyndir fyrir þá yngri. Fulltrúar nemenda sögðust mjög ánægðir með átakið á síðsta ári, þegar Íslenska Gámafélagið sendi ráðgjafa sína í skólann, og töldu áhugavert að fá aftur sérfræðinga í heimsókn með fræðsluerindi um umhverfismál.

 

Eins og á síðasta ári sáu nemendur 7. bekkjar um að tæma reglulega grænu og gulu söfnunarkassana fyrir pappír og fernur og fá þeir smá greiðslu fyrir sem rennur í ferðasjóð bekkjarins. Auk þess sjá þessir nemendur um að hreinsa rusl á á götum og í görðum innan bæjarins u.þ.b. mánaðarlega. Hvoru tveggja leystu nemendurnir vel af hendi. Á sama hátt héldu nemendur 10. bekkjar áfram að aðstoða í mötuneyti, m.a. við uppþvott og flokkun þess lífræna úrgangs sem til fellur.

 

Í skólanum hafa fleiri verkefni í tengslum við umhverfismennt fest sig í sessi. Á yngsta stigi er í gangi samstarfsverkefni á milli Grunnskólans og Landbúnaðarháskóla Íslands er nefnist Græna framtíðin. Markmið verkefnisins er að nýta þá aðstöðu og þekkingu sem er til staðar á Reykjum, þjálfa kennara Grunnskólans í verklegri kennslu á sviði náttúrufræða og færa hefðbundna kennslu út fyrir veggi skólastofunnar. Þegar líður að vori fara nemendur upp á Reyki og sá þar t.d. sumarblómum, sem fylgt er reglulega eftir með priklun og vökvun. Nemendur 6. bekkjar taka þátt í alþjóðlegu vatnsmælingaverkefni, þar sem unnið er með vatnsgæði neysluvatns og þau rannsökuð. Verkefnið felst í að rannsaka hitastig, grugg, súrefni og sýrustig í neysluvatni skólans, Varmánni og lækjarsprænu neðan sundlaugar. Að loknum mælingum og úrvinnslu eru niðurstöðurnar sendar til íslensku verkefnisstjórnarinnar (á www.vatnid.is)  sem síðan kemur þeim til alþjóðaheimasíðunnar (www.worldwatermonitoringday.org).

 

Í þeim tilgangi að efla samkennd og samfélagskennd meðal nemenda starfa s.k. vinabekkir innan skólans, vinahóparnir eru þannig skipaðir að 2., 6. og 10.bekkur mynda einn vinahóp, 1., 5. og 9. bekkur annan vinahóp, 3. og 7. bekkur þann þriðja og 4. og 8. bekkur þann fjórða. Meðal fyrstu verkefna haustsins var gönguferð vinabekkja(2. 6. og 10. bekkur) að útistofu skólans undir Hamrinum til að gróðursetja trjáplöntur sem skólanum hafði verið úthlutað úr Yrkjusjóði. Í byrjun desember fóru vinahóparnir í vasaljósafriðargöngu upp með Varmá og niður með Reykjum og í skólann.

 

Sótt var um styrk til velferðarráðuneytisins og fengum við kr. 500.000 til að starfa með krökkum sem greinst hafa með ADHD. Hugmyndin er sú að gefa þessum krökkum færi á verklegu námi yndir handleisðlu garðyrkjumanns eða trésmiðs þar sem verkefnin koma að hugmyndavinnu, nýsmíði og viðhaldi. Öll verkefnin snerta þó útistofuna með einum eða öðrum þætti.

 

Frá velferðarráðuneytinu fengum við styrk til að vinna með ADHD greinda krakka í útistofu. Með styrknum er hugmyndin er sú að gefa þessum krökkum færi á verklegu- og skapandi námi undir handleiðslu kennara og garðyrkjumanns og/eða trésmiðs. Helstu verkefnin eru að koma að hugmyndavinnu, nýsmíði og viðhaldi. Öll verkefnin snerta þó útistofuna með einum eða öðrum þætti. Megin verkefni vorsins var að reisa grill-skýli/hýsi og byrja á fyrirhuguðum íþróttastíg og tiltekt. Allt gekk þetta með ágætum og er vel á veg komið.

 

Enginn nemandi sótti um útistofuval seinasta vetur og var það miður. Vonandi verður breyting þar á á næsta vetri.

 

Í heild gekk starfið mjög vel og mikilvægir áfangar náðst og á næsta skólaári þarf að halda áfram á sömu braut. Sorpflokkun í matsal er enn ábótavant og gera þarf átak í þeim efnum með haustinu.  Umhverfisnefndin telur rétt að leggja áherslu á eftirfarandi þætti næsta haust:

  1. Bæta umgegni og flokkun í mötuneytinu, jafnvel þyrfti að setja „gæslumann“ við flokkunardallana til að tryggja vandaða flokkun. Mikilsvert er að um sé að ræða sama starfsmann alla daga, a.m.k. fyrstu þrjá mánuðina í haust.
  2. Leggja fyrir gátlista í haust bæði fyrir starfsfólk og nemendur, t.d. mánuð eftir skólabyrjun.
  3. Hnykkja enn frekar á pappírsflokkun í skólastofum og vinnurýmum.
  4. Vera með sérstaka daga í skólanum sem tengjast Grænfánaverkefninu.
  5. Stefnt er á flöggun Grænfánans á haustmánuðum/vetrarbyrjun, t.d. á aðventunni.

 

 

 

 

Virðingarfyllst f.h. umhverfisnefndar

Garðar R. Árnason

verkefnisstjóri

 

Go to top